Karl Gustaf Benedikt Piltz fæddist 23. nóvember 1934 í Järnskog í Värmland. Hann lést 30. apríl 2024 á Vífilsstöðum.

Foreldrar hans voru Charles Piltz, sóknarprestur í Järnskog, f. 1899, d. 1986, og Karin Piltz kennari, f. 1900, d. 1999. Bróðir Karls Gustafs var Lars Rune Piltz, f. 1939, d. 1976, kvæntur Ulrike Forsell. Dóttir þeirra er Veronica Piltz sálfræðingur, f. 1970, gift Fredrik Jones lögfræðingi og börn þeirra eru Harry Jones, f. 2005, og Märtha Jones, f. 2007.

Karl Gustaf kvæntist 2.10. 1971 Kristínu Gústavsdóttur félagsráðgjafa. Foreldrar hennar voru Gústav Adolf Jónasson, ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, f. 1896, d. 1961, og Steinunn Sigurðardóttir Sívertsen, f. 1900, d. 1973. Börn Karl Gustafs og Kristínar eru:

1) Sigrún Karin Karlsdóttir Rawet, f. 24.5. 1972, alþjóðaviðskiptafræðingur og skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi. Hún er gift Peter Rawet, viðskiptafræðingi og fréttamanni hjá sænska ríkissjónvarpinu, SVT, í Stokkhólmi. Börn þeirra eru Nathan, f. 2005, og Ines, f. 2010, og dætur Peters eru Vilma, f. 2000, og Signe, f. 1996. 2) Björn Gustav Piltz, f. 19.2. 1975, tölvunarfræðingur við Geimvísindastofnunina í Berlín. Kona hans er Catherine Harward fjölmiðlakona, f. 1977, og börn þeirra eru Emma, f. 2012, og Gustav, f. 2014.

Karl Gustaf lauk stúdentsprófi frá Arvika 1954 og útskrifaðist sem lögfræðingur frá háskólanum í Uppsölum 1960. Hann vann við lögfræðistörf í Gautaborg en stundaði jafnframt nám í sálfræði og útskrifaðist sem sálfræðingur 1972. Hann sótti framhaldsmenntun í sálfræði við Temple University í Fíladelfíu og kynntist þar Kristínu sem þá vann að meistararitgerð sinni við Smith College School of Social Work. Bæði hrifust af fjölskyldumeðferðarhreyfingunni sem var að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum og fengu tækifæri til að sækja námskeið hjá brautryðjendunum. Þetta lagði grunninn að því að þau stofnuðu síðar Institutet för familjeterapi i Gautaborg, einkastofnun sem þau ráku í 42 ár. Þau menntuðu fagfólk og handleiddu í fjölskyldufræðum bæði í Svíþjóð og á Íslandi.

Þau hjónin fluttu til Íslands 2012 og stunduðu þar áfram fagleg störf, m.a. handleiðslu og kennslu í fjölskyldumeðferð við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Útför Karls Gustafs Piltz fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 11.

Hlýja, hugulsemi og forvitni um lífið var einkennandi fyrir pabba okkar Karl-Gustaf. Hann hafði mikinn áhuga á fólki og því, sem snertir okkur manneskjur allar. Hann var hugrakkur maður sem þorði að feta eigin slóð, svo sem þegar hann skipti um starfsvettvang úr lögfræði í sálfræði og þegar hann yfirgaf heimalandið til að fylgja mömmu til hennar átthaga. Við minnumst þeirrar fallegu og innilegu ástar sem ríkti milli pabba og mömmu og allir þeir sem stóðu þeim nærri nutu góðs af. Náin samvinna þeirra í starfi og einkalífi var á margan hátt einstök.

Hann var á undan sinni samtíð; tók alla tíð mikinn og virkan þátt í uppeldi okkar. Pabbi var einn af þeim fyrstu til að taka feðraorlof en það vakti slíka athygli að Morgunblaðið skrifaði um það. Við minnumst langra samræðna við matarborðið á æskuheimili okkar í Hovås í Svíþjóð. Okkur leið alltaf eins og hann hefði allan tíma í heimi fyrir okkur og þegar við gátum ekki sofnað á kvöldin sat hann þolinmóður, las og strauk okkur um bakið þar til við sofnuðum.

Pabbi var hændur að börnum og þau að honum. Þar réði miklu sá einlægi áhugi sem hann hafði á áhugamálum þeirra og aðstæðum. Hann var hávaxinn og myndarlegur og barnabörnin kölluðu hann stundum „The Hulk“. Hann tók dætrum Peters, Vilmu og Signe opnum örmum og kærleikurinn sem hann umvafði fólkið sitt með er fallegur arfur sem mun fylgja fjölskyldum okkar um ókomna tíð.

Pabbi hafði gaman af að spjalla um allt milli himins og jarðar og að læra nýtt. Hann var áhugamaður um íþróttir og útivist, hafði mikla ánægju af göngutúrum í sænska skóginum, að vinna í garðinum og baða sig í heitum íslenskum laugum. Hann var rólyndismaður en þegar kom að íþróttum kom oft önnur og ákafari hlið í ljós.

Fyrir tveimur árum fórum við með fjölskyldum okkar og mömmu og pabba í Värmlandsskóga, heimsóttum prestssetrið í Järnskog þar sem hann ólst upp, og fengum að feta í fótspor hans þar. Hann elskaði Värmland og við áttum yndislegar stundir saman. Við fundum öll, að frjálsleg barnæskan í náttúrunni í góðra vina hópi hafði mótað hann fyrir lífstíð.

- Okkur, Peter og Catherine, tengdasyni og tengdadóttur, hefur ávallt fundist við velkomin í faðm Karls-Gustafs. Hann gerði okkur að sínu fólki. –

Við systkinin höfum ferðast mikið og búið hér og þar, í Stokkhólmi, Berlín, Máritíus og New York. Pabbi var alltaf jákvæður, forvitinn og studdi okkur hvert svo sem við flugum á vit nýrra ævintýra. Mikil og kærleiksrík samskipti tengdu okkur alltaf. Röddin hans í síma, alltaf hlý, alltaf jákvæð, alltaf áhugasöm um það sem var að gerast í lífi okkar, maka okkar og barnabarnanna, veitti okkur mikla gleði. Við systkinin höfum notið þeirra forréttinda að alast upp með umhyggjusamasta og nærgætnasta föður sem hægt er að hugsa sér.

Minningar um samfundi og málsverði í faðmi stórfjölskyldunnar, þar sem allir eru samankomnir, munum við geyma í hjarta okkar um ókomna tíð. Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt hann sem pabba, afa og tengdaföður. Ástin og minningarnar lifa.

Sigrún Karlsdóttir Rawet, Björn Piltz og fjölskyldur.

Karl Gustaf Piltz, mágur hans pabba, er fallinn frá eftir langa og góða ævi. Við minnumst hans með hlýju enda var hann með eindæmum ljúfur og góður maður.

Þegar við systur vorum börn skiptum við fjölskyldan nokkrum sinnum á húsum við Kristínu og Karl Gustaf í Hovås í Svíþjóð og það var sannkölluð ævintýraparadís. Risastór garðurinn umhverfis húsið með ávaxtatrjám, broddgeltir, jarðarberjaakrar, strandklappir og kaldur sjór í heitri skandinavískri sól. Alveg eins og að detta inn í ævintýri eftir Astrid Lindgren.

Kristín og Karl Gustaf voru sérlega samheldin hjón. Þau kynntust í Bandaríkjunum við nám, hann í sálfræði og hún í félagsráðgjöf. Þau ákváðu að stofna fjölskyldu í Svíþjóð, þar sem þau bjuggu og störfuðu saman í fjölskylduráðgjöf í yfir 40 ár, en sömdu um að verja efri árunum á Íslandi.

Það kom mörgum á óvart þegar þau tilkynntu að þau væru að flytja til Íslands og það er óhætt að segja að það þurfi sérstakan karakter til að rífa sig upp á fullorðinsaldri og flytja á milli landa. Þetta gerðu Kristín og Karl og aldrei skynjaði maður að það truflaði hann að vera útlendingur á Íslandi og alla tíð lagði hann sig fram um að tala íslensku við okkur. Aðlögunarhæfnin var mikil. Karl taldi ekki eftir sér að snúast í kringum fólk, keyrði og skutlaðist, bar innkaupapoka og ferðatöskur alltaf með bros á vör og vel til hafður. Blessuð sé minning Karls Gustafs.

Guðrún Helga og Steinunn.

Fallinn er frá góður vinur og virtur sérfræðingur í fjölskyldufræðum. Hann var prestssonur frá Värmland, mannvinur, barnavinur og náttúruvinur. Aðalsmerkin voru heilindi, persónustyrkur og æðruleysi. Hann var glæsimenni, „smart“ í tauinu, vakti eftirtekt og aðdáun þar sem hann fór.

Við Þorsteinn kynntumst Karli fljótlega eftir að hann og Kristín Gústavsdóttir tengdust kringum 1970. Úr varð traust vinátta okkar fjögurra, samstarf og gagnkvæm virðing. Við ferðuðumst saman um Ísland og Värmland, Bandaríkin og Tenerife. Þorsteinn og Karl hjálpuðust að með íslenskuna og sænskuna. Kristín og Sigrún félagsráðgjafar og Karl lögfræðingur og sálfræðingur sameinuðust í áhuga á fjölskyldumeðferð og handleiðslu. Karl Gustaf og Kristín bjuggu í Gautaborg fyrri hluta hjónabandsins og stofnuðu þar virta meðferðarstofnun, Institutet i familjeterapi; héldu námskeið fyrir fagfólk og veittu meðferð. Karl var virkur í sínu fagfélagi og sinnti kennslu við sálfræðideild Gautaborgarháskóla. Þau hjónin voru eftirsóttir þerapistar, handleiðarar og kennarar. Saman mynduðu þau „meðferðarpar“, voru þekkt fyrir færni og góðan árangur í „co-therapy“; hjón vinna með hjónum. Saman skrifuðu þau bókina Den osynliga familjen, byggð á fræðaþekkingu þeirra og víðtækri reynslu. Boðskapur þeirra var skýr um gildi þess að vinna út frá fjölskylduhugtakinu í velferðarþjónustu. Bókin var þýdd á fleiri Norðurlandamál, notuð í háskólanámi og þjálfun um öll Norðurlönd.

Íslenskir þerapistar og handleiðarar hlutu menntun og þjálfun hjá þeim um áratuga skeið á Kleppi, Geðdeild Landspítalans, Meðferðarþjónustunni Tengslum, Endurmenntun HÍ og Félagi fjölskyldufræðinga. Þar mörkuðu þau skýr spor, og Karl Gustaf var þá oft kallaður „tengdasonur Íslands“. Á sextugsafmæli hans færði fjölmennur hópur fjölskyldufræðinga þeim Kristínu að gjöf listaverkið Ask og Emblu í þakklætis- og virðingarskyni: tvær styttur af pari, í rauðleitum Arizona-viði, eftir Kristjönu Samper. Parið sómdi sér vel við fallega húsið þeirra í Hovås í Gautaborg, og nú á ganginum í Hrísmóum 1.

Þegar Sigrún hóf doktorsnám á 9. áratugnum varð háskólinn í Gautaborg fyrir valinu. Þar skipti hvatning og stuðningur Karls og Kristínar miklu. Við hjónin og Viðar sonur okkar, þá 9 ára, dvöldumst líka í Gautaborg haustið 1988 og erum ævarandi þakklát fyrir stundirnar með Hovås-fjölskyldunni.

Og ekki var samstaðan endaslepp því þau beinlínis komu í kring stórkostlegri og fjölmennri doktorsveislu á fögrum stað í sænska skerjagarðinum. Segja má að sá áfangi hafi verið sameiginleg uppskera okkar allra.

En Sigrún var ekki ein um að njóta gestrisni Hovåshjónanna. Húsið var jafnan opið Íslendingum með veislum og gistingu. Þar var Karl Gustaf bakhjarlinn, og alltaf var glatt á hjalla á „Hótel Hovås“!

Þegar Karl varð sextugur komu þau til okkar í Los Angeles og þar rættist draumur hans um að heimsækja Hollywood. Keyrðum við með afmælisbarnið í límúsínu að sérvöldum veitingastað í háborg kvikmyndalistarinnar.

Þau Karl og Kristín framfylgdu „hjónbandssamningi“ sínum um að flytja frá Gautaborg til Íslands í „seinni hálfleik“ og nýtt skeið hófst í lífi þeirra. Við nutum þéttari samverustunda og áfram var sama andlega fjörið, heimspekilegar pælingar kringum listir, tilvistarspurningar og átök lífsskeiðanna, „den livslånga mognads-processen“.

En nú er okkar elskaði vinur fluttur í síðasta sinn, sæll lífdaga og sáttur, eins og alltaf, við guð og menn. Við og fjölskylda okkar sendum Kristínu, Sigrúnu, Birni og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur og kveðjum kæran vin með söknuði og djúpu þakklæti.

Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson.

Lærifaðir og kær vinur er fallinn frá. Þegar lífsferð vinar lýkur verður liðin tíð nálæg. Ég var svo lánsöm snemma á mínum starfsferli að kynnast Karl Gustaf sem kennara og fræðimanni á sviði fjölskyldumeðferðar. Síðar í áranna rás varð hann einlægur vinur, ávallt uppbyggilegur, kíminn og djúpur. Á kveðjustund er þakklæti efst í huga.

Karl Gustaf mætti öllum af virðingu, einstakri mannlegri hlýju og góðvild. Hann hafði þýða skapgerð sem gaf styrk, ekki síst nú undir lok lífs þegar andstreymi veikinda varð á köflum þungbært.

Karl Gustaf var fæddur og uppalinn í Svíþjóð. Hann sótti sér eiginkonu til Íslands, Kristínu Gústavsdóttur, sem tengdi hann Íslandi órjúfanlegum böndum í rúmlega hálfa öld. Hann var hávaxinn, grannur og tígulegur á velli, bjartur yfirlitum með einbeitt svipmót. Karl Gustaf var gáfumaður, menntaður lögfræðingur og sálfræðingur. Hann starfaði við bæði þessi fög, réttsýnn og fordómalaus. Kristín og Karl Gustaf kynntust í Bandaríkjunum þar sem þau voru bæði í framhaldsnámi. Hann í sálfræði og hún í félagsráðgjöf. Fjölskyldumeðferð var á þeim tíma nýr sproti í meðferðarfræðum og ekki hefð fyrir því að kalla fjölskylduna til samtals á stofnunum. Þau hrifust af þeirri bjartsýni og opnun sem fylgdu þessum nýju straumum. Skipti þar engu að fjölskyldumeðferð var ekki á námsskrá í þeirra upphaflegu fræðigreinum. Þau felldu hugi saman í þessu magnaða andrúmslofti, tilbúin að ryðja nýjar brautir. Upp frá því var fjölskyldumeðferð, kennsla og handleiðsla í félags- og heilbrigðisþjónustu þeirra ævistarf. Þau unnu saman sem einn maður. Árið 1973 stofnuðu þau Institutet för familjeterapi í Gautaborg þar sem þau störfuðu til ársins 2012 er þau fluttu til Íslands. Við stofnunina byggðu þau upp grunn- og framhaldsmenntun í fjölskyldumeðferð auk þess sem þau sinntu fyrirlestrahaldi og handleiðslu. Tengslin við Ísland voru sterk og fóru þau ótal ferðir hingað og héldu námskeið. Kennsluaðferðir þeirra voru samtalsfyrirlestrar, sýnikennsla og æfingar með hlutverkaleik. Fyrstu fagbækurnar í fjölskyldumeðferð voru ekki léttar aflestrar. Málfar erfitt og framandi þar sem flóknum tjáskiptum var lýst á vélrænan hátt. Þetta dró úr mörgum við lesturinn. Í sænsk/íslensku kennslulíkani þeirra hjóna kom Karl Gustaf teoríunni til skila á einfaldan og skiljanlegan hátt. Kristín bætti um betur með tengingum og útskýringum til hagnýtra nota. Þau voru brautryðjendur í fjölskyldumeðferð á Norðurlöndum með viðamiklu framlagi sem ekki er hægt að gera skil á hér. Saman skrifuðu þau 1992 kennslubókina ”Den osynliga familjen, samarbetspartner eller syndabock”. Titill bókarinnar og myndlíking eru sótt í eitt af Múmín-ævintýrum Tove Jansson um ósýnilega barnið. Litla stúlkan Ninni varð ósýnileg af óviðeigandi framkomu þeirra sem áttu að annast hana. En þegar hún kom inn í hina kærleiksríku Múmín-fjölskyldu tók hún tók að birtast, blómstra og standa með sjálfri sér. Þar ríkti traust, virðing og góðvild. Karl Gustaf var merkisberi þessara gilda. Blessuð sé minning hans.

Nanna K. Sigurðardóttir.

„Hann er bæði lögfræðingur og sálfræðingur og hann skilur allt.“ Þannig kynntum við vinkonurnar Karl og það var lán að Kristín eignaðist slíkan mann.

Á barnsaldri getum við lært tungumál fljótt og vel og Sigrún lærði íslensku af móður sinni, en litli bróðirinn Björn var ekki eins fús. Þá fór maðurinn sem skildi allt að læra íslensku svo að drengurinn litli gæti heyrt að pabbar töluðu líka íslensku.

Eitt vorið talaði Kristín um það að hún saknaði saumaklúbbsvinkvennanna. „Bjóddu þeim heim,“ sagði maðurinn sem skildi allt. Um miðjan júní vorum við komnar sjö héðan og sú áttunda frá Kaupmannahöfn. Það voru fagnaðarfundir, mikið talað og stundum mátti heita að stofurnar væru fuglabjarg, en orðin sem oftast heyrðust voru „dýrð og dásemd“. Það var dekrað við okkur og þessi vika var dýrðardagar.

Tíu árum seinna var okkur boðið aftur og í þriðju ferðinni til Kristínar og Karls fórum við vinkonurnar þaðan til Korsíku. Þegar við komum aftur og Karl tók á móti okkur var allt til reiðu og blóm í þremur vösum. „Hún Kristín hefur svo mikið yndi af blómum,“ sagði maðurinn sem skildi allt.

Nú kveðjum við þennan öðling með söknuði og þökkum fyrir hálfrar aldar vináttu.

Ástvinum öllum vottar saumaklúbburinn innilega samúð.

Ragnheiður.

Kynni okkar Karls Gustafs hófust þegar hann kom ásamt eiginkonu sinni Kristínu að kenna og handleiða í námi í fjölskyldumeðferð árið 1992, en þá var ég nemandi í því námi. Þetta tveggja ára nám skipulögðu þau og byggðu upp, ásamt Sigrúnu Júlíusdóttur og Nönnu Sigurðardóttur.

Á þessum árum bjuggu þau Kristín og Karl í Gautaborg í Svíþjóð og komu reglulega hingað til lands til að kenna. Í Gautaborg ráku þau meðferðarstöð og buðu þar upp á fjölskyldu-, hjóna- og parameðferð, árum saman. Það má með sanni segja að þau hafi verið frumkvöðlar og miklir áhrifavaldar á sínu sviði.

Um 15 árum síðar tókum við Sigrún Júlíusdóttir við keflinu og hófum undirbúning að fjölskyldumeðferðarnámi fyrir fagfólk, í samvinnu við Félagsráðgjafardeild HÍ og Endurmenntun HÍ. Faglegur andi Kristínar og Karls sveif þarna yfir enda kom ekki annað til greina en að fá þau til að kenna og handleiða. Viðkynni okkar urðu þá meiri og nánari sem samstarfsaðila á þessum tíma, en ég var kennslustjóri námsins. Fagleg þekking og áratuga reynsla þeirra kom því okkar nemendum til góða.

Ég minnist Karls Gustafs með mikilli hlýju og væntumþykju. Hann var góður og réttsýnn og bjó yfir mikilli visku sem kennari og handleiðari. Hann lagði sig fram um að hlusta og spurði nemendur spurninga, því hann vildi að þeir færðu rök fyrir máli sínu. Nemendum leið vel í návist Karls og þeir komu aldrei að tómum kofanum hjá honum.

Ég er þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að kynnast Karli Gustaf.

Elsku Kristín og fjölskylda, hjartans samúðarkveðja til ykkar, minningin um Karl Gustaf mun lifa.

Helga Þórðardóttir.

Á lífsleiðinni er það svo að sumt fólk hefur þannig áhrif að eftir því er tekið. Ég minnist þess eins og gerst hafi í gær þegar ég kynntist þeim hjónum Karli Gustaf og Kristínu fyrir áratugum þar sem ég stundaði nám í fjölskyldumeðferðarfræðum. Þegar þau voru mætt á svæðið fann ég að eitthvað sérstakt var í vændum. Þau voru komin sem gestakennarar og það ríkti tilhlökkun og eftirvænting í nemendahópnum.

Það er skemmst frá því að segja að þau heilluðu mig ekki bara með þeirri fræðilegu þekkingu sem þau miðluðu heldur ekki síst hvernig þau nálguðust viðfangsefnið og okkur nemendurna af mikilli virðingu, umhyggju og hlýju. Þau birtust sem ákveðnar andstæður en þó svo samhent. Hann hávaxinn og virkaði sem dálítill „bóhem“, auðmjúkur, vel lesinn og heima í því sem hann var að miðla. Hann bar með sér að vera fræðimaður í þess orðs fyllstu merkingu, grúskari mikill en um leið maður sem vildi nýta fræðin á hagnýtan hátt þannig að þau kæmu að gagni fyrir samfélagið í heild sinni og þær ótalmörgu fjölskyldur sem það byggja.

Það var einstaklega skemmtilegt þegar Karl Gustaf komst á flug í kennslunni. Hann var óþrjótandi í að miðla af þekkingu sinni, talaði af mikilli ástríðu um fagið þannig að það duldist engum að hann hafði sannfæringu fyrir því sem hann hafði gert að ævistarfi sínu, að hjálpa fólki, styðja pör, fjölskyldur og faghópa í hvers kyns aðstæðum. Þau hjónin gáfu okkur nemendunum frábært veganesti og ótal verkfæri sem hafa reynst mér ómetanleg í lífi og starfi.

Eftir að námi lauk fylgdist ég með þeim og störfum þeirra úr fjarlægð en þegar þau fluttust til Íslands eftir áratuga búsetu í Svíþjóð lágu leiðirnar saman á ný. Nú hlotnaðist mér sá heiður að undirbúa og skipuleggja með þeim hjónum málstofu um starf þeirra á norrænni ráðstefnu um fjölskyldumeðferð sem haldin var hér á landi árið 2017. Í aðdraganda ráðstefnunnar áttum við í miklum samskiptum þar sem ég kynntist þeim á annan hátt en áður. Stundirnar heima hjá þeim í Hrísmóum voru gefandi og uppbyggilegar og verkefnið sem ég vissi að var stórt og umfangsmikið reyndist einstaklega ljúft að vinna.

Málstofan tókst vel þar sem Kristín og Karl Gustaf litu um öxl og til framtíðar með þátttakendum út frá sjónarhorni reynslunnar og eigin fagþekkingar. Þau voru sterk saman um leið og þau voru sterk ein og sér. Sáttin var þeim hugleikin og sáttargjörðarhugtakið og hvernig hægt er að nota þá nálgun sem ákveðna undirstöðu í meðferðarvinnu með fjölskyldum og mismunandi faghópum. Meðferðarlíkan þeirra byggðist á hugmyndinni um sammeðferðaraðila þar sem gengið var út frá mismunandi lífsreynslu og sjónarhorni kynjanna.

Ég er þakklát fyrir kennara minn Karl Gustaf Piltz og það sem hann fékk áorkað í lífi sínu. Kæra Kristín, ég vil færa þér og fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um elskulegan eiginmann þinn, vin og samstarfsfélaga fylgja þér og ykkur í sorg og söknuði.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir.

Til Karls Gustafs vinar míns.

Það stenst ekki að þú sért látinn, þú sem varst alltaf svo lifandi, brosandi, áhugasamur og lífsglaður. Þannig mun ég alltaf minnast þín. Sjaldan sér maður eins sameinaðan fjölskyldukærleika og milli þín og Kristínar, Sigrúnar, Björns og ykkar elskuðu barnabarna. Umhyggja þín og mannþekking hefur líka náð til svo margra annarra, ættingja og vina, og ekki síst til þeirra fjölmörgu sem þú hefur kennt og handleitt í áratugi, og einnig þeirra sem þið Kristín höfðuð í samtalsmeðferð. Þú varst fyrsti handleiðarinn minn, út frá kenningum mannúðarhyggju – að sjálfsögðu.

Hvenær sem minnst var á ykkur Kristínu heyrðust eingöngu lofsyrði og virðing. Þið voruð líka brautryðjendur með sýn ykkar á mikilvægi samskiptanets og tengsla og einnig með hinni áhrifaríku bók ykkar „Den osynliga familjen“.

Karl Gustaf, þú hefur sannarlega nýtt hæfileika þína og stýrt lífinu eins og best verður á kosið, og að auki hefur þú tengt saman tvö þjóðlönd og tvö tungumál. Ég gleðst innilega yfir þeim hlýju móttökum og viðurkenningu sem þú naust á Íslandi og að þú fékkst að ljúka ævinni í fögru Reykjavík.

Eina huggunin í sorg:

gleðin í minningunni.

Hvíl þú í friði!

Faðmlag frá Barbro.

Barbro Lennéer-Axelson.