Guðmundur Einar Erlendsson fæddist 13. janúar 1936 í Reykjavík. Hann lést á Borgarspítala 7. maí 2024.

Foreldrar hans voru Erlendur Einarsson, verkamaður á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík, f. 28. október 1883, d. 16. júlí 1963, og Helga Ingibjörg Helgadóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 16. febrúar 1894, d. 14. mars 1970. Hálfsystir Guðmundar samfeðra var Sigríður Stefanía, f. 9. október 1920, d. 28. mars 1989.

Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.

Guðmundur lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1954 og var löggiltur endurskoðandi frá 13. janúar 1961. Hann starfaði mest við endurskoðun, vann fyrst hjá SÍS, starfrækti síðan eigin endurskoðunarskrifstofu, var forstöðumaður skrifstofu ríkisskattanefndar og starfaði hjá ríkisskattanefnd/yfirskattanefnd frá 1980 til starfsloka 2006.

Guðmundur stundaði nám í Tónskóla þjóðkirkjunnar og sinnti ýmsum áhugamálum svo sem einkaflugi og útivist. Hann var virkur í starfi Gídeon að dreifa Nýja testamentinu og studdi ýmsa velferðarstarfsemi með fjárframlögum.

Útför Guðmundar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 24. maí 2024, og hefst klukkan 13.

Fyrir rúmri öld snerist lífsbaráttan um að lifa af og ekki þurfti annað en lungnabólgu, lendingu í brimi eða erfiða fæðingu til að hópur barna yrði munaðarlaus. Þegar afi okkar systkina dó ungur var mamma ekki orðin fjögurra ára og amma varð þá ekkja í annað sinn. Það var því sterk samheldni meðal ættingja og mikill samgangur og stuðningur enda voru fjölskyldubönd og náungakærleikur uppistaðan í félagslegu kerfi þess tíma. Feður Guðmundar Erlendssonar og Guðrúnar Soffíu móður okkar systkina voru bræður en þeir voru fæddir og uppaldir á Eyrarbakka ásamt systkinum sínum.

Þannig kynntist ég Guðmundi á æskuheimilinu og í fjölskylduboðum. Þótt hann væri einfari átti hann ýmis áhugamál og eitt þeirra var tónlistin. Þannig æfðum við að spila saman á fiðlu og píanó þótt ekki næði það langt og hann leitaði mikið í trúarlegt umhverfi og þar náðum við einnig saman. Löngu seinna hittumst við fyrir tilviljun á fjallaskíðum í Bláfjöllum eða á förnum vegi.

Árin liðu, eldri kynslóðin var farin og ég vissi ekki mikið um hagi frænda míns þegar covid skall á. Ég vissi að hann hafði tekið þátt í starfi Gídeon að gefa Nýja testamentið, hafði stutt ABC-hjálparstarf, Rauða krossinn og fleira. Ég hugsaði til þess að hann ætti líklega erfitt með að kaupa í matinn eins og fleiri eldri borgarar á covid-tíma en var annars upptekinn af önnum daglegs lífs. Þá vaknaði ég nótt eina við draum eða hugsanir þar sem mér fannst ég vera í hans aðstæðum, heilsa og kjarkur farin, ekkert þrek til að hafa heimilið í lagi, engir nánir vinir eða fjölskylda og einmanaleiki og kvíði lá yfir öllu. Þetta var það sterk reynsla að ég tók það sem mitt hlutverk að sinna honum og aðstoða og hef gert það síðan.

Þetta hófst með því að kaupa í matinn en það tók um þrjár vikur að vinna traust til þess að fá að koma inn fyrir. Þar var allt í drasli, sterk lykt af matarleifum og úrgangi, klósettið stíflað og erfitt að finna pláss til að stíga niður fæti. Þunglyndi og einmanaleiki voru yfirþyrmandi, lítil lífslöngun og almennur kvíði var mikill. Hann þurfti að tjá sig, þurfti hjálp og mannlegt samfélag. Smám saman kom hin félagslega hjálp Reykjavíkurborgar inn og frændi minn fékk stigvaxandi aðstoð heima og hjá Hrafnistu í dagdvöl og hvíldarinnlögnum af og til.

Allt er þetta gott og nauðsynlegt en það nær ekki að mæta þörfinni fyrir mannleg samskipti og hlýju, síst fyrir einstæðinga. Við fengum því elskulega flóttakonu til að gefa honum kvöldmat og hjálpa honum í rúmið á kvöldin og hafði hann mynd af henni síðar á náttborðinu á Hrafnistu í Boðaþingi þar sem hann fékk loks vist á hjúkrunarheimili.

Eftir þessa reynslu verður mér oft litið upp í glugga þar sem ég veit að margir aldraðir búa og ég velti fyrir mér hvernig staðan er heima hjá sumum þeirra og hvað við getum gert betur í okkar félagslega kerfi.

Gísli H. Friðgeirsson.

Traustur, heiðarlegur og hógvær vinur hefur kvatt sitt jarðneska líf og flutt til föðurhúsa. Við áttum saman margar góðar stundir í kristilegu starfi í nokkur ár og um þær stundir eru góðar minningar um einlægan og biblíufróðan bænamann.

Við vorum líka saman í gönguhóp og í minningunni gekk Guðmundur gjarnan í broddi fylkingar enda léttur á fæti og góður göngumaður, hann hafði yndi af tónlist og spilaði á píanó og var í raun listunnandi maður.

Á þessum árum vann Guðmundur sem endurskoðandi hjá RSK og þegar dró að starfslokum hjá honum fór hann að huga að því að minnka við sig og flytja úr einbýlishúsi sínu á stað sem hentaði honum betur þegar aldurinn færi að segja til sín og ljúkum við þessum minningarorðum með því að við hjónin fórum með honum að kynna okkur aðstæður á sambýli fyrir aldraða, sem reyndar varð ekki fyrir valinu hjá honum þegar hann flutti.

Svo vildi til að kærir vinir, Jón Kárason og Bjarghildur Stefánsdóttir, bjuggu á þessum stað og þar sem við hjónin höfðum oft notið gestrisni þeirra ákváðum við að heilsa upp á þau og fræðast um húsið og þá þjónustu sem þar væri í boði. Þegar Guðmundur og Jón heilsuðust urðu fagnaðarfundir því þeir þekktust frá fornu fari. Jón Kárason var um árabil aðalbókari hjá gamla Landsímanum og Jón, sem þá var hættur störfum, rifjaði það upp að Guðmundur hafði á sínum tíma hannað bókhaldskerfi fyrir Landsímann sem Jón sagði að hefði reynst svo vel að þegar stjórn Símans lét taka upp nýtt kerfi sagði Jón að það hefði verið svo gallað að hann tók aftur upp gamla bókhaldið sem Guðmundur hannaði. Þá glaðnaði yfir Guðmundi en að öðru leyti tjáði hann sig ekki um málið. Þessi saga segir þó sína sögu af faglegri hæfni Guðmundar sem endurskoðanda.

Frændum og vinum Guðmundar vottum við innilega samúð okkar.

Guð blessi minningu hins látna.

Eygló og Ársæll.