Sigríður Guðný Jónsdóttir, eða Guðný eins og hún var alltaf kölluð, fæddist í Borgarnesi 31. júlí árið 1935. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 16. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Ingigerður Þorsteinsdóttir frá Háholti í Gnúpverjahreppi og Jón Jónsson, ættaður frá Hjörsey á Mýrum. Hún var næstyngst fimm systkina, þeirra Jóns, Ingibjargar, Sigríðar og Sesselju Ástu.

Fyrstu ár ævi hennar bjó fjölskyldan í Fíflholtum á Mýrum. Þegar Guðný var 12 ára fluttist fjölskyldan að Hólslandi í Eyjahreppi á Snæfellsnesi og bjó þar til ársins 1958 þegar þau Ingigerður og Jón brugðu búi og fluttust á Kársnesbrautina í Kópavogi. Snemma fór Guðný að hjálpa til við búskapinn og þegar hún varð eldri fór hún í kaupamennsku þar til hún hóf nám í Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Þaðan flutti hún svo í Borgarnes þar sem hún vann í Kaupfélaginu. Þar kynntist Guðný eftirlifandi eiginmanni sínum, Geir Sævari Guðgeirssyni húsasmíðameistara, f. 25. ágúst 1933. Þau byrjuðu sinn búskap á Smáragötu 5 í Reykjavík þar sem Geir er uppalinn.

Jón bróðir Guðnýjar gaf henni gítar þegar hún var 10 ára og spilaði hún og söng nánast fram í andlátið, ótrúlega lagviss allt til síðasta dags. Margar eru líka til teikningar eftir hana og málverk og yfir 100 ljóð hefur hún samið við ýmis tilefni. Hennar leið hefði orðið önnur hefði hún verið ung í dag, örugglega lagt listina og sönginn fyrir sig.

Guðný vann oftast út í frá við ýmis afgreiðslustörf, m.a. vann hún lengi í Starfsmannaverslun Sambandsins við Holtagarða, í kaffiteríu starfsmanna í Mjóddinni og í umönnunarstörfum við öldrunarheimilið Skjól. Árið 1982 fluttu þau Geir og Guðný í Tungubakka 14 og bjuggu þar þangað til Guðný flutti á dvalarheimilið Skógarbæ þar sem hún lést.

Dætur Guðnýjar og Geirs eru: Stefanía Sigríður, f. 1961, gift Hilmari Elís Árnasyni. Börn þeirra eru: Fanney Hrund, f. 1987, gift Steinþóri Runólfssyni og eiga þau soninn Stefni Bjargar, f. 2023. Árni Geir, f. 1993, í sambúð með Evu Grímsdóttur og eiga þau synina Bjarka Frey, f. 2020 og Atlas Kára, f. 2023. Seinni dóttir Geirs og Guðnýjar er Erla Hrönn, f. 1975, gift Halldóri Þorvaldi Halldórssyni. Börn þeirra eru: Halldór Hrannar, f. 1994, í sambúð með Hjördísi Ingu Kristinsdóttur og eiga þau Bryndísi Vöku, f. 2015 og Veigar Elís, f. 2022, Guðný Björk, f. 2001 og Sara Líf, f. 2006.

Útför Guðnýjar fer fram frá Seljakirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 13.

Það voru tár í augum mömmu þegar ég sat hjá henni daginn fyrir andlátið. Sat hjá konunni sem hafði einu sinni verið mamma mín, glaðlynd, hlý og yndisleg manneskja, hrókur alls fagnaðar og spilaði og söng á gítarinn alls staðar, alltaf þegar hún hafði tækifæri til. Konunni sem barnabörnin kölluðu ömmu Gúnn og dreif pabba gamla austur í Flóa þegar lítill strákur hringdi og bað ömmu að koma austur að baka handa sér pönnukökur. Konunni sem breyttist í jask þegar hún var komin á hestbak, sló í og reið eins og argasta reiðskella um allar koppagrundir. Konunni sem á túninu stökk á styggðarflennuna sem allir voru búnir að gefast upp á og kútveltist um með hana í fanginu en sleppti ekki samt. Konunni sem dóttir mín hélt að lagið „Ég langömmu á“ væri samið um. Nú var hún bara þessi gamla ókunna kona sem alzheimersjúkdómurinn hafði heimsótt og sest upp hjá, komið eins og draugur með kúst og sópað smátt og smátt burt minningunum, sem safnast höfðu upp gegnum lífið, svo ekkert var eftir nema tómið og eftir sat mannvera sem enginn þekkti, síst hún sjálf. Hún var ekki þarna en samt fann ég fyrir henni svo sterkt. Gleymskan allsráðandi, drottnaði yfir öllu, hún synti bara í óminninu, björgunarsund og nálgaðist aldrei land.

Við vorum að rifja upp söguna þegar hún dó næstum því þegar hún var 13 ára, fékk 41 stigs hita og dreymdi að hún væri á rölti syngjandi og spilandi með engli upp hringina sjö. Hún mátti ekki fara upp í sjöunda hringinn, þá kæmist hún ekki til baka … en Ásta systir var heima, hver átti þá að passa hana? Svo hún kvaddi engilinn og sneri við, gat ekki farið frá Ástu, var alltaf að hugsa um aðra. Ég minntist á við hana að kannski væri tími til kominn að stíga inn í sjöunda hringinn, hún væri hvort sem er löngu horfin bæði okkur og sjálfri sér. Kannski voru tárin gleðitár sem felld voru vegna þess að hún gat nú yfirgefið þennan ónýta líkama og horfið upp í blómabrekkuna að syngja með systrum sínum og vinum, hitta gamla gæðinga og öll horfnu lömbin.

Elsku mamma, takk fyrir allt og ef Mogginn berst með einhverju móti upp í blómabrekkuna þá er það hér með skjalfest að við erum sátt við að þú sért horfin okkur og spókir þig nú frjáls meðal vina því minningarnar lifa og ylja!

Aðstandendur vilja þakka starfsmönnum Maríuhúss og Efstabæjar í Skógarbæ innilega fyrir alúð og þolinmæði í garð Guðnýjar.

Stefanía.

Mamma, elsku mamma. Það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért ekki hér lengur en samt svo góð tilfinning að vita að nú ertu búin að fá hvíldina þína kærkomnu og komin í blómabrekkuna í sumarlandinu. Þangað ætlaðir þú og ég veit að þar ertu núna með systrum þínum, syngjandi Undir bláhimni og fleiri sígild lög. Ég veit líka að þar er gaman og get næstum heyrt glaðlegan hlátur þinn óma þess á milli sem hljómfögur rödd þín heyrist ásamt systrum þínum Imbu, Siggu og Ástu sem syngur milliröddina og raddar. Undir þessu hljóma gítararnir ykkar.

Það sem einkenndi þig var glaðværðin, góða skapið, bjarta brosið, hlýja faðmlagið, húmorinn, kærleikurinn, viskan, göfuglyndið, hjálpsemin og gleðin. Þú stóðst alltaf við bakið á mér og hélst í höndina á mér hvert sem ferðinni var heitið og hvað sem á dundi í lífsins ólgusjó. Þú sagðir mér einu sinni að þig hefði dreymt draum þegar þú varst ung að árum. Þar fékkstu afhenta kringlótta málmplötu sem á stóð talan sautján. Þú túlkaðir drauminn á þá leið að þessi tala ætti eftir að fylgja þér í gegnum lífið og hún gerði það svo sannarlega. Sautján var þín tala. Þú hittir pabba 17. september, trúlofaðist honum 17. nóvember og giftist honum nokkrum árum seinna eða 17. mars 1962. Næstu 60 árin og gott betur áttuð þið eftir að tölta saman lífsins veg.

Þú sagðir mér líka frá draumnum þínum þar sem þú gekkst um grasi vaxið land, upp og niður hóla og hæðir og fólkið þitt fylgdi þér, fjölskyldan, vinir og vandamenn. Þú hélst í höndina á mér allan tímann og saman fetuðum við stíg lífsins. Þú sagðir að við myndum alltaf vera nálægt hvor annarri enda væri ég fædd 17. janúar og talan sautján fylgdi mér eins og þér. Fyrstu ár lífsins byrjaðir þú að leiða mig en þegar færi að síga á seinni hlutann í lífi þínu myndi ég leiða þig. Ég vona að ég hafi getað stutt þig og leitt eins vel og þú gerðir, elsku mamma mín.

Ég mun sakna hlýja faðmsins þíns og uppörvandi orða þinna sem þú hvíslaðir svo gjarnan í eyra mér þegar ég þurfti á því að halda. Ég mun sakna visku þinnar, réttsýni og ráða sem þú áttir nóg af. Ég mun sakna blárra augna þinna og fallega brossins þíns en þó mun ég mest sakna endalauss kærleika þíns, hlýju og trausts. Ég veit að hönd þín heldur áfram að leiða mig í gegnum lífið, elsku mamma mín. Takk fyrir allt, knús og kossar.

Þín dóttir,

Erla Hrönn.

Hnigin er sólin í sævarins djúp

sefur öll jörðin í blárökkurshjúp.

Svo orti amma í ljóðinu Lágnætti í maí. Vorið hafði sérstaka þýðingu í huga ömmu, tími upprisu og vonar. Hún naut þess að lykta af hrokkinni lambsull, finna silkiflipa strjúkast við kinn og sjá óstyrka fætur staulast að lífsins lind. Vorið var hennar eftirlætis yrkisefni og þar kom þessi töfrandi tími endurtekið fyrir; lágnættið. Sá tími er jörðin sefur en lífið gjarnan kviknar.

Það var því við hæfi að á lágnætti í maí hnigi amma í sævarins djúp. Hún leit ekki á dauðann sem endalok, aðeins vistaskipti, nýtt upphaf. Ég get því ekki varist því að sjá glettni hennar í morgunblikinu, finna ylhýra hönd renna yfir land og leggjast við vanga minn. Að finnast hún frjáls úr fjötrum, á stað þar sem hennar stórbrotni hugur er heill.

En strax þegar töfrast logar um tind

og tendrast í austri fögur gullroðin mynd

er rísandi röðull hikar hafsbungu við

hljómar á ný allt af vorraddaklið.

Ég á ótal minningar af ömmu Gúnn í hinum hefðbundnari ömmustörfum. Minningar af kókópöffsi með fernumjólk og smjörsteiktri murtu með eplum (ó það var alltaf nægt smjör!). Kærar eru minningar af gistingu. Þá lagði hún tjalddýnu við sína hlið rúmsins, gamlan svefnpoka, og þar sem ég hringaði mig í þessu fleti – sem ilmaði af ömmulykt – svifum við saman inn í veröld Gípu og Gilitruttar, Búkollu, Sipp og Skrat, Einbjörns og allra hans bræðra. Þannig varð allt í hennar návist betra; tjalddýna töfrateppi, götóttir ullarsokkar alheilbrigðir og hjartasár greru hvergi betur en í ömmufaðmi. Hún var sól fjölskyldunnar, sú sem skein á alla hina.

Þegar leið á ævina birtist hún mér í sífellt fleiri myndum.

Amma Gúnn sem reið rokuhesti yfir Fjallabak, því hún tók ekki annað í mál.

Amma Gúnn sem átti lagatexta á plötum landsþekktra söngvara.

Amma Gúnn sem sneri enn alla niður í tilsvörum áratug eftir alzheimer-greininguna.

Amma Gúnn sem „starfaði“ í dagvistun Maríuhúss árum saman og spilaði og söng fyrir gamla fólkið.

Og þótt við værum nokkur, gullin hennar, gimsteinar og gullhrútar, þá var það gítarinn sem átti hana lengst. Allt frá æskuárum á Mýrunum þar sem hún reiddi hann á milli bæja – þar til fyrir skemmstu er hann tendraði enn ljós á bak við hrímþoku augna hennar.

Þau voru samofin. Hún var hans faðmur, hann hennar sál.

Meðan ljúfir ómar tendra ljós í dimmum geim

hann opnar mér sinn ævintýraheim.

(Úr Milljón strengja lag, GJ)

Ég gleymi aldrei stundinni er ég sá fyrst inn í þann ævintýraheim. Farið var að rökkva að kvöldi ættarmóts þegar gítarinn lenti í fangi ömmu. Hún taldi í fyrsta lag sem aldrei lauk, fingurnir runnu sífellt yfir í það næsta og fyrr en varði reis nýr dagur. Þetta eftirminnilegasta lágnætti í lífi átta ára stelpu var amma miðja sólkerfisins og allur heimurinn ljómaði af hennar völdum.

Þannig mun ég minnast hennar ætíð, fyrir þau ógrynni hæfileika, greindar, æðruleysis, hnyttni, glaðlyndis, kjarks, seiglu, mýktar og næmni. Og fyrir allt stuðið.

Já, ég átti alheims bestu ömmu. Hún hét amma Gúnn og var milljón strengja lag.

Fanney Hrund Hilmarsdóttir.

Elsku amma Gúnn.

Nú skilur leiðir okkar tímabundið því Guð hefur gert pásu á þeim ævintýrum sem okkur var ætlað að skapa með þér. Hláturmildi og hlýjar minningar setja svip á orð okkar systkina hér, en með þér var allt svo fallegt og gott.

Amma var okkur systkinunum fyrst og fremst góður vinur sem reyndist okkur ofboðslega kær og góð. Hún var einstök amma sem gerði allt fyrir okkur og var alltaf fyrst til að bregðast við ef eitthvað bjátaði á, alveg sama hvar og hvenær.

Það er ofboðslega sárt að þurfa að kveðja þig en að sama skapi líka ákveðinn léttir því nú ertu loksins búin að fá þína langþráðu og kærkomnu hvíld eftir erfiða og mikla baráttu við alzheimersjúkdóminn sem hefur leikið þig grátt síðustu 11 ár.

Þú varst gæfukona sem kenndir okkur systkinunum ákveðin gildi sem við höfum tileinkað okkur í okkar lífi og munum gera áfram í komandi framtíð.

Elsku amma, við elskum þig og leyfum þér að fylgjast vel með okkur.

Takk fyrir árin, takk fyrir alla hjálpina, takk fyrir öll ráðin, takk fyrir stuðninginn, takk fyrir að vera kletturinn okkar, takk fyrir að vera þú og takk fyrir að vera okkar helsta fyrirmynd.

Njóttu þess að spila á gítarinn þinn og syngja í blómabrekkunni fyrir alla.

Við elskum þig svo fast, knús og kossar yfir til þín.

Hver dagur leið,

hver dagur sveið.

Í mörg ár féllu tár,

því alzheimersjúkdómurinn veitti sálarsár.

Með söknuði og tárum

ég kveð þig bráðum.

Með hjartað í molum

og minningar í skoðun.

Mín æskuár

voru bestu bernskuár.

Því þín reynsluár

voru góð kennsluár.

(Guðný Björk, 17. maí 2024)

Takk fyrir alla þína visku og skilyrðislausu ástina sem þú gafst okkur. Þangað til næst.

Þín barnabörn,

Halldór Hrannar,
Guðný Björk og Sara Líf.