— Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
Halla Tómasdóttir forstjóri B Team var aðalgestur á afar vel sóttum forsetafundi Morgunblaðsins á Park Inn-hóteli í Reykjanesbæ í gærkvöldi, þar sem hún svaraði spurningum blaðamanna og úr sal. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn, flestir þeirra…

Halla Tómasdóttir forstjóri B Team var aðalgestur á afar vel sóttum forsetafundi Morgunblaðsins á Park Inn-hóteli í Reykjanesbæ í gærkvöldi, þar sem hún svaraði spurningum blaðamanna og úr sal. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn, flestir þeirra stuðningsmenn Höllu, og gerðu góðan róm að máli forsetaframbjóðandans. Sjálfsagt sakaði ekki heldur að Björn Skúlason eiginmaður hennar er ættaður úr Grindavík.

Halla ræddi meðal annars hvert hennar sérstaka erindi umfram aðra frambjóðendur væri, en í því samhengi nefndi hún að þrátt fyrir að margt virtist valda ágreiningi á Íslandi og vantraust í samfélaginu mikið, þá væri mun fleira sem þorri þjóðarinnar væri á einu máli um. Leita yrði leiða til þess að auka traust manna á milli og eiga samtal um það sem sameinaði fólk til þess að skapa skarpa framtíðarsýn. Það kallaði á forystu og hana vildi hún veita í embætti forseta Íslands.

„Ég hef einlægan áhuga á að vera hreyfiafl til góðs fyrir land og þjóð,“ sagði Halla og minnti á að hún væri vön að bretta upp ermarnar.

Halla vildi ekki kannast við að hún hefði verið klappstýra útrásarinnar þótt hún hefði verið fundarstjóri á Baugsdeginum í Mónakó 2007. Hins vegar hefði hún skipt um skoðun á mörgu frá þeim tíma og raunar orðið hughvarf um sumt, eins og hagnað sem helsta markmið fyrirtækja.

Hún skýrði jafnframt fyrri orð sín um hlutleysi Íslands og kvaðst ekki andvíg veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. En hún væri friðarsinni og vildi ekki veita Úkraínu aðstoð sem gagnaðist í hernaði; Íslendingar gætu stutt Úkraínumenn með ýmsum öðrum hætti.