Sigríður Soffía Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. mars 1954. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 26. apríl 2024.

Foreldrar Sigríðar voru Fríða Sonja Schmidt, f. 9. desember 1918, d. 10. desember 2011, og Gunnar Pétur Óskarsson, verslunarmaður og fulltrúi, f. 3. október 1916, d. 3. desember 1998. Systkini Sigríðar voru Gylfi Heinrich Gunnarsson, f. 17. desember 1940, Geir Halldór Gunnarsson, f. 10. október 1944, d. 31. mars 2020, og Hólmfríður Gunnarsdóttir, f. 6. apríl 1948, d. 12. janúar 2017. Einnig átti Sigríður samfeðra hálfsystur, Huldu Óskarsdóttur Perry, f. 6. apríl 1937, d. 17. maí 2023.

Sigríður giftist Má Magnússyni söngvara árið 1986 en þau skildu árið 2005. Börn þeirra eru Gunnar Karel Másson, fæddur 1984 og Mímir Másson, fæddur 1988. Gunnar er giftur Agnesi Guðjónsdóttur, börn þeirra eru Ilmur Gunnarsdóttir, fædd 2010, Urður Gunnarsdóttir, fædd 2013, og Embla Gunnarsdóttir, fædd 2018. Mímir er í sambúð með Elinu Josefinu Widerdal.

Sigríður ólst upp í Reykjavík á Sólvallagötu 4 allt til 24 ára aldurs þegar hún hélt til Bandaríkjanna í ljósmyndanám við Purdue-háskólann þar sem hún lauk BA-gráðu í ljósmyndun. Áður en hún hélt til náms hafði hún unnið margvísleg störf og má þar á meðal sérstaklega nefna störf hennar við sakadóm þar sem hún kynntist fjölmörgum vinkonum sínum sem héldu sambandi allt þar til hún lést.

Sigríður vann við ljósmyndun eftir að hún kom heim úr námi og kynntist hún Má Magnússyni einnig fljótlega eftir að heim var komið. Eignuðust þau Gunnar Karel í maí 1984. Þau giftu sig á Þingvöllum 1986 og ekki löngu seinna héldu þau til Bandaríkjanna í frekara nám. Sú dvöl varð styttri en áætlað var og voru þau komin aftur til Íslands tæplega tveimur árum seinna, og fljótlega fæddist Mímir í apríl 1988. Við tóku fjöldamargir búferlaflutningar næstu árin með viðkomu í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði þar sem þau ráku ljósmyndaverslun í nokkur ár. Svo var haldið norður í land á Akureyri og í Hörgárdal, þar sem Sigríður rak ljósmyndastúdíóið Listmynd í Gilinu á Akureyri. Sumarið 1998 var land lagt aftur undir fót og flutti fjölskyldan til Danmerkur þar sem hún bjó næstu fjögur árin í Haderslev og Aabenraa í Suður-Jótlandi. Ísland togaði samt alltaf í hjartastrengina og fluttu þau til Reykjavíkur 2002 á Bergstaðastræti og Flyðrugranda. Árið 2005 skilja Sigríður og Már og stuttu seinna árið 2007 flytur Sigríður á Eyrarbakka þar sem hún rak gistiheimili í nokkur ár. Árið 2016 flytur Sigríður til Akureyrar og er þar í tvö ár þar til hún flutti aftur suður, í þetta skiptið á Ásbrú í Reykjanesbæ. Árið 2020 fær Sigríður inni á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún bjó til dauðadags.

Útför hennar fer fram í Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 24. maí 2024, klukkan 15.

Elsku Sigga frænka hefur fengið hvíldina eftir erfið og löng veikindi. Alzheimersjúkdómurinn er lúmskur, læðist aftan að fólki eins og þjófur að nóttu og enginn fær neitt við ráðið.

Sigríður Soffía var yngst af fjórum börnum hjónanna Sonju Smith og Gunnars Óskarssonar, hin börnin voru Geir, Hólmfríður, bæði látin, en eftirlifandi er Gylfi, sem er elstur þeirra systkina. Þau ólust upp á Sólvallagötunni í Reykjavík í glæsilegu húsi. Garðurinn var vel þekktur fyrir tréð sem blómstaði gulum blómum, gullregn, og vakti mikla athygli vegfarenda.

Við Sigga náðum vel saman, hittumst af og til í gegnum árin en er hún flutti á Eyrarbakka hittumst við oft. Slógum á létta strengi og spjölluðum. Hún var aldrei ein, alltaf var hundurinn hennar og besti vinur með í för og oft mátti sjá þau á gangi í fjörunni eða á sjóvarnargarðinum.

Sigga setti svip á Bakkann. Bjó í fallegu húsi þar sem hún rak gistihús um tíma. Listin var Siggu í blóð borin, hún var bóhem. Lærði ljósmyndun í Ameríku, hafði næmt auga, elskaði ljóðlist er hún fékkst við er tími gafst til.

Alltaf gat Sigga séð hið spaugilega og áttum við góðar stundir saman hér á Bakkanum. Mæður okkar voru frænkur og miklar vinkonur. Er jól nálguðust og afmælisdagur Sonju fór móðir mín Herborg að baka lagköku til að færa Sonju í afmælisgjöf, sem var fastur liður. Mér er minnisstætt þegar móðir mín pakkaði lagkökunni inn í jólapappír með sínum lúnu höndum, 94 ára, og batt rauða slaufu. Í minningunni er þetta einn af demöntum minninganna.

Ég þakka Siggu frænku samfylgdina og votta fjölskyldunni innilega samúð.

Jónína Herborg Jónsdóttir.

Leiðir okkar Siggu og undirritaðra lágu fyrst saman þegar við hófum störf hjá Sakadómi Reykjavíkur og Rannsóknarlögreglunni í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar. Þetta var fjölmennur vinnustaður. Árin þar voru skemmtileg og jafnframt góður skóli. Fólk bast vináttuböndum sem aldrei rofnuðu. Á stórum vinnustað var oft glatt á hjalla. Haldið var upp á stórafmæli og farið í ferðalög. Sigga var skemmtileg manneskja, hrókur alls fagnaðar í vinahóp, skáldmælt og skapandi og alls ekki skaplaus. Ógleymanleg er ferðin í Veiðivötn, en við stöllurnar höfðum ekki séð þá náttúruperlu áður. Sigga orti langa drápu um ferðina og ferðafélagana og „um það sem skeði þar“. Kvæðið er varðveitt og fer ekki í glatkistuna.

Tíminn leið og unga fólkið festi ráð sitt og eignaðist börn og buru. Sigga eignaðist synina Gunnar Karel og Mími. Vináttan hélst og hittumst við stöllurnar 19. júní ár hvert væri því við komið.

Sigga hafði alltaf mörg járn í eldinum, sótti sér menntun bæði í Danmörku og Bandaríkjunum. Hún lærði m.a. ljósmyndun, fór í guðfræði í HÍ, sótti vinnustofur í ljóðagerð í París og Istanbúl. Eftir að Sigga varð ein keypti hún sér hús á Eyrarbakka sem hún opnaði fyrir gestum og gangandi. Morgunverðurinn hjá henni var rómaður og víðfrægur, allt beint frá býli, ferskt og borið fram í eðalstellum. Sigga var sannkallaður listakokkur. Á Eyrarbakka hafði hún líka ljósmyndastúdíó.

Kyrrstaða var Siggu ekki að skapi og frá Eyrarbakka lá leiðin til Akureyrar þar sem hún keypti sér íbúð í fallegu gömlu húsi. Sigga var mikill dýravinur og átti oftast dýr. Tíkin María Melasól og kisan Skutla fylgdu henni hvert sem hún fór. Á Akureyri átti Sigga góða vini og góð ár. Þangað var gott að koma og gleðin við völd.

Á Akureyri gerði sjúkdómurinn, sem að lokum lagði hana að velli, fyrst vart við sig. Þá flutti Sigga suður, fyrst í eigin íbúð en síðustu árin bjó hún á Hrafnistu í Hafnarfirði og naut þar góðrar umönnunar. Gunnar og tengdadóttirin Agnes hugsuðu afskaplega vel um Siggu. Hún var afar stolt af dætrum þeirra þremur og naut þess að fara til fjölskyldunnar og fá hana í heimsókn.

Að leiðarlokum þökkum við Siggu fyrir árin 50 sem við áttum samleið og vottum ástvinum hennar innilega samúð.

Við Sakadómsdívurnar,

Margrét, Hafdís, Guðrún Björnsd., Guðrún Ólafsd., Guðrún Ásta.