Nemarnir Efri röð: Gunnur, Jón Bjarni, Gréta og Selma Rán. Neðri röð: Nikulás, Birta Sólveig, Mikael Emil, Berglind Alda, Hólmfríður og Jakob.
Nemarnir Efri röð: Gunnur, Jón Bjarni, Gréta og Selma Rán. Neðri röð: Nikulás, Birta Sólveig, Mikael Emil, Berglind Alda, Hólmfríður og Jakob. — Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikaranemar, sem útskrifast í vor úr sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, frumsýndu í gær í Kassanum í Þjóðleikhúsinu eitt ástsælasta leikrit Antons Tsjekhovs, Kirsuberjagarðinn. „Kirsuberjagarðurinn er klassískur og á erindi til okkar…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Leikaranemar, sem útskrifast í vor úr sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, frumsýndu í gær í Kassanum í Þjóðleikhúsinu eitt ástsælasta leikrit Antons Tsjekhovs, Kirsuberjagarðinn. „Kirsuberjagarðurinn er klassískur og á erindi til okkar allra, á öllum tímum, því þetta eru svo fallegar, breyskar og grátbroslegar manneskjur sem við speglum okkur í og umfjöllunarefnið sömuleiðis,“ segir Edda Björg Eyjólfsdóttir leikstjóri, spurð út í ástæðuna fyrir því að verkið hafi orðið fyrir valinu. „Það hefur verið nóg að gera og gaman að vinna við Kirsuberjagarðinn,“ bætir hún við.

Eins og blóm í eggi

Spurð út í áskoranir verksins fyrir leiklistarnemana segir Edda þær felast í mörgu. „Það er bara að tileinka sér, dvelja og leyfa sér að rannsaka, leika sér og skoða hvað býr í brjóstinu. Þora að fara alla leið í allar tilfinningar, í hvaða áttir sem er og það þora þau svo sannarlega. Þetta er ótrúlega flinkur, samstilltur og hæfileikaríkur hópur. Þau eru bjartasta vonin, alveg framúrskarandi,“ segir hún.

Að sögn Eddu gengu æfingarnar fyrir frumsýninguna gríðarlega vel og segir hún mikla eftirvæntingu hafa ríkt í hópnum fyrir stóra deginum. „Það var mikill spenningur og fiðringur í maganum. Það er búið að vera alveg dásamlegt að vera hér í Kassanum og í samstarfi við Þjóðleikhúsið og allt það frábæra fólk sem vinnur hér í öllum deildum. Þetta gæti ekki verið betra, við erum eins og blóm í eggi.“ Sjálf er Edda ekki að stíga sín fyrstu skref sem leikstjóri en hún hefur á síðustu árum leikstýrt hinum ýmsu verkefnum. Innt eftir því hvernig það sé að skipta svona um hlutverk innan leikhússins svarar hún því til að það sé mjög spennandi og skemmtilegt.

„Þegar maður brennur svona fyrir þessu og stendur í eldinum sínum og ástríðunni þá langar mann að koma við svo marga fleti. Það hefur kallað til mín að stíga inn í það og hafa hugrekki til þess að kanna hvað ég get og ögra sjálfri mér,“ segir hún og bætir því við að það sé svo þakkarvert að fá til þess tækifæri.

„Ég er sko ekki síður að læra frekar en leiklistarnemarnir. Þetta er partur af því að vera listamaður, að þroska sig og takast á við margvísleg verkefni sem hægt er að gera í listinni, sem er alltaf svo frábært og skemmtilegt. Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þetta frábæra verkefni og að fá að vinna með þessu unga og flotta fólki, það er hreint út sagt æðislegt.“

Býr í hjörtum okkar allra

Talið berst aftur að verkinu sem Edda segir aldrei falla úr gildi. Segir það frá Ljubov Andreévnu og hennar fjölskyldu og fylgdarliði sem koma heim á fallega ættaróðalið með kirsuberjagarðinum sem á að fara á uppboð vegna vanrækslu þeirra og eyðslu. Þá er í verkinu fjallað um mennskuna og manneskjuna í allri sinni dásamlegu, ófullkomnu og grátbroslegu dýrð.

Kirsuberjagarðurinn býr í hjörtum okkar allra og það er svolítið mikil núvitund í sýningunni. Við erum að skoða manneskjuna, hvað við dveljum við, hverju við sækjumst eftir og hvort við búum í raun ekki bara alltaf yfir þessu sem við erum sífellt að reyna að krækja í, hamingjuna og ástina. Þetta snýst svolítið um að skoða hvernig við getum snúið og horft inn á við því garðurinn er þar. Við eigum
að rækta hann og elska því þá blómstrum við,“ segir Edda að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir