Guðjón Steinþórsson fæddist í Reykjavík 26. desember 1955. Hann lést á Gran Canaria 5. apríl 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Steinþór Þórðarson bóndi í Skuggahlíð, Norðfirði, f. 13.7. 1926, d. 7.4. 1995, og Herdís Valgerður Guðjónsdóttir húsfreyja og bóndi, f. 6.7. 1936. Systkini Guðjóns eru Sigursteinn (samfeðra), f. 1954, Steinunn, f. 1957 (látin), Jón Þorleifur, f. 1958, Valgerður, f. 1961, og Jóna Jóhanna, f. 1965.

Guðjón kvæntist 17. júlí 1982 Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, f. 1956, þau skildu. Synir þeirra eru Guðmundur Örn, f. 9. nóvember 1982, sambýliskona Astrid Daxböck, f. 30. júlí 1980, Steinþór, f. 31. desember 1985, og Magnús Haukur Ásgeirsson (sonur Önnu Guðnýjar), f. 13. nóvember 1975, kvæntur Margréti Ófeigsdóttur, f. 25. apríl 1980. Þeirra börn eru Arnaldur Máni, f. 3. október 2004, Eva Kamilla, f. 7. maí 2007, og Benjamín Bjarki, f. 2. ágúst 2013. Fyrrverandi sambýliskona Guðjóns og kær vinkona er Lena Bergmann, f. 1973.

Guðjón stundaði nám í gítarleik við Tónskólann í Neskaupstað og Tónskóla Sigursveins. Hann vann ýmis fjölbreytt störf auk þess að vera gítarleikari í ýmsum hljómsveitum. Þekktust þeirra var Amon Ra frá Neskaupstað en þar starfaði hann einnig um árabil sem tónmennta- og gítarkennari. Guðjón hafði yndi af trillusjómennsku og lauk prófi í stjórnun smáskipa frá Tækniskólanum. Hann starfaði lengi sem tæknimaður á Hótel Sögu og víðar. Síðustu ár starfaði Guðjón sem tónlistarkennari við Tónskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar allt fram að starfslokum í júní 2023.

Minnningargrein á
www.mbl.is/andlat

Útför Guðjóns verður gerð frá Norðfjarðarkirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 14.