Kínverski herinn hóf í gærmorgun tveggja daga her- og flotaæfingu í grennd við eyjuna Taívan. Er æfingunni, sem ber heitið „Joint Sword-2024A“ á ensku, ætlað að vera „hörð refsing“ fyrir viðleitni eyjunnar til að skilja sig frá stjórnvöldum í Kína

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Kínverski herinn hóf í gærmorgun tveggja daga her- og flotaæfingu í grennd við eyjuna Taívan. Er æfingunni, sem ber heitið „Joint Sword-2024A“ á ensku, ætlað að vera „hörð refsing“ fyrir viðleitni eyjunnar til að skilja sig frá stjórnvöldum í Kína.

Lai Ching Te tók við forsetaembætti Taívans á mánudaginn, og sagði hann í innsetningarræðu sinni að íbúar eyjunnar yrðu að sýna hversu staðfastlega þeir myndu „verja þjóð okkar“. Kínversk stjórnvöld, sem segja að Taívan tilheyri sér, fordæmdu ræðuna og sögðu hana „játningu um sjálfstæði“.

Samkvæmt ríkisfjölmiðlum í Kína nær æfingin til svæða í Taívansundi sem umkringja eyjuna. Varnarmálaráðuneyti Taívans sagði í gær að eyjan hefði sett flugher, landher og flota sinn á viðbúnaðarstig til að svara æfingunni.

Fjórar orrustuþotur voru t.d. kallaðar út vegna æfingarinnar til þess að fylgjast með flugi kínverskra herflugvéla. Sagði varnarmálaráðuneytið um kvöldið að herinn hefði orðið var við 49 kínverskar orrustuþotur og eftirlitsvélar á svæðinu í kringum Taívan frá því að æfingin hófst, en það er mesti fjöldi kínverskra herflugvéla sem hefur sést á loftvarnarsvæði eyjunnar á einum sólarhring á þessu ári.

Þá sagði ráðuneytið jafnframt að 15 kínversk herskip og 16 varðskip hefðu tekið þátt í heræfingunni í gær. Sigldu skipið í um 24 sjómílna fjarlægð frá eyjunni þar sem þau fóru næst Taívan. Varnarmálaráðuneytið tók hins vegar fram að það hefði ekki orðið vart við að alvöruskotfæri væru notuð við æfinguna. Þá fóru nokkur kínversk herskip inn fyrir það svæði sem Taívanar telja til lögsögu sinnar við eyjarnar Dongyin og Wuqiu, og skipaði varðskip þeim að yfirgefa svæðið.

Sun Li-fang, talsmaður taívanska hersins, sagði í gær að æfing Kínverja græfi undan friði og stöðugleika á Taívansundi. Lai Taívansforseti ákvað í gær að heimsækja herstöð vegna æfingarinnar, og sagði þar við fjölmiðla að ef Kínverjar reyndu innrás myndi hann sjálfur taka sér stað í fremstu víglínu til þess að verja þjóðaröryggi Taívana.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson