Hetjan Ademola Lookman skoraði öll þrjú mörk Atalanta.
Hetjan Ademola Lookman skoraði öll þrjú mörk Atalanta. — AFP/Glyn Kirk
Evrópudeild karla í fótbolta lauk í fyrrakvöld þegar Atalanta frá Ítalíu vann sögulegan sigur á Leverkusen frá Þýskalandi, 3:0, í úrslitaleik í Dublin á Írlandi. Þetta er fyrsti Evróputitill Atalanta og aðeins annar titillinn í sögu félagsins sem áður varð ítalskur bikarmeistari árið 1963

Evrópudeild karla í fótbolta lauk í fyrrakvöld þegar Atalanta frá Ítalíu vann sögulegan sigur á Leverkusen frá Þýskalandi, 3:0, í úrslitaleik í Dublin á Írlandi.

Þetta er fyrsti Evróputitill Atalanta og aðeins annar titillinn í sögu félagsins sem áður varð ítalskur bikarmeistari árið 1963. Félagið hefur aldrei orðið ítalskur meistari en þrisvar endað í þriðja sæti, árin 2019, 2020 og 2021.

Nígeríumaðurinn Ademola Lookman, sem er fæddur á Englandi og lék þar með yngri landsliðunum, skoraði öll þrjú mörk Atalanta og varð þar með fyrstur í sögu keppninnar til að skora þrennu í úrslitaleik hennar.

51 leikur án taps

Segja má að ósigur Leverkusen sé þó enn sögulegri. Þýska félagið hafði sett evrópskt met með því að vera ósigrað í 51 leik í öllum keppnum á tímabilinu og slegið met Benfica frá Portúgal (48 leikir) frá árunum 1963-1965.

Leverkusen tapaði ekki leik í þýsku 1. deildinni í vetur, þar sem félagið varð meistari í fyrsta skipti í sögunni, og hafði ekki tapað leik í Evrópudeildinni eða þýsku bikarkeppninni þar til í Dublin í fyrrakvöld.

Með ósigrinum gegn Atalanta missti Leverkusen af möguleikanum á magnaðri þrennu en liðið getur enn unnið tvöfalt í Þýskalandi. Xabi Alonso og hans menn eiga eftir að mæta B-deildarliðinu Kaiserslautern í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar annað kvöld og freista þess að vinna hana í annað skipti en félagið varð áður bikarmeistari árið 1993.