Innviðirnir sprungu í Laugardalnum og í framhaldinu telja íbúar sig svikna

Sérkennilegt er að fylgjast með umræðu um málefni þriggja skóla við Laugardalinn. Reykjavíkurborg hefur nú kynnt að ætlunin sé að hætta við tveggja ára gamla ákvörðun um að stækka skólana en þess í stað eigi að byggja einn nýjan einhvers staðar í Laugardalnum. Hvar það verður liggur ekki fyrir.

Íbúarnir eru furðu lostnir og kvarta undan því að borgin sé að koma í bakið á þeim og eins og fram kemur í frétt á bls. 2 hér í blaðinu segir einn foreldra hverfisins að stjórnsýslan fái „algera falleinkunn og sýnir lítilsvirðingu við íbúalýðræði og samráð“.

Þetta er fjarri því í fyrsta skipti sem íbúar í einstökum hverfum saka borgaryfirvöld um skort á samráði, sem er umhugsunarvert í ljósi þess hve mjög borgaryfirvöld hafa talað um samráð og íbúalýðræði. Á heimasíðu borgarinnar er til dæmis sérstakur „Íbúalýðræðisvefur Reykjavíkurborgar“ með sérstökum undirvefjum um „lýðræðisstefnu“, „íbúaráð“, „samráðsnefndir“, „samráðsgátt“ og svo mætti lengi telja, en vandinn er sá að borgarbúar reka sig iðulega á að þetta er lítið annað en orðin tóm.

Þá er ástæða til að velta því upp hvernig á því stendur að þessi vandi er kominn upp í skólamálum í Laugardal, hvers vegna hann hefur legið fyrir um langt skeið án þess að hafist hafi verið handa við að leysa hann, og hvers vegna ætlunin er nú að fara allt aðra leið en íbúunum var lofað fyrir tveimur árum. Skýringarnar sem hafa verið gefnar eru ekki mjög sannfærandi og tíminn sem liðið hefur í aðgerðaleysi er meirihlutanum í borginni ekki til sóma.

Svo einni af þeim spurningum sem upp koma í þessu sambandi sé svarað, þá er ein skýringin á því að þessi vandi er kominn upp sú að borgin hefur um árabil unnið að þéttingu byggðar án tillits til þeirra íbúa eða innviða sem fyrir eru í hverfum borgarinnar. Þetta á við um svæðið í kringum Laugardalinn eins og víða annars staðar í grónum hverfum borgarinnar og á stóran þátt í að skólarnir eru að springa og grípa þarf til stórtækra neyðaraðgerða. Og þessari þéttingu á svæðinu er ekki lokið.

Ein helstu rökin fyrir þéttingu byggðar eru að með henni megi nýta betur þá innviði sem fyrir eru, en raunin er sú að oft verður þéttingin til að sprengja þessa innviði. Þegar það gerist eru afleiðingarnar lakara hverfi fyrir íbúana eða mikill kostnaður og óhagræði eins og nú blasir við, nema hvort tveggja sé. Vonandi læra borgaryfirvöld af þeim mistökum sem þarna hafa verið gerð, fara sér hægar í þéttingunni og leitast við að eiga raunverulegt samráð við íbúa borgarinnar.