Akureyri Horft yfir byggð á Brekkunni. Kjarnaskógur og Súlur fjær.
Akureyri Horft yfir byggð á Brekkunni. Kjarnaskógur og Súlur fjær. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vænta má að þegar fjöldi nýrra íbúða á Akureyri sem verið hafa í byggingu á síðustu misserum fer í sölu komist meira líf í fasteignamarkaðinn þar. Þetta segir Björn Guðmundsson lgf. hjá Byggð á Akureyri

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vænta má að þegar fjöldi nýrra íbúða á Akureyri sem verið hafa í byggingu á síðustu misserum fer í sölu komist meira líf í fasteignamarkaðinn þar. Þetta segir Björn Guðmundsson lgf. hjá Byggð á Akureyri. Hann nefnir í þessu sambandi nýbyggingareit í Holtahverfi, nærri smábátahöfninni í Sandgerðisbót. Þar er verið að reisa fjölbýlishús með hartnær 100 litlum og meðalstórum íbúðum sem nú eru að fara í sölu. Sama er að segja um fjölbýli við Austurbrú, við Pollinn í hjarta bæjarins. Þar verða 35 íbúðir í húsum sem eru nær fullbyggð. Þarna eru einnig hótelíbúðir.

„Markaðurinn hér er kominn á svolitla hreyfingu, sem er mjög ánægjulegt. Hér einkenndist allt af hægagangi á tímabili af því að okkur vantaði eignir í sölu. Sérstaklega þurfti þá – og þarf raunar enn – í meira mæli litlar 2-3 herbergja eignir. Slíkar eru mikið teknar af til dæmis fólki sem er að kaupa sína fyrstu eign. Nóg framboð þarf raunar að vera á eignum í öllum flokkum svo hringekja viðskiptanna geti snúist; fólk stækkað við sig og svo minnkað þegar líður á ævina,“ segir Björn og heldur áfram:

„Og nú virðist mér sem við séum að nálgast þetta jafnvægi í bæ. Hér er til dæmis núna ágætt framboð á dæmigerðum Akureyrarhúsum svo svo geta kallast; notadrjúgum 100-150 fermetra íbúðum í einbýli eða litlum fjölbýlishúsum. Slíkar eignir eru mjög vinsælar hér í bæ og seljast alltaf mjög fljótt. Hér fæst ágæt tveggja herbergja íbúð á 35 milljónir króna og þriggja herbergja eign á kannski 42-43 milljónir. Þetta er um fjórðungri lægra verð en á vissum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.“

Byggja þarf meira

Björn segir að lengi hafi verið þörf á að meira yrði byggt af íbúðum á Akureyri, samanber að íbúum í bænum hefur fjölgað í jafnri stígandi síðustu árin. Og nú eru Akureyringar orðnir 20.266 samkvæmt allra nýjustu tölum Þjóðskrár.

„Undirbúningur að byggingu nýrra hverfa tekur langan tíma, þetta gengur hægar en maður hefði kosið. Því er fagnaðarefni að senn hefjist framkvæmdir í Móahverfi í Glerárþorpi, þar sem gert er ráð fyrir allt að 5.000 íbúum. Mér skilst að allir verktakar bæjarins muni festa sér lóðir þar og ætli að byggja,“ segir Björn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson