Loftárás Lögreglumenn bera hér út lík eins þeirra sem féllu í loftárásinni á prentsmiðjuna í Karkív-borg í gær.
Loftárás Lögreglumenn bera hér út lík eins þeirra sem féllu í loftárásinni á prentsmiðjuna í Karkív-borg í gær. — AFP/Sergey Bobok
Að minnsta kosti sjö manns féllu og 16 til viðbótar særðust í Karkív, næststærstu borg Úkraínu, í stórri loftárás sem Rússar gerðu á borgina í gær. Skutu þeir að minnsta kosti 15 eldflaugum að Karkív, og eyðilögðu meðal annars prentsmiðju þar sem bækur á úkraínsku voru prentaðar

Að minnsta kosti sjö manns féllu og 16 til viðbótar særðust í Karkív, næststærstu borg Úkraínu, í stórri loftárás sem Rússar gerðu á borgina í gær. Skutu þeir að minnsta kosti 15 eldflaugum að Karkív, og eyðilögðu meðal annars prentsmiðju þar sem bækur á úkraínsku voru prentaðar.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árásina í gær á samfélagsmiðlum sínum, og sagði að Rússar væru að nýta sér þá staðreynd að Úkraínumenn ráða ekki yfir nægilega mörgum loftvarnarkerfum til þess að verjast loftárásum þeirra við landamæri Rússlands og Úkraínu, en Karkív er einungis um 30 kílómetrum frá landamærunum.

Dmítró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu sagði í gær að vesturveldin yrðu að senda fleiri loftvarnarkerfi sem fyrst, en Úkraínumenn hafa óskað eftir sjö kerfum af gerðinni Patriot. Sagði Kúleba að þeirra væri þörf þegar í stað.

Talsmenn rússneska hersins sögðu í gær að herinn hefði aftur náð bænum Andrívka í Donetsk-héraði á sitt vald, en Úkraínumenn frelsuðu það í gagnsókn sinni síðasta sumar.

Kaja Kallas forsætisráðherra Eistlands sagði svo í gær að rússneskir landamæraverðir hefðu um nóttina fjarlægt baujur af Narva-ánni, sem marka landamæri landsins að Rússlandi. Atvikið átti sér stað degi eftir að rússneska varnarmálaráðuneytið lét fjarlægja ályktun af heimasíðu sinni um að víkka einhliða út landhelgi Rússlands í Eystrasalti.

Sagði Kallas að Rússar reyndu nú að nota landamærin til að skapa ótta og kvíða í vestrænum samfélögum, og að hægt væri að greina ákveðið mynstur í aðgerðum þeirra.