Drjúgur Frank Aron Booker reyndist Valsmönnum drjúgur í gærkvöldi er hann skoraði 20 stig og tók sex fráköst í öruggum sigri á Grindavík.
Drjúgur Frank Aron Booker reyndist Valsmönnum drjúgur í gærkvöldi er hann skoraði 20 stig og tók sex fráköst í öruggum sigri á Grindavík. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur er kominn í 2:1 í úrslitaeinvígi sínu við Grindavík í Íslandsmóti karla í körfuknattleik eftir öruggan sigur í þriðja leik, 80:62, á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valsmönnum nægir því einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn á þremur árum

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur er kominn í 2:1 í úrslitaeinvígi sínu við Grindavík í Íslandsmóti karla í körfuknattleik eftir öruggan sigur í þriðja leik, 80:62, á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Valsmönnum nægir því einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn á þremur árum.

Grindavík þarf aftur á móti að treysta á að tímabundinn heimavöllur liðsins í Smáranum í Kópavogi haldi áfram að reynast liðinu gjöfull þar sem Grindvíkingar þurfa á sigri að halda í fjórða leik til þess að knýja fram oddaleik á Hlíðarenda.

Heimavellir liðanna hafa reynst gulls ígildi til þessa þar sem Grindavík hefur unnið alla leiki sína í úrslitakeppninni og Valur alla nema einn. Fjórði leikur liðanna fer fram í Smáranum á sunnudagskvöld og oddaleikur á Hlíðarenda á miðvikudagskvöld ef með þarf.

Valur stakk af í síðari hálfleik

Í leik gærkvöldsins virtist til að byrja með fátt benda til þess að Valur myndi vinna þetta öruggan sigur enda allt í járnum í fyrri hálfleik.

Valur hóf leikinn af krafti og komst í 6:0 og 12:6 áður en Grindavík minnkaði muninn í 14:13. Valur náði aftur sex stiga forystu, 21:15, undir lok fyrsta leikhluta en Grindavík lagaði stöðuna og munurinn tvö stig, 21:19, að honum loknum.

Í öðrum leikhluta var jafnræði með liðunum til að byrja með áður en Grindavík náði góðu áhlaupi og komst fimm stigum yfir, 26:31, þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður. Eftir að Grindvíkingar komust í 30:35 luku Valsmenn fyrri hálfleiknum af krafti og jöfnuðu metin í 37:37 áður en hann var úti.

Þriðji leikhluti hófst með svipuðum hætti þar sem staðan var 45:43 þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður. Eftir það fór Valur á flug, sallaði niður stigunum og var skyndilega með 16 stiga forystu, 64:48, þegar þriðja leikhluta var lokið.

Í fjórða leikhluta sló Valur hvergi af og vann að lokum 18 stiga sigur.

Stigahæstur í leiknum var Frank Aron Booker með 20 stig fyrir Val. Tók hann auk þess sex fráköst.

Dedrick Basile var stigahæstur hjá Grindavík með 19 stig.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson