Laugardalurinn Árið 2022 var ákvörðun tekin um að byggja við alla þrjá skólana í Laugardal en nýlega ákvað borgin að falla frá þeirri ákvörðun.
Laugardalurinn Árið 2022 var ákvörðun tekin um að byggja við alla þrjá skólana í Laugardal en nýlega ákvað borgin að falla frá þeirri ákvörðun. — Morgunblaðið/Ófeigur
„Þegar ákvörðun var tekin árið 2022 töldum við að búið væri að hugsa út í öll horn, en svo komu frá skóla- og frístundaráði skilaboð um að það ætlaði að snúa við fyrri ákvörðun. Það var illa rökstutt og foreldrahópurinn sér ekki gild rök fyrir …

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þegar ákvörðun var tekin árið 2022 töldum við að búið væri að hugsa út í öll horn, en svo komu frá skóla- og frístundaráði skilaboð um að það ætlaði að snúa við fyrri ákvörðun. Það var illa rökstutt og foreldrahópurinn sér ekki gild rök fyrir því og við sjáum heldur ekki að það hafi verið gert neitt með þá sviðsmynd sem hafði verið ákveðin,“ segir Grétar Már Axelsson, gjaldkeri foreldrafélags Laugarnesskóla, í samtali við Morgunblaðið.

Góðri ákvörðun snúið við

Hann vísar til þess að ákveðið hafi verið árið 2022 að byggja við skólana þrjá sem í Laugardalnum eru, en síðan hafi verið fallið frá þeirri ákvörðun og boðað að byggður yrði einn unglingaskóli í hverfinu þess í stað.

„Til viðbótar við það að snúa góðri ákvörðun yfir í vonda, þá eru þau að sýna okkur það að þau hafa ekkert gert í málinu tæp tvö ár. Það er líka ákveðið áfall fyrir samfélagið,“ segir Grétar Már.

Hvað finnst þér um þessa stjórnsýslu borgarinnar?

„Hún fær algera falleinkunn og sýnir lítilsvirðingu við íbúalýðræði og samráð. Það sem við höfum verið að segja um þessi mál er mjög málefnalegt og ítarlegar og betur rökstutt en það sem borgin hefur lagt fram. Okkur svíður undan því að það sé að engu haft sem og öll vinnan sem unnin hefur verið hingað til,“ segir Grétar Már.

Spurður um hvort hann vonist til þess að undið verði ofan af málinu áður en til endanlegrar ákvörðunar kemur þann 10. júní nk. segir hann að það sé alltaf von.

„Við sjáum að ákvarðanir borgarinnar eru síbreytilegar,“ segir hann.

Stór hópur óánægður

„Mitt hlutverk er að vera skólastjóri Laugarnesskóla og halda hér úti skólastarfi eftir bestu getu í þeim aðstæðum sem okkur eru búnar. Það er hins vegar augljóst að það er stór hópur hér sem er ekki ánægður með þessa breytingu og hversu brátt hana ber að,“ segir Björn Gunnlaugsson skólastjóri Laugarnesskóla í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að mikil andstaða og gagnrýni hafi komið fram á fundi í skólanum sl. miðvikudag og að hún hafi lengi legið fyrir.

„Nú verðum við að vonast til þess að unnið verði vandlega úr því hjá Reykjavíkurborg,“ segir Björn.

„Það var farið í mikla rýni á þremur sviðsmyndum árið 2022 og afstaða skólasamfélaganna hér var nokkuð afgerandi þá, þótt auðvitað sýndist sitt hverjum. Það er til fólk, bæði í hópi foreldra og starfsmanna skólanna, sem líst vel á unglingaskólann. Það var samt greinilegt að það kom flatt upp á fólk hversu hratt þetta gerðist núna,“ segir Björn.

Hann nefnir að í máli borgarstjóra á fundinum hafi komið fram að síðan árið 2022, þegar ákvörðun um viðbyggingarnar var tekin, hafi verið hafist handa við undirbúning og sagt að í þeirri vinnu hafi fljótlega komið í ljós að verkefnið við að endurbæta og stækka skólana þrjá og halda starfseminni gangandi í þeim öllum á sama tíma væri flókið.

„Margir þeirra sem sátu fundinn voru ósammála því og óskuðu nánari skýringa á því í hverju þessi ómöguleiki væri fólginn. Kannski fást svör við því,“ segir Björn og nefnir að tækifæri gefist til að skila inn skriflegum umsögnum í næstu viku.

„Þar munum við að sjálfsögðu láta okkar álit í ljós, skýrt og skorinort,“ segir Björn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson