Ferðamenn Þeir ferðamenn sem til landsins koma í ár eyða minna.
Ferðamenn Þeir ferðamenn sem til landsins koma í ár eyða minna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dvalarlengd ferðamanna á Íslandi er að styttast og neysla þeirra á landinu er að minnka. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þróunin hafi verið að eiga sér stað um árabil

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Dvalarlengd ferðamanna á Íslandi er að styttast og neysla þeirra á landinu er að minnka.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þróunin hafi verið að eiga sér stað um árabil. Nefnir hann að Ísland hafi fallið niður um 10 sæti á milli áranna 2021-2023 í skýrslu World Economic Forum sem mælir samkeppnishæfni áfangastaða í 119 löndum.

Segir Jóhannes að horfa megi til neikvæðrar umfjöllunar fjölmiðla erlendis um Ísland, t.a.m. varðandi jarðhræringar á Reykjanesskaga. Telji sumt fólk því landið vera hættulegt og fer í fjölskylduferðir annað. Hefur t.d. sést að nú sé um 10-15% lakari bókunarstaða á gististöðum landsins miðað við sama tíma í fyrra.

Höfum ekki tólin

Nefnir Jóhannes einnig að ekki hafi verið lagt fé til neytendamarkaðssetningar í gegnum Íslandsstofu frá árinu 2022 og hafi það mikil áhrif.

„Þegar staðan með eldgosin kom upp var Íslandsstofa ekki með tiltækt fé til þess að fara beint í forvirka neytendamarkaðssetningu til þess að vinna gegn þessum áhrifum og hefur ekki enn,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Eina sem hefur komið er 100 milljóna króna framlag frá menningar- og viðskiptaráðherra sem er ekki nógu mikið út á þessa stóru markaði. Við höfum þar af leiðandi ekki haft tólin til þess að vinna gegn þessum áhrifum.“

Ríkið þarf að átta sig

Segir Jóhannes að ef fram heldur sem horfir í þeirri stefnu næstu 2-3 ár að leggja ekki meira fé í neytendamarkaðssetningu muni staðan bara versna. Nefnir hann einnig að stjórnvöld og ríkið þurfi að átta sig á sínu hlutverki. Að stjórnvöld þurfi að stýra sögunni og vörumerkja Ísland.

„Það sem er að gerast núna á markaðnum er að þessar ferðmálastofur í Evrópu og þeirra opinbera fé sem er að fara í markaðssetningar er að aukast um rúm 20% í mörgum tilfellum. Löndin sem við erum í samkeppni við eru bara að auka allverulega sína markaðssetningu núna, en ekki við, og það þarf bara einfaldlega að breytast.“

Nefnir Jóhannes að þó ekki sé um hrun í fjölda ferðamanna að ræða sjáist hins vegar að dvalarlengd þeirra er styttri og neysla þeirra fari minnkandi. Segir Jóhannes að horfa þurfi til þeirra þátta sem raunverulega er hægt að hafa áhrif á.

„Það gerum við með markaðssetningu, þ.e. að tala jafnt og þétt við neytandann úti á markaðnum og þá markhópa sem við viljum fá til landsins og teljum að séu það sem kallað er betur borgandi ferðamenn. Þeir sem stoppa aðeins lengur og verja aðeins meiri peningum,“ segir Jóhannes að lokum.

Höf.: Egill Aaron Ægisson