Árið er 2007 Þengill og Steinunn með hluta barnabarna.
Árið er 2007 Þengill og Steinunn með hluta barnabarna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þengill Oddsson fæddist 24. maí 1944 á Vífilsstöðum. Þar bjó hann fyrsta árið eða þar til fjölskyldan fluttist í Mosfellssveit, fyrst að Brúarlandi og svo á Reykjalund. Hann ólst upp í hópi sex systkina og var oft fjör á bænum

Þengill Oddsson fæddist 24. maí 1944 á Vífilsstöðum. Þar bjó hann fyrsta árið eða þar til fjölskyldan fluttist í Mosfellssveit, fyrst að Brúarlandi og svo á Reykjalund. Hann ólst upp í hópi sex systkina og var oft fjör á bænum. „Ég fór snemma í sveit, var þrjú sumur á Völlum á Kjalarnesi og svo fimm sumur á Fjalli á Skeiðum. Ég var hjá góðu fólki, lærði til verka og fékk meðal annars áhuga á hestamennsku sem hefur fylgt mér síðan.“

Áhugi Þengils á flugi og lækningum kom snemma fram, en sjálfur er hann flugmaður. „Ég hef alla tíð haft áhuga á flugmálum – allt frá því að ég var krakki, en í næsta húsi við okkur á Reykjalundi bjó flugkennari. Hann lenti oft á skeiðvellinum á Reykjamelum og kíkti í kaffi til mömmu sinnar og ég fékk þá að sitja í einn og einn hring. Ég tók einkaflugmannsprófið 18 ára og hélt áfram, en þegar kom að því að velja milli flugsins og læknisfræðinnar valdi ég læknisfræðina.“

Eftir landspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og stúdentspróf frá sama skóla 1964 lá leiðin til Bandaríkjanna á Fulbright-styrk, þar lauk Þengill pre. med.-diplóma frá Dickenson College 1965 og náði sér í flugtíma í leiðinni. Þengill lauk cand. med. frá Háskóla Íslands 1970 og námi í embættislækningum frá Norræna heilbrigðisháskólanum í Gautaborg 1976. Þengill hlaut almennt lækningaleyfi 1972 og sérfræðingsleyfi í heimilis- og embættislækningum árið 1995.

Sem unglingur fylgdi Þengill föður sínum, þáverandi yfirlækni á Reykjalundi, í vitjanir og aðstoðaði hann eftir megni. Sjálfur fór hann að stunda lækningar sem kandídat og aðstoðarlæknir á Landspítalanum og Reykjalundi árin 1970-71. Hann varð héraðslæknir í Vopnafjarðarhéraði 1972-75 og aftur 1976-81 að loknu námshléi í Svíþjóð þar sem hann var aðstoðarlæknir á Östra-sjúkrahúsinu í Gautaborg 1975-76.

„Við fjölskyldan vorum níu góð ár á Vopnafirði. Ég var einn á vakt, allan sólarhringinn í 11 mánuði á ári, frá Egilsstöðum til Þórshafnar. Stundum reyndi á sjúkraflug og þá fór ég með. Það voru aðrir tímar, vélarnar gamlar, hvorki „autopilot“ né afísing og bara einn flugmaður. Stundum stóð tæpt, veðrið brjálað en allt blessaðist þetta. Á þessum tíma vorum við nokkrir sem unnum að stofnun Flugfélags Austurlands, en það var rík þörf á að tryggja samgönguöryggi og hafa vélar til sjúkraflugs í fjórðungnum.“

Þengill tók við stöðu yfirlæknis Heilsugæslu Mosfellsbæjar 1981-93 og á ný 1996-2014 eftir námshlé. Í námshléinu starfaði hann á barnadeild Landakotsspítala og á slysa- og lyflækningadeild Borgarspítalans. Þá leysti hann jafnframt af í Scoresbysundi á Grænlandi. Þegar hann lét af störfum yfirlæknis Heilsugæslunnar vegna aldurs 2014 starfaði hann áfram sem læknir við stöðina til 2019.

„Frá því að við Steina fluttum hingað suður með dæturnar hefur Mosfellsbær margfaldast, fjöldi sjúklinga eðlilega aukist til muna og starf læknis þróast í takt við það. Það hafa verið forréttindi að starfa hér í minni heimasveit og ég hef notið þess að vinna með góðu fólki.“

Þengill var læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands 1994-2008. „Þessi 14 ár í þyrlusveitinni voru mjög gefandi tími, það reyndi vissulega oft á og stundum fór um mann hangandi neðan úr þyrlunni í verstu veðrunum. Maður setti traust sitt á félagana og það var í raun magnað að fylgjast með flugmönnunum, oft í ómögulegum aðstæðum. Í hvert skipti sem við náðum að koma fólki til bjargar fann ég fyrir miklum létti og þakklæti.“

Frá 1998 hefur Þengill gegnt starfi yfirlæknis Flugmálastjórnar og síðar yfirlæknis heilbrigðisskorar Samgöngustofu. Nú hillir undir starfslok og spurður um hvað standi upp úr á þessum tíma segir Þengill það vera framfarir í öryggismálum. „Það hefur verið mitt leiðarljós að tryggja öryggi og velferð. Það hafa fylgt því erfiðar ákvarðanir, en því miður þarf svo að vera til að tryggja að allir komi heilir heim.“

Þengill hefur á langri ævi gegnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum, m.a. hefur hann frá árinu 1998 tekið virkan þátt í starfi Flugöryggissamtaka Evrópu, hann er og fulltrúi Íslands í læknanefnd samtakanna. Þengill hefur verið félagi í Flugklúbbi Mosfellsbæjar frá 1982, þar af formaður 1983-84. Hann var formaður stjórnar Skálatúnsheimilisins í 40 ár, 1982-2022. Hann sat í stjórn Reykjalundar og var þar formaður um tíma. Þengill sat í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1986-94, hann var forseti bæjarstjómar 1991-92 og formaður skipulagsnefndar 1990-94. Þengill var formaður Læknafélags Austurlands 1978-82 og í stjórn Félags íslenskra heimilislækna 1982-84. Þá sat hann í hreppsnefnd Vopnafjarðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1974-81, sem varaoddviti 1978-81 og formaður heilbrigðisnefndar Vopnafjarðar 1972-81. Frá 1972-81 var hann félagi í Kiwanisklúbbnum Öskju og forseti um tíma. Þá var Þengill í undirbúningsstjórn vegna stofnunar Flugfélags Austurlands 1972.

„Mitt lán í lífinu hefur verið að eiga góða fjölskyldu, gott samstarfs- og samferðafólk – og fá að vinna að því sem ég brenn fyrir,“ segir Þengill að lokum.

Fjölskylda

Eiginkona Þengils er Steinunn Guðmundsdóttir, f. 25.10. 1944, læknaritari. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Foreldrar Steinunnar voru hjónin Guðmundur Ásmundsson, f. 8.6. 1924, d. 15.8. 1965, hæstaréttarlögmaður og framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna í Reykjavík, og Hrefna Sigurlaug Magnúsdóttir Kjærnested, f. 28.3. 1926, d. 15.3. 1996, húsmóðir. Búsett í Reykjavík.

Dætur Þengils og Steinunnar eru 1) Áslaug hjúkrunarfræðingur, f. 26.10. 1963, búsett á Húsavík; 2) Svanhildur hjúkrunarfræðingur, f. 11.1. 1964, gift Eiríki Þorbjörnssyni rafmagnstæknifræðingi, búsett í Garðabæ; 3) Eva, viðskipta- og stjórnsýslufræðingur, f. 24.8. 1966, gift Martin Eyjólfssyni lögfræðingi, búsett í Reykjavík; 4) Hrefna læknir, f. 2.8. 1972, búsett í Reykjavík; 5) Ragnheiður viðskiptafræðingur, f. 21.6. 1974, gift Óla Val Steindórssyni viðskiptafræðingi, búsett í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru 15 og barnabarnabörnin sjö.

Systkini Þengils eru Vífill, f. 10.12. 1937, verkfræðingur, Reykjavík; Ketill, f. 20.1. 1941, flugvirki, Garðabæ; Ólafur Hergill, f. 28.12. 1946, læknir, Akureyri; Guðríður Steinunn, f. 11.3. 1948, meinatæknir, Reykjavík; Jóhannes Vandill, f. 12.6. 1956, d. 23.10. 2022, verktaki, Mosfellsbæ.

Foreldrar Þengils voru hjónin Oddur V.G. Ólafsson, f. 26.4. 1909, d. 18.1. 1990, yfirlæknir á Reykjalundi og alþingismaður, og Ragnheiður Jóhannesdóttir Lynge, f. 6.9. 1911, d. 23.2. 1996, hárgreiðslumeistari. Búsett í Mosfellsbæ.