Halldór Baldursson er skopamyndateiknari með skarpa sýn og vitaskuld kemur hann viðkvæmum sálum stundum í uppnám með myndum sínum.
Halldór Baldursson er skopamyndateiknari með skarpa sýn og vitaskuld kemur hann viðkvæmum sálum stundum í uppnám með myndum sínum. — Morgunblaðið/Rax
Maður sem trúir staðfastlega á rétt manna til að tjá sig verður líka að geta þolað gagnrýni á sjálfan sig.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Einstaklingar sem taka sterkt til orða ættu að þola gagnrýni án þess að kveinka sér. Nokkur misbrestur er á þessu því hvað eftir annað rísa upp orðahvatir einstaklingar sem eru verulega sárir vegna einhvers sem sagt hefur verið um þá. Þeir virðast steingleyma því að sjálfir hafa þeir verið svo skeleggir í tali að margir standa eftir sármóðgaðir. Þegar spjótin beinast að þeim sjálfum og notuð eru um þá stór orð, sem þeir hafa óspart notað sjálfir, líta þeir nánast á það sem árás og bregðast hinir verstu við. Þeir svara ofursárir og viðkvæmir og oft er furðumikill ofsi í svari þeirra.

Í þessum viðkvæma hópi eru furðumargir sem flokka sig opinberlega sem talsmenn tjáningarfrelsis. Þeir mættu muna að það er ekki nóg að þeir prediki um mikilvægi tjáningarfrelsis þegar enginn er að gagnrýna þá. Þeir verða líka að standa með þessari sannfæringu sinni þegar þeim finnst, með réttu eða röngu, að verið sé að vega að þeim. Þótt maður sé ekki hrifinn af því sem sagt er um mann er ekki rétt að væla eins og stunginn grís. Málfrelsið og tjáningarfrelsið er ekki bara fyrir þá sem eru sammála skoðunum manns heldur líka fyrir hina sem eru ekki sammála manni og þola mann kannski alls ekki.

Meðal of margra forsetaframbjóðenda þetta árið er lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson, sem er þekkur fyrir að vera óhræddur við að segja skoðanir sínar. Það er engin hóphugsun í hans heila. Hann hefur verið ötull talsmaður tjáningarfrelsis, varað við ofríki ríkisvaldsins og minnt á mikilvægi þess að hugað sé að einstaklingsfrelsi.

Arnar Þór virðist samt ekki geta varið þessi gildi þegar potað er í hann sjálfan. Hann kveinkar sér undan snjallri skopmynd Halldórs Baldurssonar sem birtist á visir.is og sýnir hópmynd af forsetaframbjóðendum. Einn frambjóðandi spyr þar hina: „Eru einhverjir fleiri en ég með á tilfinningunni að allir séu að tala illa um sig?“ Arnar Þór er þarna sýndur í hermannabúningi sem minnir óneitanlega á nasistabúning. Aðrir frambjóðendur eru sömuleiðis teiknaðir á ögrandi hátt, þótt myndin af Arnari Þór sé djörfust og nokkuð sláandi.

Arnari Þór kann að falla það þungt en í huga fjölmargra er hann fulltrúi öfgafullra hægri skoðana og til þess er vísað í skopmyndinni. Teiknarinn er ekki að fullyrða að Arnar Þór sé hættulegur öfgamaður heldur er hann að draga upp mynd af neikvæðum stimpli sem allir forsetaframbjóðendur fá í kosningabaráttu. Auðvitað eru skoðanir Arnars Þórs til umræðu í forsetakosningum, enda margar hverjar umdeildar. Arnar Þór telur þær örugglega bæði skynsamlegar og réttar. Meirihlutaskoðanir eru þær samt ekki og ljóst er að þær eiga alls ekkert erindi á Bessastaði.

Forseti Íslands ætti að hafa til að bera töluverða sjálfstjórn og ekki vera alltof hörundsár. Arnar Þór er í erfiðri kosningabaráttu en það ætti að þurfa meira en skopmynd til að koma honum í það mikið uppnám að hann kæri myndbirtinguna til Blaðamannafélags Íslands. Kæran er síðan í grátlegu ósamræmi við áherslur hans sjálfs varðandi málfrelsi og tjáningarfrelsi. Er málfrelsið og tjáningarfrelsið virkilega ekki fyrir þá sem leyfa sér að draga upp mynd af honum sem honum er ekki þóknanleg? Maður sem trúir staðfastlega á rétt manna til að tjá sig verður líka að geta þolað gagnrýni á sjálfan sig.

Halldór Baldursson er dásamlegur skopteiknari sem hefur gríðarlega skarpa og snjalla sýn. Í skopmyndum sínum kemur hann oft úr óvæntri átt og leyfir sér að vera ósvífinn, enda er ekkert gaman að skopmyndahöfundum sem leyfa sér ekki að vera djarfir. Halldór teiknar iðulega myndir af þjóðþekktum einstaklingum, sem stöðu sinnar vegna geta ekki hlaupið í skjól og sagt: Alls enga mynd, takk! Það má segja að þeir séu óvarðir, en þannig eru einfaldlega lögmálin þegar þekktir einstaklingar eiga í hlut. Þeir verða að þola meiri ágengni en hinn venjulegi hversdagsmaður sem er ekki í sviðsljósinu.

Hlutverk skopmyndateiknara er að gera grín að umhverfinu og um leið er hætt við að ekki sé öllum skemmt. Þeir hinir sömu verða bara að bíta á jaxlinn.