[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er okkar markmið að sem flestir viti af því að á meðan Listahátíð stendur yfir 1.-16. júní er alltaf opið í Klúbbnum, allt ókeypis og aðgengilegt, og alltaf að minnsta kosti tveir viðburðir á hverjum degi

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Það er okkar markmið að sem flestir viti af því að á meðan Listahátíð stendur yfir 1.-16. júní er alltaf opið í Klúbbnum, allt ókeypis og aðgengilegt, og alltaf að minnsta kosti tveir viðburðir á hverjum degi. Ég held að það sé eitthvað þarna fyrir alla,“ segir Sigurður Starr sem stýrir Klúbbi Listahátíðar í Reykjavík ásamt Aude Busson en Klúbburinn hefur aðsetur í Iðnó.

„Það er talað um að hjarta Listahátíðar slái í Klúbbnum. Markmiðið er að búa til vettvang fyrir alls konar fjölbreytta list. Það er svo ótalmargt til sem mann langar að lyfta upp á Listahátíð en það kemst ekki allt fyrir á aðalprógramminu,“ segir Sigurður og bætir við að í Klúbbnum komi þau til dæmis fulltrúum ólíkra menningarhópa að.

Fjórir hópar taka yfir

„Maður er alltaf að leita að einhverju sem hefur ekki verið gert áður. Við leggjum mikið í yfirtökuverkefnin okkar. Þá taka listahópar yfir heilan dag í Klúbbnum og dagskráin þann daginn er þeirra. Við erum með fjóra svoleiðis viðburði á dagskrá í ár.“

Fyrst nefnir Sigurður yfirtöku Vökufélagsins sem setur íslenskan menningararf, svo sem þjóðlög, söng, dans, kvæði og handverk, í nútímalegt samhengi. „Mér finnst það mjög spennandi sem þau eru að gera,“ segir hann.

Filippseyska samfélagið á Íslandi tekur síðan yfir Klúbbinn með verkefninu Happy Pinoy. „Þau munu deila sinni menningu með okkur. Það verður dans og karókí og hamingja en líka mikil matarmenning.“

Þriðja yfirtakan nefnist (H)andaflug og er það sviðslistahópurinn O.N. sem stendur fyrir henni. Þar tekur íslenskt táknmál og döffsamfélagið yfir Klúbbinn en Sigurður tekur fram að viðburðirnir séu þó ætlaðir öllum, hvort sem þeir kunna táknmál eða ekki. Þar verða ýmis námskeið á dagskrá, sem og viðburðir þar sem táknmálið er sett í nýtt samhengi.

Þema fjórðu yfirtökunnar er síðan burlesque. „Þar munu glæsilegir burlesque-performerar úr íslensku senunni taka yfir Iðnó og verða með þvílíkt námskeiðs-prógramm yfir daginn og enda á brjálaðri sýningu. Markmiðið er svolítið að sýna hvað listformið býður upp á mikla valdeflingu og að það getur verið allra,“ segir Sigurður.

„Markmiðið er svolítið að deila sviðsljósinu og ég held að það sé kannski sterkast með Happy Pinoy. Þar er hópur sem hefur ekki fengið nóg pláss á okkar menningarvettvangi hér á landi. Svo það er kominn tími til.“

Aðra daga Listahátíðar hafa Sigurður og Aude sett saman fjölbreytta dagskrá. „Við erum með fræðsluviðburði, málþing og langborð þar sem öllum er boðið að koma og taka þátt í áhugaverðum umræðum sem snerta á list og menningu í samtímanum, á einn eða annan hátt. Við verðum með spjall um fótspor listarinnar, hvort sem það er kolefnisfótspor eða menningarfótspor, annað spjall um list á stríðstímum og þriðja um örugg rými, hvernig við getum gert viðburði aðgengilegri og öruggari,“ segir hann.

Skemmtilegt og skapandi

Á dagskránni verða einnig ýmsir dans- og partíviðburðir. Sigurður segist sem dæmi vera mjög spenntur fyrir tvöföldum tónleikum með Drengnum fengnum annars vegar og Apex Anima og FRZNTE hins vegar. Hann nefnir einnig svipað verkefni sem DRIF stendur fyrir. Það er vefútvarp sem haldið hefur verið úti í Gamla söluturninum á Lækjartorgi. „Þau verða með brjálaða tónleika eitt kvöldið,“ segir hann.

„Svo verða líka djasstónleikar og ball sem skipulagt er af eldri borgurum. Þar verður lágmarksaldur 65 ár svo yngra fólk verður að mæta með fölsuð skilríki til að komast inn. Svo verða líka hefðbundnari listviðburðir, til dæmis danssýningin Materize og óperusöngleikurinn POPera.“

Dagskráin er sett saman af viðburðum sem komu inn í gegnum opið kall Listahátíðar en Sigurður segir þau Aude einnig hafa teygt sig út til hópa sem þau langaði að sjá meira af eða lyfta upp. Aðrir viðburðir hafi svo sprottið út frá hugmyndum sem þeim þóttu spennandi og skemmtilegar.

„Okkur langar til að þetta sé afslappað rými en á sama tíma mjög spennandi. Við viljum að þetta verði staður þar sem lista- og skemmtanaáhugafólk getur komið saman. Það er alls konar listafólk á hátíðinni sem fer þarna í gegn svo það myndast þarna skemmtileg og skapandi stemning. Þannig hefur það alla vega verið undanfarin ár og við vonumst til að það haldi áfram.“