Skelfing 47 manns voru á eyju þegar gaus.
Skelfing 47 manns voru á eyju þegar gaus.
Eldfjöll gjósa víðar en á Íslandi og valda oft usla og verða jafnvel fólki að bana. Á Netflix má finna heimildarmyndina The Volcano: Rescue from Whakaari. Á eyjunni Whakaari, fyrir utan Nýja-Sjáland, er virkt eldfjall sem gýs á nokkurra ára fresti…

Ásdís Ásgeirsdóttir

Eldfjöll gjósa víðar en á Íslandi og valda oft usla og verða jafnvel fólki að bana. Á Netflix má finna heimildarmyndina The Volcano: Rescue from Whakaari. Á eyjunni Whakaari, fyrir utan Nýja-Sjáland, er virkt eldfjall sem gýs á nokkurra ára fresti með snöggum sprengigosum og því ótrúlegt að þangað var farið daglega með fulla báta af túristum. Þennan örlagaríka dag, 9. desember 2019, voru tveir hópar af ferðamönnum og leiðsögumönnum, alls 47 manns, staddir á eyjunni þegar eldfjallið vaknaði og upp úr gígnum streymdi sjóðandi heit eitruð gufa, aska og steinar. Tuttugu og tveir létust og fjöldi annarra slasaðist illa.

Í myndinni er rætt við eftirlifendur sem lýsa þeim hryllingi þegar fyrirvaralaust fór að gjósa. Annar hópurinn stóð á gígbrúninni en hinn var á leið aftur í bátinn sinn þegar ógæfan dundi yfir. Myndefni frá fólkinu er sláandi og sýnir vel óttann og ringulreiðina. Rætt er við marga eftirlifendur sem flestir voru alsettir brunasárum og höfðu undirgengist fjölda aðgerða sem ekki sá fyrir endann á. Hjón ein frá Bandaríkjunum voru þarna í brúðkaupsferð sem endaði með skelfingu. Unglingsdrengur missti alla fjölskylduna. Myndin er áhugaverð og átakanleg áminning um að eldgos geta verið stórhættuleg.