Svifflug Lýst er áhyggjum af hugsanlegum áhrifum vindorkuvera á flugumferð í umsögnum um þingsályktunartillögu um uppbyggingu vindorku.
Svifflug Lýst er áhyggjum af hugsanlegum áhrifum vindorkuvera á flugumferð í umsögnum um þingsályktunartillögu um uppbyggingu vindorku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi athugasemda hefur borist við þingsályktunartillögu sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lagði fram í lok mars um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Fjöldi athugasemda hefur borist við þingsályktunartillögu sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lagði fram í lok mars um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Þar á meðal eru athugasemdir frá stofnunum og félögum þar sem lýst er áhyggjum af neikvæðum áhrifum vindorkuvera á flugumferð og flugöryggi.

Í umsögnum Isavia ohf. og Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) er m.a. vísað í skýrslu sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA, hefur unnið og birt var í mars sl. þar sem fram komi að ýmsar hættur fylgi vindorkuverum sem hafi bein og neikvæð áhrif á flugumferð og flugöryggi.

Isavia segir sérlega mikilvægt að umhverfismat fari fram vegna vindorkugarða eða stakra vindmylla í grennd við flugvelli. Vísar stofnunin m.a. í skýrslu EASA um truflun sem vindmyllur geta valdið á loftflæði og radarmerkjum. Vegna stærðar sinnar og snúnings blaðanna endurkasti vindmyllurnar rafsegulbylgjum sem dragi úr hæfni ratsjárinnar til að skynja og rekja ferðir loftfara. Einnig séu starfræktar sérstakar ratsjár til veðurathugana en virkni þeirra sé mikilvægur liður í veðurathugunum og veðurspám vegna flugleiðsögu.

Til að koma í veg fyrir þetta væri best að staðsetja vindmyllugarða þannig að þeir séu ekki í sjónlínu við ratsjárnar, t.d. með því að setja vindmyllur skuggamegin við hæðir í landslaginu þannig að ratsjárgeislinn sjái þær ekki. Einnig væri hægt að draga úr áhrifunum með því að hafa langt á milli vindmyllanna svo þéttleiki endurkastsins verði minni. Ratsjárframleiðendur hafi einnig brugðist við þessu og séu margar nýjar ratsjár hannaðar með það í huga að draga sem mest úr áhrifum þessa óæskilega endurkasts.

Flug sett í uppnám

OFÍA segir í sinni umsögn að fyrirhugaðar vindmyllur á Mosfellsheiði og að Hellisheiði, sem og á Lyklafelli norðan við Suðurlandsveg á vegum Zephyr Iceland og Orkuveitu Reykjavíkur, muni hafa sérlega slæm og afdrifarík áhrif á alla flugumferð á svæðinu, og einnig til og frá Reykjavíkurflugvelli og jafnvel á aðflug inn til Keflavíkurflugvallar. Til dæmis sé stjórnhæfi flugvéla, fisvéla og svifflugna ógnað í einhverjum tilvikum. Á Sandskeiði sé flugbraut sem flugskólarnir í Reykjavík og á Selfossi auk einkaflugmanna og fisflugmanna hafi notað til æfinga. Vindmyllur munu trufla allt loftflæði yfir svæðið og gera brautina ónothæfa flesta góða flugdaga ársins. Þannig er í raun allt flug um suðvesturhorn landsins sett í uppnám.

Segir OFÍA að í þingsályktunartillögunni sé ekki að sjá neitt um áhrif vindmylla á flugumferð, flugleiðir og flugöryggi eða hvernig megi koma í veg fyrir neikvæð áhrif vindmylla á flugvelli og nágrenni þeirra.

Skerðing á svifflugi

Svipuðum áhyggjum er m.a. lýst í umsögnum frá Flugmálafélagi Íslands, Fisfélagi Reykjavíkur, Svifflugfélagi Íslands og Flugfélaginu Geirfugli. Í umsögn Svifflugfélagsins segir m.a. að svifflug þurfi mjög sérstakar aðstæður, veðurfar og landslag til að hægt sé að stunda það. Segir félagið að fyrirliggjandi rannsóknir á áhrifum vindraforkuvera á vinda- og veðurfar gefi til kynna að fyrirhugað vindraforkuver á Mosfellsheiði muni valda stórfelldri truflun á náttúrulegu vinda- og veðurfari á áhrifasvæði umhverfis vindraforkuver í margra kílómetra radíus, þar með talið í afmörkuðu loftrými svifflugs á Sandskeiði/Bláfjöllum og öðrum nærliggjandi svifflugssvæðum. Slíkt myndi hafa í för með sér stórfellda skerðingu á möguleikum til svifflugs á öllu flugsvæði SFÍ og þar með kippa grundvelli undan rekstri félagsins, sem sé eina félagið á Íslandi sem stundar og kennir svifflug.

Í umsögnum er einnig bent á að starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði falli líka undir áhrifasvæði vindraforkuvera á neikvæðan hátt og geti mikil ókyrrð í lofti haft veruleg áhrif á stjórnhæfi fisvélanna. Í umsögn Fisfélagsins segir m.a. að þingsályktunartillagan í heild mætti vera strangari gagnvart hugsanlegum áhrifum á líf og störf fólks, náttúru og upplifun svæðis.

Samráð við Landhelgisgæslu

Þá segir Landhelgisgæsla íslands í sinni umsögn að mikilvægt sé að haft verði samráð við stofnunina þegar komi að staðsetningu, umfangi og stærð væntanlegra vindorkugarða vegna margþættrar starfsemi stofnunarinnar. Hafa verði m.a. í huga að þyrlur Landhelgisgæslunnar í leitar- og björgunarverkefnum, sem og öðrum verkefnum, geti þurft að fljúga lágt í öllum veðuraðstæðum að nóttu sem degi af ýmsum ástæðum, s.s. til að forðast ísingarskilyrði, skýjalög og halda sjónflugsskilyrðum.