Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Magnus Saxegaard, formaður sendinefndar AGS.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Magnus Saxegaard, formaður sendinefndar AGS. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) býst við að hagvöxtur hér á landi minnki í 1,7% árið 2024 vegna minni innlendrar eftirspurnar og hægari vaxtar neyslu ferðamanna, en aukist svo í 2% árið 2025 samhliða losun á peningalegu aðhaldi og nokkurs bata í vexti einkaneyslu og fjárfestingar

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) býst við að hagvöxtur hér á landi minnki í 1,7% árið 2024 vegna minni innlendrar eftirspurnar og hægari vaxtar neyslu ferðamanna, en aukist svo í 2% árið 2025 samhliða losun á peningalegu aðhaldi og nokkurs bata í vexti einkaneyslu og fjárfestingar.

Hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma eru áfram hagstæðar þar sem vænst er að aukin nýsköpun muni auka framleiðni og að innflutningur vinnuafls haldi áfram að styðja við vaxandi atvinnu.

Magnus Saxegaard, formaður sendinefndar AGS, segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir minni vexti sé mikið peningalegt aðhald.

„Við teljum að peningalega aðhaldið sé hæfilegt miðað við aðstæður. Það er mikilvægt að beita þeim aðferðum sem þarf til að ná niður verðbólgunni,“ segir hann.

Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur einnig fram að dregið gæti hraðar úr hagvexti og verðbólgu en búist er við ef samdráttur innlendrar eftirspurnar verður meiri og verðbólga hjaðnar hraðar vegna núverandi aðhaldsstigs peningastefnunnar. Aukin eldvirkni gæti einnig valdið frekari efnahagslegum skaða og krafist aukins stuðnings hins opinbera. Meiri launahækkanir en búist er við og hærra innflutningsverð vegna ótímabærrar losunar á peningalegu aðhaldi í þróuðum ríkjum gæti leitt til þrálátari verðbólgu.

Magnus segir að þeir kjarasamningar sem nú þegar hafa verið undirritaðir séu jákvætt skref í baráttunni við verðbólguna. Samningarnir, sem eru til fjögurra ára, veiti launþegum og vinnuveitendum öryggi og stöðugleika og viðurkenna mikilvægi kjarasamninga til að styðja við efnahagslegan stöðugleika.

„Það er jákvætt að samningsaðilar hafi viðurkennt opinberlega að mikilvægt sé að allir séu samtaka í því að ná niður verðbólgu og lækka vaxtastig,“ segir Magnús en bætir við að þó séu uppi áhyggjur um launaskrið.

„Auðvitað er óvissa varðandi það og mikilvægt að fylgjast með því á komandi mánuðum,“ segir Magnus. magdalena@mbl.is