Anna Karlsdóttir bókmenntafræðingur fæddist í Reykjavík 28. nóvember 1949. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar 20. apríl 2024 á Hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum.

Foreldrar hennar voru Guðlaug Pétursdóttir og Karl Hjaltason. Systkini: Sverrir Karlsson, Sigurbjörg Karlsdóttir, Elísabet Karlsdóttir, Þóra Karlsdóttir og Haraldur Karlsson, hálfbróðir.

Eiginmaður er Anton Valgarðsson, dætur Ingibjörg Ólafsson og Guðrún Antonsdóttir.

Útförin fór fram 26. apríl 2024.

Um miðjan níunda áratuginn hóf móðir mín störf sem stuðningsfulltrúi við Árbæjarskóla. Hún varð strax ánægð í starfi og ljóst var að hún hafði eignast þar góða samstarfskonu. Fljótlega kynntist ég líka Önnu Karlsdóttur sem var samstarfskonan góða. Hún og móðir mín náðu strax vel saman og þær áttu samskipti jafnt utan sem innan vinnu. Þær ræddu um daglegt líf í sambland við bókmenntir en Anna nam bókmenntafræði við Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk prófum, þá komin á miðjan aldur.

Síðar kynntist ég Önnu betur þegar við fluttum saman í nýbyggt hús á Lindargötunni. Þar bjó Anna ásamt Antoni Valgarðssyni, eiginmanni sínum, og var sambýlið við þau gjöfult og gott. Ég keypti íbúð í sama húsi og við náðum vel saman og áttum í töluverðum samskiptum. Við studdum vel hvort við annað, en á þessum árum var efnahagshrunið mikla og þá voru traustir vinir svo sannarlega gulls ígildi. Anna var vingjarnleg og ætíð stutt í gleðina hjá henni. Missir Antons, manns Önnu, er mikill, en þau voru góðir félagar sem gengu samtaka lífsins veg.

Þannig er að sumir vinir koma og fara en þannig var það ekki hjá okkur Önnu. Fundir okkar voru strjálli í seinni tíð en strengurinn var samt sem áður ætíð jafn sterkur. Það var okkur erfitt að fylgjast með veikindum Önnu og samt lærdómsríkt að sjá af hve miklu æðruleysi hún tók örlögum sínum. Minningarnar um árin góðu í Árbæjarskóla og á Lindargötunni geymum við mæðginin saman í hugskoti okkar. Minning um góða og gáfaða konu lifir.

Guðjón Ragnar Jónasson og Þórey Morthens.