Sveinar Gunnarsson fæddist á Akureyri 14. nóvember 1979. Hann lést á gjörgæsludeild LSH 4. maí 2024.

Foreldrar Sveinars eru Gunnar Páll Gunnarsson, f. 16. apríl 1959, og Guðríður Margrét Sveinarsdóttir, f. 19. janúar 1958.

Systir Sveinars er Freydís Gunnarsdóttir, f. 19. mars 1982, maki hennar er Brynjar Kristjánsson, f. 22. nóvember 1975.

Sveinar átti þrjá drengi, þeir eru: Heiðar Guðni Sveinarsson f. 2. nóvember 2006 og Óli Gunnar Sveinarson, f. 26. mars 2009, móðir þeirra er Heiða Brynja Heiðarsdóttir f. 20. febrúar 1978, og Kolmar Freyr Kodjo Sveinarsson f. 17. ágúst 2017, móðir hans er Ayesha Eufa Mensah, f. 23. maí 1986.

Útför Sveinars fer fram frá Lindakirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 13.

Streymt er frá útförinni:
http://mbl.is/go/23hby

Elsku hjartagull.

Kletturinn, klappstýran, tónlistaruppeldið, dansherrann, öxlin, stuðningurinn og sundfélaginn, en umfram allt vinur af allra efstu hillu sem er svo ofboðslega sárt að sjá á eftir og erfitt að kveðja.

Þú hringdir í mig í vikunni áður en þú kvaddir og ég sagði þér að ég hefði verið að uppgötva að nú væri ég búin að þekkja þig akkúrat hálfa ævina. Þvílík lífsins lukka. Einhvern veginn tókst okkur alltaf að halda þræðinum þótt hann lægi stundum þvert yfir höfin, heimsálfa á milli.

Ég uppgötvaði líka eftir að hafa kvatt þig að við tókum alltof fáar myndir af okkur saman. Fegurðin bjó nefnilega aðallega í hversdagsleikanum hjá okkur. Soðin ýsa á Freyjugötunni, sána í Sundhöllinni, göngutúr út í Gróttu, bíltúr inn í Skíðadal, stuttmyndir á Stúdentakjallaranum, kaffibolli á Ljósvallagötunni. Perlur á bandi.

Ég átti bókaða ferð nokkrum dögum eftir að þú kvaddir. Meðal annars heimsókn til Montréal, sem þú kallaðir aldrei annað en Kóngafjallabæ meðan ég bjó þar. Í bæ þar sem þú hafðir ekki einu sinni komið minnti mig allt á þig. Í einum af kössunum sem átti eftir að flytja heim leyndist meira að segja jólakort frá þér. Það fær að finna sér stað með skrifuðu diskunum þínum. Ég lauk svo ferðinni með því að setja niður eina begóníu í pott fyrir þig, Mark setti niður eina fyrir Svavar. Þar dafnið þið saman í potti í sumar, í Kóngafjallabæ.

Ég verð endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig. Halda aðeins í höndina á þér, hvísla að þér kveðju, hlæja svo í gegnum tárin að sögunum sem við rifjuðum upp í kringum þig. Þú varst nefnilega alveg ógeðslega fyndinn, sjúklega stríðinn og með allra prakkaralegasta hláturinn. Ganga svo út á bílastæði með gömlum vinkonum og horfa upp í himininn á tvöfaldan regnboga.

Takk fyrir vináttuna, takk fyrir hlýjuna, takk fyrir stuðninginn, takk fyrir húmorinn, takk fyrir fiskinn, takk fyrir allar sundferðirnar, takk fyrir allt kaffið, takk fyrir að kenna mér að faðmlög eigi að taka að minnsta kosti sjö sekúndur til að kveikja upp í serótóníninu.

Takk fyrir þig, takk fyrir allt, elsku Sveinar.

Og við hlöðum hallir,

á himni og á strönd.

Hönnum okkar heim,

handan, hulinn þeim.

Ég fann sjálfið,

falið, í lófa þér.

Svo fremi sem við fljúgum,

finnst eilífð okkar hér.

(Paul Kalkbrenner. Þýð: B.J.)

Ekki hugsa, bara dansa.

„Kiss kiss!“

Bessý sín.

Bergþóra Jónsdóttir.