Háskólatorg Eurostat bar saman brotthvarf úr námi í 30 löndum.
Háskólatorg Eurostat bar saman brotthvarf úr námi í 30 löndum. — Morgunblaðið/Eggert
Brotthvarf ungra karla á Íslandi á aldrinum 18 til 24 ára úr námi og starfsþjálfun á seinasta ári var það mesta meðal Evrópuþjóða samkvæmt nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Var brotthvarf meðal karla í þessum árgöngum 22,1%, sem …

Brotthvarf ungra karla á Íslandi á aldrinum 18 til 24 ára úr námi og starfsþjálfun á seinasta ári var það mesta meðal Evrópuþjóða samkvæmt nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Var brotthvarf meðal karla í þessum árgöngum 22,1%, sem er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópulandi sem samanburðurinn nær til.

Hlutfallið meðal ungra karla hefur ekki verið hærra hér á landi frá árinu 2019 þegar það var 24,5%, en það mældist 21,7% á árinu 2022.

Mikill munur er á kynjunum. Brotthvarf meðal 18 til 24 ára kvenna var 9% hér á landi á seinasta ári. Hlutfallið meðal kvenna var hærra en á Íslandi í sjö Evrópulöndum en það lækkaði hér á landi frá árinu á undan þegar 10,8% 18 til 24 ára kvenna hurfu frá námi eða starfsþjálfun skv. samanburðinum.

Ef litið er yfir lengra tímabil má sjá að dregið hefur töluvert úr brottfalli bæði karla og kvenna hér á landi úr námi á seinasta áratug. Árið 2014 var það 24,4% meðal karla og 13,6% meðal kvenna á þessum aldri.

Heildarútkoman fyrir Ísland í þessum samanburði fyrir seinasta ár er sú að 15,8% allra sem voru á aldrinum 18 til 24 ára hurfu frá námi á seinasta ári. Er það annað hæsta hlutfallið meðal þeirra 30 Evrópulanda sem eru í samanburðinum en aðeins Rúmenía náði hærra en Ísland á listanum. Þar var hlutfall fólks á þessum aldri sem hvarf frá námi 16,6%. Hér á landi lækkaði hlutfallið millli ára eða úr 16,5% á árinu 2022, sem stafar eingöngu af minna brottfalli meðal kvenna.

Að meðaltali hurfu 9,5% fólks á þessum aldri í löndum Evrópusambandsins frá námi í fyrra. ESB-löndin hafa sett sér það markmið að hlutfall þeirra sem hverfa frá námi og starfsþjálfun ungir að árum verði komið undir 9% á árinu 2030 og hafa 16 ESB-þjóðir náð því marki.
omfr@mbl.is