Mjólkurkvóti Jóhannes Símonarson er framkvæmdastjóri Auðhumlu.
Mjólkurkvóti Jóhannes Símonarson er framkvæmdastjóri Auðhumlu. — Ljósmynd/Aðsend
Eftirspurn eftir mjólkurkvóta er minni en framboðið og verð hefur lækkað. Matvælaráðuneytið birti niðurstöðurnar eftir að fyrsti tilboðsmarkaður ársins var opnaður. Jóhannes Símonarson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, segir ástæðuna fyrst og fremst háa…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Eftirspurn eftir mjólkurkvóta er minni en framboðið og verð hefur lækkað. Matvælaráðuneytið birti niðurstöðurnar eftir að fyrsti tilboðsmarkaður ársins var opnaður.

Jóhannes Símonarson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, segir ástæðuna fyrst og fremst háa vexti sem hafi áhrif bæði á kvótakaup og endurnýjun og stækkun fjósa. Einnig spili það inn í að gott verð fáist fyrir umframmjólk, en bændur fá nú 85 kr. fyrir lítrann, þannig að það hafi sín áhrif líka.

„Jafnvægisverðið myndaðist í 280 krónum og þannig gátu þeir sem voru tilbúnir að kaupa á 280 krónur eða meira keypt allt sem þeir voru tilbúnir að kaupa og allir þeir sem voru tilbúnir að selja á 280 krónur eða minna gátu selt,“ segir Jóhannes.

Þessi verðþróun kom fram á nóvembermarkaðnum en þá var verðið 300 kr./ltr. Fram að því náðist fullt verð fyrir kvótann og þá var meiri eftirspurn en framboð.

Jóhannes segir að það geti líka haft áhrif að fjósin séu fullnýtt og bændur séu komnir með full afköst á búin og ekki tilbúnir að stækka.

„Það gengur vel að framleiða en það er áhyggjuefni hvað fáir bændur eru að framkvæma, byggja fjós og bæta aðstöðu sína.“