— Morgunblaðið/Eggert
Víða um höfuðborgarsvæðið eru verktakar teknir til við að slá grasið. Viðraði einkar vel til sláttar í gær á Seltjarnarnesi eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Verra veður verður til að slá gras í borgarlandinu í dag og á morgun, en útlit er fyrir hvassviðri

Víða um höfuðborgarsvæðið eru verktakar teknir til við að slá grasið. Viðraði einkar vel til sláttar í gær á Seltjarnarnesi eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Verra veður verður til að slá gras í borgarlandinu í dag og á morgun, en útlit er fyrir hvassviðri. Á leiðinni er lægð úr suðvestri og þá er einnig hæð að taka sér stöðu fyrir austan land.

Lægðin úr suðvestri beinir til okkar hlýju og röku lofti og má búast við rigningu á vesturhluta landsins í dag að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Hins vegar mun viðra vel til að sinna garðverkum á Norður- og Austurlandi á morgun og um helgina því þar gæti hiti náð allt að 20 stigum. Sunnanlands er spáð skýjuðu veðri og súld eða dálítilli rigningu með köflum.