Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Geta allir lóðaeigendur lagt á innviða- og byggingarréttargjald eða aðeins stjórnvald?

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Getur verið að sveitarfélög séu í raun að íþyngja kaupendum nýbygginga verulega með skattlagningu? Getur verið að innviða- og byggingarréttargjald sé í raun samneysluskattur sem nýta skal til að fjármagna innviði í samneysluþjónustu, s.s. leikskóla og aðra hverfisþjónustu? Ef þessi skattur yrði lagður af myndi lóða- og fasteignaverð lækka sem því nemur líkt og ef tollar af bifreiðum væru lækkaðir eða lagðir af?1] Ef það er raunin að á þéttingarreitum og á jaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu séu sveitarfélög að innheimta tugi þúsunda króna á fermetra þá er það auðvitað veruleg íþynging fyrir kaupendur svo ekki sé talað um þau áhrif sem skatturinn hefur haft á byggingar- og neysluverðsvísitölu, fasteignaverð og skuldastokk landsmanna þegar hann var lagður á!

Rökin fyrir því að innviða- og byggingarréttargjald sé skattur eru að aðeins stjórnvald getur lagt það á. Einkaaðilar geta ekki lagt slíkt gjald á heldur einungis selt lóðir sínar – sem þá hverfa af efnahagsreikningi þeirra – eða leigt þær út. Þessi skattlagning lóða hefur hækkað markaðsvirði þeirra margfalt og getur stjórnvald í raun hækkað skattinn að vild2] og þar með markaðsvirði lóða almennt á höfuðborgarsvæðinu vegna einokunarstöðu sinnar. Þessi stefna hefur einnig yfirfærst á virði einkalóða í jaðri byggða sem stjórnvöld kaupa síðar og á einkalóðir innan byggðar.

Það er bagalegt að mál séu með þessum hætti þar sem samneysluskatturinn skilar í raun ekki miklum tekjum til sveitarfélaga í stóra samhenginu – ríflega 30 milljörðum króna á þriggja ára tímabili fyrir hrunið 2008 – en veldur hins vegar mikilli íþyngingu í efnahagskerfinu vegna áhrifa á byggingar- og neysluverðsvísitölu og því til hækkunar á vaxta- og húsnæðiskostnaði og fasteignaverði sem er eitt meginvandamál samfélagsins, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þessi skattlagning er mun minni á landsbyggðinni, þar sem gatnagerðargjöld og lóðaleiga eru látin nægja.3]

Stjórnvöld þurfa að skoða gaumgæfilega hvort mögulegt sé að bæta tekjustofna sveitarfélaga svo hægt sé að leggja þennan innviða- og byggingarréttaskatt af sem í gegnum árin hefur verið mikill skaðvaldur við hagstjórn eins og áður segir; auk þess sem hann stuðlar að miklu óréttlæti við sölu einkalóða innan byggðar sem seldar eru á milljarða króna. Þá hefur hann líklega haft veruleg neikvæð áhrif á stefnumörkun við veitingu byggingarlóða á jaðri byggðar, því áherslan hefur frekar verið á þéttingu byggðar m.a. til að spara innviðauppbyggingu á jaðrinum.

1] Lækkun tolla á nýjar bifreiðar hefur auðvitað einnig áhrif á virði eldri bifreiða til lækkunar!

2] Með lóðaskorti og útboðsfyrirkomulagi!

3] Möguleiki á innviða- og byggingarréttargjaldi er þó til staðar við lóðaskort!

Höfundur er fv. starfsmaður AGS.