Aldís Pálsdóttir ljósmyndari hefur næmt auga fyrir fegurð.
Aldís Pálsdóttir ljósmyndari hefur næmt auga fyrir fegurð. — Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldís lærði ljósmyndun í Medieskolerne í Viborg í Danmörku. Þar vann hún síðan hjá einum virtasta ljósmyndara Danmerkur, Steen Evald sem var tískuljósmyndari og hirðljósmyndari konungsfjölskyldunnar

Aldís lærði ljósmyndun í Medieskolerne í Viborg í Danmörku. Þar vann hún síðan hjá einum virtasta ljósmyndara Danmerkur, Steen Evald sem var tískuljósmyndari og hirðljósmyndari konungsfjölskyldunnar. Síðan þá hefur hún unnið að fjölbreyttum verkefnum, erlendis og hér heima.

Hvers vegna valdirðu þennan starfsvettvang?

„Hann valdi mig bara, held ég. Ég hef oft spurt mig að þessu sjálf eða hvort ég eigi nú ekki að læra eitthvað gáfulegra eða finna mér venjulega vinnu. Það getur verið erfitt stundum að vera sjálfstætt starfandi. Því fylgir mikil ábyrgð en um leið mikið frelsi. Áhyggjur af því hvort nóg verði að gera eru fylgifiskur þess að vera sjálfstætt starfandi en ég reyni að fara vel með mig. Hugurinn á það til að fara í marga hringi en ég kemst iðulega að þeirri niðurstöðu að ég sé á réttum stað í lífinu enda komst ég inn í þennan skóla. Ég fór að taka myndir, sem vöktu athygli, og náði einhvern veginn að koma mér þannig áfram. Ég fékk fullt af verkefnum án þess að vera þannig séð að biðja um það.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera ljósmyndari? Kostir, gallar?

„Það er í raun kostur og galli að vera sjálfstætt starfandi, að vera sinn eigin yfirmaður. Að vera í senn skipuleggjandi, hugmyndasmiður, tæknimaður, sjá um öll samskipti, vera stjórnandi og leiðbeinandi, markaðsmanneskja, gjaldkeri og bókari. Mannauðsstjóri og vinkona sjálfrar mín. Þetta er gott en líka lýjandi. Það skemmtilegasta er án efa að vinna með og kynnast fólki sem sameinar krafta sína til að skapa eitthvað fallegt fyrir augað. Það er aðaldrifkrafturinn minn held ég, og auðvitað að fá borgað fyrir það. En leiðinlegast er þegar fyrirtæki vilja fá toppþjónustu og -útkomu en tíma ekki að borga fyrir vinnuna og reyna jafnvel að gera minna úr verkefninu, til að smána mína vinnu, eða annarra.“

Hvaða hlut langar þig mest að eignast inn á heimili þitt um þessar mundir?

„Mig langar mest í nýjan sófa og sófaborð og mig hefur langað í gardínur síðan ég flutti inn en við hjónin erum ósammála varðandi það.“

Hvaða húsgagni myndirðu bjarga ef húsið þitt væri að brenna?

„Líklega engu! Ég myndi vilja taka myndvélartöskuna og tölvuna, og eins myndi ég bjarga eins mörgum hörðum diskum og ég gæti. Líklega væru þeir mikilvægastir, hægt að kaupa nýtt af hinu.“

Hvað er á óskalistanum að eignast í eldhúsið?

„Ég ætla að panta mér VERU-hillu frá FORMER.“

En hvað er á óskalistanum inn á baðið?

„Mig vantar nýtt sturtugler! Ég er með hurð fyrir ofan baðkarið sem hefur aldrei virkað almennilega því það fer vatn út um allt eftir hverja sturtu! Þetta lítur vel út en er glötuð hönnun. Kannski þarf ég að taka baðkarið út og hafa bara sturtu. Mér finnst svo næs samt að fara í bað.“

Hvaða hönnuður er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Það eru nokkur hönnunarmerki sem ég held upp á eins og VIPP, Royal Copenhagen, FORMER, HAF og KER. Þessi þrjú síðustu eru íslensk hönnun.“

Hvaða tökustað heldurðu mikið upp á fyrir tískuljósmyndun?

„Það er mjög breytilegt, eins og tískan sjálf. En þegar maður hefur notað einn tökustað þá er það svolítið búið, maður fer ekki mikið á sömu staðina. En ef ég ætti að nefna eitthvað þá væri það íslenska náttúran. Okkur finnst hún stundum heldur venjuleg þar sem allir hafa aðgang að henni en svo eru stór tískuhús eins og Louis Vuitton, Chanel og Gucci að koma hingað til að mynda sínar vörulínur í okkar bakgarði ef svo má að orði komast. Þau fara annað fyrir arkitektúr.“

Hvaða ljós myndirðu kaupa í borðstofuna þína óháð kostnaði?

„Mig langarí veggljós frá FOLK, elska VIPP yfir borðstofuborð.“

Áttu þér uppáhaldslistmálara?

„Ef ég á að taka spurninguna bókstaflega þá myndi ég segja Harpa Árnadóttir. Annars var ég að sjá verk eftir Önnu Brynjólfsdóttur sem ég hef verið að heillast af. Maðurinn minn á mynd eftir Ástu Fanneyju, sem er stimpilverk af Akrafjalli, mér finnst það ofsalega fallegt. Hún gerði nokkur fjöll á þennan hátt og seldi í takmörkuðu upplagi. Ég væri líka til í að eiga eitt verk eftir Leif Ými og auðvitað Kjarval.“

Hvaða myndavél er mest töff?

„Leica. Þær eru svo dýrar að ég er ekki að skoða þær. Ég nota Canon af því að þær eru geggjað góðar og neytendavænar. Skila góðum fókus og virka hratt. Annars finnst mér Fujifilm eiginlega mest töff útlítandi myndavélarnar! Retro-væb, sem mér finnst kúl.“

Hvaða innanhússlitur er í uppáhaldi hjá þér?

„Kampavínsliturinn hennar Andreu eða Linneu Sand.“

Hvernig og hvar væri draumaheimili þitt?

„Það væri draumur að hafa það ljóst og hátt til lofts. Skandinavískt með suðrænum grænum blómum og trjám. Ég veit ekki hvar, líklega á Íslandi, þó að ég væri alveg til í að eiga hús á Ítalíu eða Balí. Ég hef átt heima á Spáni og Danmörku og er alveg opin fyrir því að eiga heima á nýjum stað þegar krakkarnir mínir eru búnir með grunnmenntunina. Ég myndi vilja vera í sama landi og börnin mín en kannski eru það óraunhæfar væntingar fyrir framtíðina.“