Meistarar Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir lyfta Íslandsbikarnum í Keflavík.
Meistarar Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir lyfta Íslandsbikarnum í Keflavík. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirliðinn Anna Ingunn Svansdóttir var enn á bleiku skýi er Morgunblaðið talaði við hana í gær eftir að Keflavík varð Íslandsmeistari í körfubolta í fyrsta sinn í sjö ár í fyrrakvöld. Keflavík vann Njarðvík, 3:0, í úrslitaeinvíginu og lyfti…

Meistarar

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Fyrirliðinn Anna Ingunn Svansdóttir var enn á bleiku skýi er Morgunblaðið talaði við hana í gær eftir að Keflavík varð Íslandsmeistari í körfubolta í fyrsta sinn í sjö ár í fyrrakvöld. Keflavík vann Njarðvík, 3:0, í úrslitaeinvíginu og lyfti Íslandsbikarnum fyrir framan troðfulla stúku í íþróttahúsi Keflvíkinga eftir sigur í þriðja leiknum, 72:56.

Anna var enn að ná sér niður er Morgunblaðið talaði við hana. „Ég get ekki lýst tilfinningunni. Ég er eiginlega ekki búin að ná mér niður eftir gærkvöldið. Það var partí uppi í íþróttahúsi og svo fórum við á aðalstaðinn í Keflavík, Brons,“ sagði Anna þegar hún var spurð hvað gert hefði verið til að fagna.

Unnið lengi að þessu

Keflavík var yfirburðalið á Íslandsmótinu í ár en liðið vann deildina, bikarinn og varð loks Íslandsmeistari. Liðið hafði ekki orðið Íslandsmeistari síðan 2017 en í fyrra tapaði Keflavík fyrir Val í úrslitaeinvíginu. Anna Ingunn segir Keflavíkurliðið hafa unnið lengi að þessu.

„Við erum búin að vinna lengi að þessu. Við vorum nálægt því í fyrra. Að landa titlinum loksins er mjög sætt, enda hefur það verið markmiðið í mörg ár. Við æfum alla daga, lyftum, skjótum og erum í hörkuformi. Þjálfararnir okkar eru frábærir. Við erum líka allar ótrúlega góðar í körfubolta,“ bætti Anna við er hún var spurð út í ástæðuna á bak við velgengni Keflavíkur.

Liðsfélagarnir frábærir

Anna er umkringd frábærum körfuknattleikskonum. Ein fremsta landsliðskona Íslands, Sara Rún Hinriksdóttir, gekk til liðs við Keflavík í janúar og var valin leikmaður úrslitaeinvígisins. Anna er ásamt Söru og Thelmu Ágústsdóttur alin upp í Keflavík. Þá hefur Daniela Wallen, sem er frá Venesúela, leikið með Keflavík í fimm ár.

„Sara er frábær leikmaður. Ég hef spilað með henni í landsliðinu en að fá hana til Keflavíkur var upplagt. Ég, hún og Thelma erum uppaldar í Keflavík og bestu vinkonur. Að fá að spila með þeim er alveg frábært. Varðandi Dani þá er hún búin að vera hjá okkur í fmm ár. Ég kann hundrað prósent á hana og hún á mig. Hún er alveg frábær leikmaður. Það er frábært að hafa spilað með henni öll þessi ár. Hún elskar Keflavík og Ísland og er mjög góð vinkona okkar allra.“

Þjöppuðu sér saman

Birna Valgerður Benonýsdóttir sleit krossband í undanúrslitum gegn Stjörnunni og lék því ekkert með Keflavík í úrslitaeinvíginu. Þá verður hún einnig frá keppni allt næsta tímabil. Anna Ingunn segir liðið hafa þjappað sér saman eftir að meiðsli Birnu urðu ljós. „Við vildum vinna þetta fyrir hana.“

Hún hrósaði fráfarandi þjálfara sínum Sverri Þór Sverrissyni í hástert en hann stýrði liðinu í síðasta sinn í fyrrakvöld. „Sverrir er frábær þjálfari. Hann heldur okkur alltaf á tánum og lætur okkur æfa vel. Ég sé eftir honum en svona er þetta.“

Stuðningurinn skiptir öllu

Stuðningsmannasveit Keflavíkur var heldur betur sýnileg í fyrrakvöld og var umgjörðin glæsileg. Anna segir það skipta miklu máli.

„Að hafa sjötta manninn uppi í stúku er ómetanlegt. Fullt hús klukkutíma fyrir leik, ég hef aldrei séð svona áður á kvennaleik. Umgjörðin var frábær, stjórnin er að gera svo vel og sér um okkur. Herra Hnetusmjör mættur og læti, alveg frábært,“ sagði Anna við Morgunblaðið.