Anna Sigríður Vigfúsdóttir fæddist í Neskaupstað 24. maí 1926. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 11. maí 2024.

Hún var dóttir hjónanna Vigfúsar Guttormssonar frá Fljótsdalshéraði, f. 7.12. 1900 og Ingibjargar Guttormsson frá Klakksvík í Færeyjum, f. 8.10. 1903. Sigríður eða Sigga eins og hún var jafnan kölluð var ein sjö systkina. Hún var elst ásamt tvíburasystur sinni Önnu Elísabetu. Síðan komu Samúelína, Guttormur, Randíður, Jakob og Vigfús. Af þeim eru Randíður, Jakob og Vigfús enn á lífi. Sigga ólst upp á heimili foreldra sinna á Hvassafelli í Neskaupstað við gott atlæti.

Sigríður giftist Óskari Jónssyni 12. febrúar 1946. Hann var fæddur 18. júní 1916 og lést 13. mars 1999. Eignuðust þau fjögur börn. Þau eru: 1) Guðný, f. 18.11. 1947, tækniteiknari, áður búsett á Akureyri en nú í Hafnarfirði, maki Einar Jóhannsson byggingafræðingur. Þau eiga tvö börn, Báru og Ísleif Örn, en fyrir átti Einar Ingu Hrönn. Bára er gift Ómari Þór Edvardssyni og eiga þau tvo syni, Tómas Tjörva og Einar Dag. Tómas Tjörvi er giftur Fríðu Arnardóttur og eiga þau Lilju. Unnusta Einars Dags er Thelma Rut Rúnarsdóttir. Ísleifur Örn á fjögur börn, Malenu Mist og Jönu Sól með Moniku Margréti Stefánsdóttur, sambýlismaður Malenu Mistar er Tobias Eriksson, Ólíver Örn og Hallveigu Karen Eik með Sigríði Elínu Ásmundsdóttir. 2) Örn, f. 20.9. 1952, framkvæmdastjóri, búsettur á Seltjarnarnesi, maki Ólöf Þórarinsdóttir stjórnsýslufræðingur, f. 3.10. 1952. Þau eiga eina dóttur, Önnu Sigríði. Maki hennar er Pétur Blöndal og eiga þau tvö börn, Ólöfu Kristrúnu og Örn Óskar. 3) Ingibjörg, f. 27.10. 1956, leikskólakennari, búsett í Hafnarfirði, maki Guðmundur Guðbjartsson húsasmiður. Fyrir átti Guðmundur soninn Helga. Þau eiga þrjár dætur, Hrund, gift Emil Sigurbjörnsyni, þau eiga tvö börn, Jakob Erni og Ingveldi. Ósk er gift Inga Bergþórssyni og eiga þau þrjú börn, Markús, Matthildi og Jón Óskar. 4) Svanhildur, f. 27.10. 1956, leikskólakennari. Hún var áður gift Kjartani Jónssyni og eiga þau Óskar, hann er giftur Maya Takahashi.

Sigríður var húsmóðir og athafnakona og bjó lengst af á Þiljuvöllum 30 í Neskaupstað. Hún vann við ýmis störf en lengst af rak hún verslun í bænum ásamt Óskari eiginmanni sínum. Hún tók virkan þátt í Slysavarnafélaginu í Neskaupstað um árabil. Eftir fráfall Óskars flutti hún til Reykjavíkur, undi sér vel á Boðagranda og var alla tíð við góða heilsu, þar til hún veiktist þremur mánuðum fyrir andlátið.

Útför Sigríðar fer fram frá Neskirkju í dag, 24. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elskuleg tengdamóðir mín Anna Sigríður Vigfúsdóttir hefur kvatt eftir langa og góða ævi.

Ég kom ung inn á heimili tengdaforeldra minna í Neskaupstað og var vel tekið frá fyrsta degi, eins og öðrum sem þar knúðu dyra. Alla tíð var gestkvæmt á heimili Siggu og Óskars, enda voru þau hjónin gestrisin með afbrigðum og með eðlislægan áhuga á annarra högum.

Sigga hafði sterkar skoðanir á stjórnmálum, hjarta hennar sló með alþýðunni og hún hélt fram vinstri hugsjónum allt til æviloka. Þau hjónin áttu góðan vin á hinum ásnum og þó að aldrei bæri skugga á vináttuna, þá sagðist hún eiga erfitt með að skilja hvernig svona góður maður gat verið Sjálfstæðismaður. Svo hló hún auðvitað. Eftir fráfall Óskars flutti hún til Reykjavíkur og var tíður gestur í kvöldverði heima ásamt Halldóri Blöndal, tengdaföður dóttur okkar. Þau Halldór tókust einatt á um pólitík og gaf hvorugt eftir – en höfðu bæði gaman af.

Siggu fórst einstaklega vel úr hendi allt sem hún tók sér fyrir hendur og gekk ætíð til verka af festu og dugnaði. Ólöf Kristrún langömmubarn Siggu og barnabarn mitt myndi skilgreina hana sem athafnakonu í víðri merkingu þess orðs, því verkefnin voru fjölbreytt sem hún tók sér fyrir hendur, svo sem að reka stórt heimili, sinna fjölbreyttum verslunarrekstri og vinna fyrir Slysavarnafélagið í Neskaupstað.

Óhætt er að segja að tengdamóðir mín hafi stundað fjölbreyttari hreyfingu og útivist en almennt tíðkaðist. Hún fór í gönguferðir í nærumhverfi Neskaupstaðar, út á Bakka, í Páskahelli og út á Horn, leiðin lá líka í eyðifirðina sunnan Norðfjarðar og ekki var síðra ef það var undir tryggri leiðsögn fróðs heimamanns. Ekki lét hún þar við sitja heldur fór upp á hálendið norðaustan Vatnajökuls og gekk á Snæfell. Útbúnaðurinn var annar og síðri þá, en ekki hélt það aftur af Siggu.

Eftir því sem börnin urðu sjálfstæðari jókst þörfin fyrir útivist og hreyfingu. Hún naut þess að vera úti í vetrarríkinu, ganga á skíðum uppi á Oddsdal eða inn í Fannardal og oftar en ekki voru góðir vinir með í för. Óskar var einn stofnfélaga í golfklúbbnum í Neskaupstað og upp úr fimmtugu einhenti Sigga sér í golfið. Hún spilaði reglulega yfir sumarið með öðrum golfkonum í Neskaupstað. Því miður byrjaði ég svo seint í golfi að ég náði aldrei að spila með henni, en ég hef frétt það hjá meðspilurum hennar að hvorki vantaði áhugann og né keppnisandann í mína konu.

Sportið sem Sigga stundaði lengst var sund. Hún byrjaði daginn í sundi flesta daga vikunnar og allan ársins hring eftir að sundlaugin í Neskaupstað fór að vera opin yfir vetrartímann. Eftir flutninginn til Reykjavíkur fór hún daglega í Vesturbæjarlaugina á meðan heilsan entist. Hún elskaði að synda og ekki var síðra að hitta alla pottavinina og fara yfir málefni líðandi stundar.

Samveran með Siggu hefur alla tíð verið ljúf og gefandi. Mikið lán er að hafa átt slíka konu að svo lengi. Hún hefur verið okkur einstök fyrirmynd. Sigga mun alltaf eiga vísan stað í hjörtum okkar.

Ólöf Þórarinsdóttir.

Okkur systur langar til að minnast Siggu ömmu með nokkrum orðum.

Alltaf þegar við komum á Þiljuvellina var tekið á móti okkur með hlýju faðmlagi, gleði og fiskibollum í brúnni sósu. Að sjálfsögðu drukkið mjólkurglas með.

Hjá ömmu fengum við ansi frjálsar hendur; fengum að snúa stofunni á hvolf til að setja upp leikrit, renna okkur niður stigann, spila á skemmtarann, leika uppi í fjalli og ef það var rigning þá horfðum við á áramótaskaup gamalla tíma aftur og aftur.

Sigga amma var okkur systrum einstök fyrirmynd. Hún var dugleg í öllu – hvort sem var að þrífa bílinn, moka snjó eða töfra fram kræsingar í eldhúsinu. Hún hélt hádegispartí alla laugardaga í rúm 50 ár – laugardagspartí. Hún hugsaði vel um heilsuna; var á skíðum og stundaði sund daglega. Hún var söngelsk og skemmtileg, hafði alltaf eitthvað að segja um málefni líðandi stundar og ræddi við okkur eins og fullorðnar værum. Þá lét hún okkur finna það að hún hafði trú á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hvað sem það var, trúði að við gætum allt sem við vildum. Okkar helsta go-go-pía.

Á sumrin vorum við hjá Siggu ömmu og Óskari afa í Neskaupstað og þegar þau komu suður vorum við svo heppnar að þau gistu heima hjá okkur. Það var alltaf sterk tenging við þau og það vitum við að er ómetanlegt. Þegar Sigga amma flutti suður þá fækkaði ekki samverustundunum, þær héldu sér á Boðagrandanum og á Jóffanum hjá mömmu og pabba en ófáar stundirnar voru á pallinum hjá þeim með gítar, söng og góðan mat.

Við minnumst ömmu með kærleika og hlýju og þökkum fyrir allt sem hún hefur kennt okkur. Við munum leggja okkur fram við að breiða hennar boðskap áfram til kynslóðarinnar sem á eftir okkur kemur.

Hrund, Ósk og Gerður.

Vinkonur, það er orðið sem mér kemur helst í hug þegar ég hugsa um samband okkar ömmu. Við vorum alla tíð afar nánar og sterkt tengdar. Ætli þessi tenging hafi ekki myndast strax í æsku því ég var fyrsta barnabarnið, það eina í níu ár og ég var alltaf svo mikið hjá ömmu og afa. Eftir að við fluttum frá Neskaupstað kom ég til þeirra á sumrin og dvaldist m.a. hjá þeim eitt sumar þegar amma útvegaði mér vinnu í fiski. Þá skutlaði hún mér stundum í vinnuna ef ég missti af SÚN-rútunni og gerði hún oft grín að því hvað það hefði hentað mér, pjattrófunni, illa að vera skutlað á Moskvitch-sendibílnum þeirra í vinnuna. Það var jú alls ekki í boði að setjast upp í nýbónaðan og strokinn Buickinn í fiskiangandi vinnugallanum.

Eftir að amma flutti suður fjölgaði samverustundum á ný og var hún mikið hjá okkur Ómari og strákunum. Föstudagskvöldin voru fastur liður, þá hringdi ég í hana fyrr um daginn og spurði „amma, viltu ekki koma og borða með okkur í kvöld“ og hún svaraði alltaf svo skemmtilega „hvort ég vil“. Þetta voru algerar gæðastundir og mikið skrafað og rökrætt. Þarna kynntust strákarnir mínir fortíðinni því amma sagði okkur gjarnan sögur úr æsku sinni, uppvaxtarárum og lífi sínu með afa. Hún þreyttist seint á því að uppfræða okkur um fyrri tíð, tala um gildi samveru fólks og hvað lífið var skemmtilegt og mikils virði án allrar tækninnar sem við þekkjum í dag. Þarna bættist líka í orðaforða strákanna því amma notaði oft skemmtileg orð og frasa, orðatiltæki sem lifa áfram með okkur um ókomna tíð.

Amma var svo mikil fyrirmynd. Hún vílaði fátt fyrir sér, hélt fyrirmyndarheimili, var sérlega handlagin og það liggja ófá falleg handverk eftir hana. Hún fylgdist vel með, bæði fólkinu sínu, heimsmálunum, samfélaginu og pólitíkinni og var hún alla tíð mjög pólitísk og trú sínum pólitísku skoðunum. Stundum tókumst við á því við vorum ekki alltaf á sömu línu og urðum þá gjarnan sammála um að vera ósammála, amma kunni það vel þótt hún stæði oft fast á skoðun sinni. Ég lærði mikið á þessu því það er farsælla að kunna að meta ólíkar skoðanir og skilja grunn þeirra en að trúa því að það sé bara ein rétt hugsjón.

Amma spilaði svo stórt hlutverk í lífi mínu og var mér svo kær. Hún studdi mig á erfiðum stundum, fagnaði með mér í gleði og var mér einlæg og traust vinkona. Strákarnir mínir áttu einstakar stundir með ömmu, þeir dýrkuðu hana og hún þá og hún hafði endalaust dálæti á Lilju litlu, fyrsta og eina barnabarnabarnabarninu hennar.

Að lifa í nærri 98 ár er ekki sjálfgefið og eins mikið og ég sakna hennar og hefði viljað hafa hana lengur hjá mér þá er ég líka svo þakklát fyrir að hafa fengið að eiga ömmu í öll þessi ár. Maður er aldrei tilbúinn að kveðja en það er gott til þess að vita að þær tilfinningar sem við göngum í gegnum nú eru sprottnar af kærleika, ást og söknuði eftir því sem var.

Um leið og ég þakka ömmu samfylgdina bið ég algóðan Guð að varðveita hana í eilífðinni. Minninguna um hlýja, ástríka og einstaka konu mun ég geyma í hjarta mér um ókomna tíð.

Bára Einarsdóttir.

Amma mín Anna Sigríður Vigfúsdóttir er látin, 97 ára gömul. Ég var alltaf stolt af því að heita sama nafni og amma þegar ég var að alast upp enda var amma svo mörgum kostum gædd sem voru til fyrirmyndar í lífi og leik. Enn stoltari er ég núna þegar ég horfi yfir lífshlaup hennar ömmu minnar og spegla mig í því hvað hún kenndi mér margt.

Amma var rammpólitísk, hún var vinnuþjarkur bæði utan heimilis og innan, hún stundaði íþróttir sem konur af hennar kynslóð létu sér ekki detta í hug að stunda, hún stuðlaði að því að draumar afkomenda hennar gætu ræst og fylgdist með málefnum líðandi stundar fram á hinsta dag. Þegar ég var að alast upp og fékk að vera á sumrin hjá ömmu og afa á Þiljuvöllum 30 í Neskaupstað var það amma sem lét veröldina snúast. Amma bauð allri stórfjölskyldunni í laugardagspartí á hverjum laugardegi upp úr hádegi, borðin svignuðu undan veigunum og sá hélt orðinu sem talaði hæst. Þarna lærði maður samræðulist sem var engu lík og andaði að sér sósíalískum gildum sem voru ömmu eðlislæg og í blóð borin. Amma stundaði verslunarrekstur í mörg ár og þá fengum við barnabörnin að vera með henni að afgreiða á kassa, vigta ávexti og raða vörum. Þvílík sæla að fá að læra af ömmu hvað það var gaman að vinna og fá smjörþefinn af því að reka sitt eigið fyrirtæki. En þegar heim var komið var amma ekki síðri fyrirmynd. Þá fór hún að sauma föt á alla í fjölskyldunni, þvo bílana, reyta arfann í garðinum og spila lönguvitleysu við okkur. Inn á milli alls þessa fann hún tíma til að sinna sjálfri sér, skrapp í göngu upp á fjall, skellti sér á gönguskíði eða í golf.

Eftir að afi lést og amma flutti suður fékk næsta kynslóð svo að læra af „ömmu langömmu“. Mín börn voru svo lánsöm að vera á leikskóla í næsta húsi við ömmu langömmu og oft var komið við í kaffi og kruðerí á leiðinni heim. Síðustu árin borðuðum við saman vikulega hjá foreldrum mínum og enn var gaman að stoppa hjá ömmu við ýmis tækifæri enda lifði hún í núinu, fylgdist vel með fréttum hverju sinni og hafði áhuga á því sem fólkið hennar var að dunda við. Hún var einstaklega stolt af fólkinu sínu og veitti okkur afkomendum sínum mikinn kraft og hlýju inn í lífsins amstur.

Amma var regluföst og synti daglega nær allt sitt líf og sú regla hélst alveg þangað til hún var 93 ára þegar hún gekk endrum og eins út í Vesturbæjarlaug og tók sína nokkur hundruð metra í lauginni. Henni fannst ekkert sérlega merkilegt að vera rúmlega níræð, búa ein og synda í upphafi dags. En þannig var amma mín, ekkert að víla hlutina fyrir sér og horfði á lífið björtum augum.

Minning um stórkostlega konu og mikilvæga fyrirmynd mun lifa áfram í mínu hjarta.

Anna Sigríður Arnardóttir.

Kynni okkar Önnu Sigríðar Vigfúsdóttur hófust fyrir 15 árum hjá Blindrafélaginu, en þar var Sigga Vigga, eins og við kölluðum hana, meðlimur. Hennar er nú sárt saknað.

Hún setti svip á hópinn, sem hún elskaði að hitta í opnu húsi. Alltaf vel tilhöfð, fallega klædd og í góðu skapi, sönn fyrirmynd. Oft dáðumst við að Siggu Viggu, hversu vel hún var með á nótunum, alltaf til í gleðskap og naut lífsins, ekki að sjá að þar færi 98 ára gömul dama, sem hún sannarlega var.

Sigga Vigga var fastagestur í Sundlaug Vesturbæjar ásamt systur sinni Randý til margra ára. Hún hugsaði vel um heilsuna og naut lífsins fram í fingurgóma.

Við söknum elsku Siggu Viggu og óskum henni góðrar ferðar inn í sumarlandið og þökkum fyrir samfylgdina.

Jónína Herborg Jónsdóttir.

Í dag kveður Systrafélag Íslands eina af sínum tryggu félagskonum.

Félagið varð til þegar Sigga flutti til Reykjavíkur og fjölgaði þar með samverustundum við dætur hennar Svanhildi og Ingibjörgu og Randíði systur Siggu.

Meginmarkmið félagsins var að búa til viðburði, standa fyrir móttöku ættingja og vina og voru því ófá kaffi- og matarboðin þar sem söngbækur og gítarinn voru ekki langt undan.

Það var hvert tækifæri nýtt til fundahalda, hvort sem var menningarferð, lautarferð, taka á móti ættingjum eða árleg jólaferð á Laugaveginn. Aðalfundir félagsins voru haldnir víða um landið svo sem í Vestamannaeyjum, Viðey og Hrísey. Ófáir fundir voru haldnir í Neskaupstað á æskuslóðunum þar sem félagið fékk alltaf höfðinglegar móttökur hjá vinum og ættingjum. Þar voru Vigfús, Jóhanna og Jakob fremst í flokki, hvort sem um var að ræða gistingu, kræsingar eða bátsferðir.

Við keyrðum því nokkra hringina í kringum landið og vorum fljótar að finna út hvaða geisladiskur hljómaði best í bílnum en þar söng Bubbi lög Hauks Morthens.

Félagið fór einnig í útrás þegar við skelltum okkur til Færeyja. Þar hittum við ættingja okkar og var okkur tekið fagnandi eins og alls staðar þar sem Systrafélagið kom.

Við nutum þess að Randíður er svo sleip í færeyskunni og liðkaði það oft fyrir okkur eins og þegar við sigldum undir Vestmannabjörgin. Þá fengum við sérstaklega góðan túr þar sem siglt var inn í björgin enda stóð Randíður í brúnni á tali við skipherrann.

Þar sem félagskonur voru aðeins fjórar þá þýddi ekkert að móðgast þótt tilefni væri til þar sem verkefnin voru ærin og svo skemmtum við okkur svo vel.

Við kveðjum kæra félagskonu, hennar verður saknað í selskapnum.

Randíður, Svanhildur og Ingibjörg.

hinsta kveðja

Það er leitt að fá ekki að hitta þig aftur. Í mörg ár hef ég komið til Íslands til að hitta mitt fólk og hef alltaf komið til þín. Þú varst gestrisin og sýndir fólkinu í kringum þig áhuga og varðst mikil fyrirmynd fyrir okkur öll.

Takk fyrir allt, elsku Sigga.

Jóhanna Jakobsdóttir, Noregi.