Guðmundur B. Friðriksson
Guðmundur B. Friðriksson
Til skoðunar er hjá Reykjavíkurborg að hirða pappír og plast frá heimilum fólks örar en verið hefur og slíkur úrgangur þannig hirtur aðra hverja viku, en hann er nú hirtur þriðju hverja viku. Þetta segir Guðmundur B

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Til skoðunar er hjá Reykjavíkurborg að hirða pappír og plast frá heimilum fólks örar en verið hefur og slíkur úrgangur þannig hirtur aðra hverja viku, en hann er nú hirtur þriðju hverja viku. Þetta segir Guðmundur B. Friðriksson, skristofustjóri skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, í samtali við Morgunblaðið.

Borgarbúar hafa margir hverjir kvartað yfir því að þetta sorp sé hirt of sjaldan og því fyllist tunnur ört. Þá hafi gámum fyrir pappír og plast verið fækkað á grenndarstöðvum, þar sem ruslið hefur síðan staflast upp.

„Ég hef nefnt það við umhverfis- og skipulagsráð að þegar búið væri að innleiða nýja flokkunar- og hirðukerfið og við sjáum hvernig það reynist verði skoðað hvort farið yrði í tveggja vikna hirðutíðni í stað þriggja,“ segir Guðmundur.

Þrír nýir sorphirðubílar

„Til að það sé gerlegt þurfum við viðbótarhirðubíla en við erum að fá þrjá nýja bíla nú í lok maí,“ segir hann.

Guðmundur bendir á að aukin hirðutíðni kalli á fleiri hirðuferðir og það kosti aukin fjárútlát, en á móti komi að mögulega væri hægt að fækka tunnum á einhverjum stöðum, t.d. í fjölbýli og þannig gæti sorphirðan gengið hraðar fyrir sig þar sem færri ílát þyrfti að losa.

„Þannig koma íbúar flokkunarílátunum betur fyrir í eldri sorpgeymslum og kostnaður við að breyta þeim og byggja við sparast. Auk þess nýtist tvískipt tunna fyrir pappír og plast þá fleirum,“ segir hann.

Guðmundur bendir á að tíðni sorphirðu í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu fyrir pappír og plast sé mismunandi. Hún sé þrjár vikur í Reykjavík, Mosfellsbæ, Garðabæ og Seltjarnarnesi. Í Hafnarfirði fjórðu hverja viku, en aðra hverja í Kópavogi.