Helga Kristín Ingólfsdóttir er mikil smekkkona með flottan fatastíl sem hún segir endurspegla eigin karakter.
Helga Kristín Ingólfsdóttir er mikil smekkkona með flottan fatastíl sem hún segir endurspegla eigin karakter. — Ljósmyndir/Irja Gröndal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Foreldrar mínir eru mjög smekklegt fólk og miklir fagurkerar, ætli ég fái þetta ekki frá þeim. Ég man líka eftir því þegar ég æfði samkvæmisdans á mínum yngri árum og ferðaðist mikið erlendis fyrir danskeppnir með mömmu, þá fórum við alltaf í…

Foreldrar mínir eru mjög smekklegt fólk og miklir fagurkerar, ætli ég fái þetta ekki frá þeim. Ég man líka eftir því þegar ég æfði samkvæmisdans á mínum yngri árum og ferðaðist mikið erlendis fyrir danskeppnir með mömmu, þá fórum við alltaf í verslanir sem voru ekki til á Íslandi og ég gerði í því að finna flíkur sem voru kannski smá „öðruvísi“ eða voru mögulega ekki komnar í tísku hérlendis,“ segir hún.

Helga Kristín er með BS-gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfar í dag í mannauðsmálum hjá Arion banka. „Utan vinnutíma fer frítíminn minn í hin ýmsu áhugamál, en ég er dugleg að stunda hreyfingu og æfi í líkamsræktarstöðinni Afrek og svo er ég að reyna að vera duglegri í golfi. Þegar mér dettur það í hug þá gef ég svo út tískumyndbönd á samfélagsmiðlum. Einn daginn gæti ég svo verið að dansa á einhverri sýningu. Ég er bara ekki manneskja með einn stimpil,“ segir hún, en Helga Kristín á að baki glæstan dansferil og starfaði um tíma í National Theatre í Mannheim í Þýskalandi.

Spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að byrja að gefa út tískumyndbönd undir merkinu #minnstíll segist Helga Kristín hafa fengið þessa spurningu nokkuð oft á síðustu mánuðum. „Svarið er í raun bara að þetta er einhver sköpunargleði að brjótast fram í mér. Fyrir utan auðvitað að hafa áhuga á tísku og að sýna fötin mín þá er það samt allt ferlið á bak við eitt myndband sem mér finnst svo skemmtilegt.

Að finna góðan ramma, klippa efnið saman, velja tónlist og svo fyrst og fremst skrifa um mínar pælingar. Mér þykir nefnilega ótrúlega gaman að skrifa, þegar ég bjó úti í Þýskalandi þá hélt ég t.d. uppi bloggsíðu og sagði frá lífi dansara. Í dag er ég að gefa út tískublogg í formi myndbanda. Þessi hugmynd er vissulega á grunnstigum en ég hlakka til að þróa hana áfram,“ útskýrir Helga Kristín.

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Mjög fjölbreyttur og ég held að hann endurspegli mikið minn karakter, enginn einn stimpill á honum. Ég einfaldlega bara kaupi það sem mér finnst fallegt hverju sinni.

Uppáhaldslitapallettan mín eru jarðarlitir, í þeim litum líður mér best. Í grunninn er stílinn minn líka mínimalískur að því leytinu til að ég ofnota ekki fylgihluti og blanda ekki mikið litum og ólíkum efnum saman. Ég er óhrædd við munstur en ég vil helst hafa þetta frekar klassískt.“

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„„Business casual“ væri bara réttasta lýsingin og það er ekkert bara af því að vinnuumhverfið býður upp á það heldur endurspeglar það minn stíll. Þau sem þekkja t.d. mig og mömmu mína vita það vel. Svo má ekki gleyma að hér erum við ekki endilega að tala um kjóla og hælaskó, uppáhalds dagsdaglega „outfit-ið“ mitt er dragt og strigaskór. Eins og einhver sagði: „Dressing corporate doesn't have to be boring.““

En þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Ég ætla alveg að viðurkenna það að mér finnst oft erfitt að aðskilja dagsdaglegan klæðnað frá „fínni“ tilefnum vegna þess að ég er almennt bara mjög fín. Svo er ég reyndar ekki hrifin af því að eiga flíkur sem eiga bara við í einhverjum sérstökum tilefnum, frekar vil ég poppa upp flíkur með fallegum fylgihlutum og hærri hælum.

Við mamma eigum reyndar sameiginlegt „quote“ þegar kemur að fínni tilefnum sem er: „Það er betra að vera „overdressed“ en „underdressed“,“ sem er reyndar þvert á það sem Coco Chanel segir en hér ætlum við mæðgur að vera ósammála henni.“

Fyrir hverju fellur þú oftast?

„Hvítum skyrtum. Fyrir utan hvað þetta er praktísk flík og ætti að vera til í öllum fataskápum, þá er ég bara almennt í ljósu eða hvítu að ofan. Það skemmir svo ekki fyrir ef ég finn hvítar skyrtur með púffermum, skemmtilegu munstri eða pífum að framan.

Síðustu ár hef ég svo líka reynt að tileinka mér það að kaupa mér tímalausar flíkur sem hægt er að nota við hin ýmsu tilefni. Þetta er ekki heilagt en þetta er fókusinn.“

Bestu fatakaupin?

„Dökkblá dragt úr Massimo Dutti. Þá starfaði ég sem dansari í Þýskalandi og var á leiðinni í skírn hjá syni bróður míns. Mamma talaði mikið um að dragtir væru möst í fataskápinn, að þetta væri fjárfesting. Þá tvítug skildi ég þetta ekki alveg en prufaði þó og féll strax fyrir dragtinni. Dragtin er mjög kvenleg og ég nota hana enn í dag og á allskonar máta. Dragtir bjóða nefnilega upp á ótal möguleika við hin ýmsu tilefni.“

Verstu fatakaupin?

„Það eru klárlega öll þau skipti sem ég hef leyft tískubólum eða hraðri tískunni að hafa áhrif á mig, í stað þess að fylgja mínum eigin stíl. Maður verður nefnilega að aðskilja þetta tvennt, stíl og tísku. Að mínu mati er það ekki stíll að fylgja öllum „trendum“ samfélagsins, enda sjáum við það mjög oft á Íslandi að hér er bara ein „tíska“ og ef þú ert ekki hluti af henni þá ertu ekki talinn smart.

En að verstu fatakaupunum. Síðustu ár hef ég verið að pikka út þessar flíkur úr fataskápnum og selt þær, markvisst reynt að létta á fataskápnum og fjarlægja þær flíkur sem ég nota aldrei. Í dag er ég ekki með eina flík í fataskápnum sem ég nota ekki. Vegna þessa þá vel ég líka mjög vel föt áður en ég kaupi þau, stundum ofpæli ég en það er líka vegna þess að mér er ekki sama í hvað ég eyði peningnum mínum.“

Uppáhaldsskór?

„Ætli það séu ekki dökkbrún leðurstígvél frá Billi Bi en ég keypti þau fyrir afmælispening frá ömmu minni. Það er nefnilega þannig að amma mín verður 97 ára á árinu og síðustu ár hefur hún alltaf gefið mér pening í gjafir og sagt: „Kauptu þér nú eitthvað fallegt.“ Síðustu ár hef ég safnað að mér fallegum hlutum sem minna mig á hana, hlutum sem ég veit að ég mun eiga til margra ára. Þetta eru hlutir eins og t.d. málverk, hönnun inn á heimilið en svo líka þessi leðurstígvél sem eru tímalaus gæðastígvél.“

Uppáhaldsfylgihlutur?

„Skartgripir eru þeir fylgihlutir sem ég sleppi aldrei. Á sama tíma er ég mjög vanaföst þegar kemur að skartgripum, ég á t.d. antik-hálsmen, eyrnalokka og hringa frá ömmum mínum sem ég er með alla daga. Ef ég kaupi mér skart þá verður það að hafa einhvern „vá factor“ til þess að ég tími að skipta út.

Þegar kemur að öðrum fylgihlutum þá er allur gangur á því hvort ég noti þá því oft gera þeir heilmikið fyrir „outfit-ið“ en stundum finnst mér þeir bara flækja lífið. Þessi skoðun gæti komið til vegna þess að í grunninn er ég mjög mínimalísk, „less is more“.

Mig langar að koma með dæmi – sólgleraugu á djamminu þegar það er vor og sumar í lofti. Það er rosa smart á mynd en mér finnst þau alltaf flækjast fyrir mér og taka pláss í töskunni minni þegar fer að líða á kvöldið.“

Áttu þér uppáhaldsmerki?

„Burberry, klárt mál. Ætli það sé ekki þessi einkennandi brúni litur og fallegu munstrin, ég bara elska það. Ég á reyndar enga flík né fylgihlut frá Burberry en það er bara af því að mér finnst ég ekki komin á þann stað að réttlæta þau kaup. Svo hef ég reyndar alltaf öfundað vinkonur mínar sem eru duglegar að skoða í „vintage“-búðum, fyrir mér er það ákveðinn hæfileiki að leita í þeim og finna vörur frá merkjum eins og t.d. Burberry. Ég hef þetta bara ekki í mér en í staðinn læt ég mig dreyma og hlakka til fyrstu kaupanna.“

En búðir til að versla í?

„Þegar ég er erlendis þá eru þrjár uppáhaldsverslanirnar Massimo Dutti, Arket og &Other Stories. Hér heima er bara allur gangur á því, ég á það svolítið til að taka skimun yfir vefsíður helstu verslana og ef ég finn fallegar flíkur þar þá geri ég mér ferð í verslunina sjálfa. Þær verslanir sem vekja mesta athygli mína eins og er eru Fou22 og Andrá Reykjavík.“

Hvað er á óskalistanum þínum?

„Það er alltaf eitthvað á óskalistanum en í þetta sinn eru það nýir strigaskór. Mögulega bæti ég við enn einum Veja-strigaskónum en þetta eru bara bestu strigaskór sem ég hef átt. Draumastrigaskórnir eru samt frá Axel Arigato, held ég sé líklegri til að kaupa þá.

Svo þegar ég hugsa til sumarsins þá hugsa ég líka til þess hvað ég ætla að vera „dugleg“ í golfi því ég er að fara í golfferð í sumar. Hluti af því er auðvitað að eiga fallegan golfklæðnað, þannig að ætli ég dressi mig ekki bara upp fyrir völlinn líka.“

Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress?

„Fyrst og fremst hjá móður minni. Þetta er bara svona kona sem er með „business casual“-stílinn á hreinu. Svo er hún líka bara svo mikið hún sjálf, hún elskar að vera svolítið extra og er óhrædd við að fara þvert á helstu tískutrendin í dag, því hún fylgir bara sínum eigin stíl.

Annars fylgi ég líka fallegum verslunum og áhrifavöldum sem eru að gera svipuð fatamyndbönd og ég á samfélagsmiðlum. Í dag finnst mér t.d. mjög gaman að fylgjast með stelpu sem heitir Caetanaba. Fatastíllinn hennar er mjög litríkur og mér finnst svo gaman að sjá hvaða liti og efni hún setur saman. Þetta er kannski ekki alveg minn stíll en það er ekkert endilega það sem dregur mig að henni, heldur bara hvað hún er öðruvísi og þorin að setja þessi mjög fjölbreyttu „outfit“ saman.

Svo má ég ekki gleyma Vicktoriu Beckham og hennar fatalínu. Ég bara elska stílinn hennar, mjög fágaður og kvenlegur.“

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Ef peningar væru ekki vandamál þá held ég samt eða vona að ég myndi hugsa mig vel um hvað ég eyði þeim í. Föt væru ólíklega það fyrsta sem ég myndi kaupa mér en til að svara spurningunni í þeim dúr þá væri það líklegast Burberry-taska eða flík.

Málið er að ég elska tísku og fallegar flíkur. Mér finnst gaman að fylgjast með „trendum“ og sjá hvernig íslenskur fatamarkaður hreyfir sig en ég vil ekki að þetta heltaki líf mitt og að þetta sé það sem allur peningurinn minn fer í. Lífið er nú líka bara þannig að maður verður stundum að setja óþarfa neyslu á „hold“ til þess að geta fjárfest í einhverju stærra eins og fasteign – síðustu mánuðir og ár hafa t.d. einkennst af því hjá mér.

Svo má líka alveg leyfa tískutrendum að líða og sjá hvernig þau eldast, ef þau gera það vel þá er ég alveg til í að hugsa málið. Fyrir utan það þá auðvitað henta ekki öll „trend“ og maður verður að meta hvað á við og hvað ekki, hver er minn stíll? Ég man þegar t.d. „mom jeans“ voru mikið í tísku, þetta olli mér miklu hugarangri. Ég gekk á milli verslana en fann aldrei þessar „fullkomnu“ buxur – málið var að þetta snið hentar mér bara engan veginn og það var svo mikill léttir þegar ég áttaði mig á því. Sama með kvartbuxurnar sem eru að koma í tísku í dag, ég er með stuttar lappir og langan búk, þannig að ég sé ekki hvernig þær ættu að gera mikið fyrir mig en það sakar auðvitað ekkert að prufa.“

Höf.: Irja Gröndal |