Ingibjörg Ásgeirsdóttir fæddist 3. september 1938. Hún lést 4. mars 2024.

Útför hennar fór fram 8. maí 2024.

Elsku Inga, þá er jarðvist þinni lokið og ég veit að Stebbi bróðir og aðrir ættingjar og vinir hafa tekið vel á móti þér í sumarlandinu. Ég mun aldrei gleyma þeim stundum sem ég átti með ykkur hjónum og sonum ykkar elstu tveimur þegar ég var bara lítil stelpa.

Þú komst alltaf fram við mig eins og ég væri jafningi þinn þó að það væru mörg ár á milli okkar. Ég var bara lítið stelpuskott þegar ég var að passa elstu syni ykkar tvo og þið voruð mér alltaf svo góð. Á sumrin, ef þið fóruð eitthvað í ferðalag, fékk ég að fara með ykkur og var það algjört sport fyrir mig að fá að fara á hótel og gista.

Ég flutti svo suður á land áður en yngstu synir ykkar tveir fæddust og ævinlega þegar maður kom í heimsókn settist maður að veisluborði. Þið voruð höfðingjar heim að sækja, bæði tvö.

Mikið vorum við búnar að skemmta okkur í litla gamla eldhúsinu í Bjarkarbraut 9 á Dalvík.

Þú varst þvílíkur snillingur í höndunum alveg sama á hverju þú snertir. Hvort heldur sem það var matur, saumaskapur eða aðrar hannyrðir.

Mikið var aðdáunarvert að sjá hvernig þú glímdir við sjúkdóm þinn. Þú varst ekki að kvarta heldur fórst í gegnum þetta á léttlyndi og áttir mjög auðvelt með að hafa gaman af öllu. Ég votta sonum þínum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Ég kveð þig elsku Inga með þessum fátæklegu orðum og þakka þér fyrir öll gömlu árin.

Þín mágkona,

Hanna Soffía (Soffa).