<strong>Húsavík </strong>STEM Ísland tók til starfa á Húsavík fyrir tveimur árum.
Húsavík STEM Ísland tók til starfa á Húsavík fyrir tveimur árum. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum í rauninni að kalla fleiri að borðinu en bara heimili og skóla. Við erum að tengja fleiri hagaðila í hverju og einu samfélagi fyrir sig, sem tengist í gegnum STEM-menntun. Við erum að efla STEM-menntun og það er menntun og færni sem…

María Hjörvar

mariahjorvar@mbl.is

„Við erum í rauninni að kalla fleiri að borðinu en bara heimili og skóla. Við erum að tengja fleiri hagaðila í hverju og einu samfélagi fyrir sig, sem tengist í gegnum STEM-menntun. Við erum að efla STEM-menntun og það er menntun og færni sem er kallað eftir á vinnumarkaði í dag og á vinnumarkaði framtíðarinnar,“ segir Huld Hafliðadóttir, annar stofnandi og stjórnarformaður STEM Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Undanfarin tvö ár hefur STEM Ísland verið með markmið um að breyta nálgun samfélagsins til menntunar. Aðferðafræði þess byggist á svokölluðu STEM-námsvistkerfi sem rekur uppruna sinn til Bandaríkjanna, en Ísland er fyrsta Evrópulandið sem hefur innleitt þetta kerfi.

Vilja efla STEM-menntun

Huld segir að markmið stofnunarinnar snúist fyrst og fremst um að efla STEM-menntun með því að byggja upp námsvistkerfi á samfélagslegum grunni. Hún segir einnig að ein áhersla verkefnisins sé að hvert samfélag fyrir sig greini þau viðfangsefni og þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir.

Stofnunin býður upp á fagþjálfun fyrir kennara í STEM-greinum, það er að segja vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði, en Huld bendir á að Ísland hafi ekki verið að skora hátt í þeim greinum síðustu ár. Stofnunin hóf störf sín á Íslandi árið 2022 á Húsavík en í apríl 2024 var STEAM Borgarbyggð sett upp í Borgarnesi en það kennir öll sömu fögin ásamt list/sköpun.

Undirbúningur fyrir fjórðu iðnbyltinguna

Eitt markmið stofnunarinnar er að búa nemendur betur undir framtíðina. Bridget Burger, annar stofnandi STEM Ísland, segir í tilkynningu að ef Ísland á að eiga möguleika í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að kjarnafærni í STEM-greinum á vinnumarkaði í samtíma og framtíð þurfi hraðar breytingar og ekki síður stuðning við landsbyggð. „Fjórða iðnbyltingin er hafin. Við megum í raun engan tíma missa,“ bætir hún við.

Styðja við kennara

„Þetta er aðallega til að byggja upp færni fyrir framtíðina, til að byggja upp og efla samfélög og til að geta tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni. Þetta er í rauninni ótrúlega margþætt. Hluti af því er að setja námsefni í samhengi við líf og umhverfi nemenda vegna þess að það hefur kannski verið svolítið afmarkað innan veggja skólastofunnar,“ segir Huld í samtali við Morgunblaðið og bætir við að þau séu að tengja námsefnið við náttúruna, rannsóknastofnanir, fyrirtæki og önnur menntastig þannig að það verði samfella á milli þeirra.

Huld bætir við að verkefnið fjalli ekki aðeins um nemendur heldur líka um að styðja við kennara og gera þá örugga í því að kenna STEM-greinar. „Við erum mikið bara að styðja við kennara. Við erum að bjóða upp á fagþjálfun fyrir kennara í STEM-greinum, þetta snýst ekki bara um nemendurna,“ segir Huld.

Höf.: María Hjörvar