Karl Sigurjónsson fæddist 11. september 1936 í Núpakoti í Austur-Eyjafjallahreppi. Hann lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 13. maí 2024.

Hann var sonur hjónanna Sigurjóns Þorvaldssonar, f. 11.10. 1891, d. 26.6. 1959, og Guðlaugar Guðjónsdóttur, f. 25.3. 1909, d. 1.6. 1982. Karl var næstyngstur sex systkina. Elstur var Þorvaldur, f. 1.10. 1929, d. 22.2. 2007. Eiginkona hans var Magga Alda Árnadóttir, f. 21.4. 1936, d. 1.3. 2004. Næst var Vilborg, f. 8.11. 1930, d. 4.11. 2010. Eiginmaður hennar var Páll Magnússon, f. 27.11. 1922, d. 8.3. 1998. Þá komu tvíburarnir Björn og Guðjón, f. 9.9. 1931. Björn lést 9.7. 1976 en Guðjón 18.8. 2017. Eiginkona Guðjóns var Ásta Díana Stefánsdóttir, f. 24.3. 1930, d. 14.9. 2020. Yngstur var Sigurður, f. 27.10. 1947, d. 12.10. 2023. Eiginkona hans er Kristín Elínborg Þorsteinsdóttir, f. 10.8. 1949.

Karl kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Maríu Tómasdóttur, f. 24.5. 1939, frá Teigagerði í Reyðarfirði, hinn 25.12. 1957.

Börn Karls og Önnu Maríu eru: 1) Anna Sigríður, f. 1957, maki Eyþór Jónsson. Börn Önnu Sigríðar eru Jón Helgi Þorsteinsson, Sólveig Helga Hjarðar og María Elísabet Hjarðar. Eyþór á fjögur börn og átta barnabörn. 2) Sigurjón, f. 1960, maki Kristjana Brynja Sigurðardóttir. Börn Sigurjóns eru Þuríður Ragnheiður, maki Ásmundur Pétur Svavarsson. Þau eiga þrjú börn. Brynja, maki Þórður Vilberg Guðmundsson. Þau eiga tvö börn. Karl, maki Ragna Lóa Guðmundsdóttir. Þau eiga þrjú börn. Bjarki Freyr, maki Linda S.C. Gustafsson. Þau eiga tvö börn. Kristjana Brynja á þrjú börn og sex barnabörn. 3) Guðlaug Sólveig, f. 1963, maki Guðmundur Jón Björgvinsson. Börn G. Sólveigar eru Anna María, maki Gylfi Guðmundsson. Þau eiga þrjú börn. Hlynur Svansson. Birkir Svansson, maki Karolina Troscianko. Guðmundur Jón á tvö börn og tvö barnabörn. 4) Óskar, f. 1965, d. 1966.

Fóstursynir Karls og Önnu Maríu eru Sigurbjörn Santiago, hann á þrjú börn, og Rafn Magnús Hjaltason, maki Sigríður Sævarsdóttir, þau eiga þrjú börn.

Karl og Anna María byrjuðu búskap á Efstu-Grund árið 1958. Þau seldu búreksturinn árið 2006 en bjuggu þar áfram í sínu húsi.

Karl var fyrst og fremst bóndi og félagsmálamaður. Aðaláhugamálið var fjárræktin. Hann starfaði á haustin við sauðfjárslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands sem sölumaður og kjötmatsmaður í rúmlega 30 ár.

Útför Karls fer fram frá Ásólfsskálakirkju í dag, 25. maí 2024, klukkan 15.

Elsku Kalli minn. Nú ert þú kominn til sumarlandsins. Þar veit ég að vel er tekið á móti þér. Þjáningar þínar voru orðnar svo miklar að ég þakkaði fyrir þegar þeim lauk. Okkar hjónaband voru farsæl 67 ár. Við eignuðumst 4 börn. Það yngsta dó 6 mánaða gamalt úr veikindum sem ekki varð ráðið við. Hin eru Anna Sigríður sem á 3 börn, Sigurjón á 4 börn og Guðlaug Sólveig á 3 börn. Allt fullorðið fólk sem stendur sig vel. Barnabarnabörnin eru 13. Þetta er mikið ríkidæmi. Okkar búskapur var farsæll þótt ýmsir sjúkdómar herjuðu á þig. Þú varst duglegur við allt sem þú fékkst við. Þegar við lukum okkar sveitabúskap byggðir þú þér bílskúr sem nýttist þér að gera upp dráttarvélar. Þar undir þú þér vel. Þú varst algjör reglumaður. Við fórum í margar utanlandsferðir, sem voru hver annarri betri. Við eignuðumst marga góða vini í þessum ferðum.

Síðustu árin var farið í ferðir innanlands með eldri borgurum í héraðinu. Allt þetta þjappaði okkur betur saman. Nú síðast komu veikindi þín í veg fyrir flakkið.

Ég þakka þér allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Við hittumst næst í himnaríki.

Þín eiginkona,

Anna María Tómasdóttir.

Kæri pabbi, þá er komið að kveðjustund.

Það kemur margt upp í hugann, sérstaklega frá yngri árum okkar. Mér fannst þú alltaf vera að gera eitthvað spennandi og ég vildi fá að vera með þér, sérstaklega á traktornum, þó það væri erfiðara fyrir þig.

Þið mamma voruð búin að eiga Willys-jeppann í nokkur ár þegar þú lést setja díselvél í hann. En það var eitthvert vandamál með vélina því heddpakkningin fór ansi oft og við vorum orðnir mjög fljótir að skipta um hana og ég þá um 12 ára aldur.

Þegar þið mamma fluttuð á Efstu-Grund vorið 1958 á fardögum var íbúðarhúsið nýbyggt en útihús lítil og frekar léleg. Þið fóruð fljótlega að girða, rækta og byggja ný útihús á jörðinni og þá var líka hægt að stækka bústofninn. Um haustið 1972 fórst þú að vinna í sláturhúsinu í Djúpadal og þá hjálpuðum við krakkarnir mömmu á kvöldin með verkin þegar við vorum komin heim úr skólanum.

Þú starfaðir hjá Sláturfélagi Suðurlands í um það bil 30 ár og þá lengst af sem kjötmatsmaður og átti það vel við þig, enda hafðir þú alltaf mjög mikinn áhuga á fjárrækt. Það gat tekið verulega á taugarnar að fara með þér í fjárhúsin á fengitímanum, sérstaklega á jólahátíðinni, því það þurfti réttur hrútur að fara á rétta á, og skrásetja nákvæmlega hvað hún fékk og hvenær hún hafði. Fyrst var skrásett á SS-gataspjöldin og síðan var fært í hina heilögu fjárræktarbók, og þetta tók dýrmætan tíma frá jólahátíðinni.

Árið 1977 fóruð þið mamma að ferðast til útlanda og varð það fastur liður hjá ykkur næstu áratugina. Aldrei fóruð þið á sólarströnd, en ég held að þið hafið náð að ferðast til yfir 20 landa og virkilega notið þess í hvert skipti.

Eftir að þið hættuð búskap þá snerir þú þér að því að gera upp gamla Fergusona í bílskúrnum og sinntir pútunum af miklum áhuga og vandvirkni, þetta voru vinkonur þínar. Þetta veitti þér ómælda ánægju og þá sérstaklega að fá gesti í skúrinn að sýna dýrgripina og bústofninn.

Þú varst alla tíð mikill skotveiðimaður og sást til þess að minkur og lágfóta fjölguðu sér ekki of mikið á svæðinu og er mér minnisstætt sumarið 76 sem við eyddum saman uppi á heiðum við tófuveiðar um mestallan Vestur-Eyjafjallahrepp og veiddum vel. En þú barst samt alla tíð mikla virðingu fyrir lágfótu og hafðir gaman af að hlusta eftir henni á kvöldin.

Margs er að minnast og þakka fyrir samfylgdina, en hér enda ég kveðju mína, kæri pabbi.

Þinn sonur,

Sigurjón.

Þann 13. maí sl. þegar sólin var að setjast kvaddir þú okkur, að vísu ekki að óvörum því ljóst var hvert stefndi, þreyttur og þarfnaðist hvíldar. Vorið var tíminn þinn, lömbin nýfæddu og farfuglarnir hver af öðrum streymdu til landsins og þú fylgdist grannt með öllu. Jörðin og gróandinn að vakna eftir dvöl vetrarins. Fjárræktun var þitt helsta áhugamál og við það starfaðir þú alla tíð. Ærnar fengu nöfn og þá fékk maður að vera með en þú þekktir þær allar með nafni. Vissir hvar þær vildu vera í haga og heiði. Talaðir við þær og klappaðir í hvert skipti sem farið var í fjárhúsin. Valinn hrútur fyrir hverja á á fengitíma því ræktunarsjónarmiðin réðu öllu. Afurðir að hausti voru síðan afraksturinn, vigtin. Allt nákvæmlega skráð á spjöld í útihúsi, síðan tók við hreinritun/réttritun inni við eldhúsborðið.

Oft fékk maður að hjálpa til bæði við að marka lömbin og skrá vigt að hausti. Rúninginn og við smölun að ógleymdum sauðburðinum, þá var gott að geta aðstoðað og ber að þakka traustið sem ég naut. Gönguferðirnar voru smalaferðir að hausti.

Þegar þið mamma hefjið búskapinn á Efstu-Grund þá þurfti að taka til hendinni við að byggja upp útihús, rækta og girða. Lánin dýr og veitt í stuttan tíma, þá var oft tekið vel á, farið í byggingarframkvæmdir, þar komu góðir nágrannar og gamlir sveitungar undan Austurfjöllum oft við sögu. Það voru góðir dagar. Á bænum var stundaður blandaður búskapur, nautgripir, hestar og hænsn, hundar og kettir. Það var gott að alast upp með öllum þessum dýrum. Eitt sinn þegar alsnægtirnar voru farnar að líta dagsins ljós og keyptur var nýr bíll og farþegar kættust, þá var tekin ákvörðun um að selja bílinn og kaupa traktor frekar, manni stökk ekki bros á vör við þessa ákvörðun. Þá var farartækið traktorinn sem var í boði til að komast milli bæja. Að sjálfsögðu skilaði þessi ákvörðun betra búi og tíðin batnaði. Hin síðari ár var athvarf í skúrnum, þar var verið að gera upp gamla Massey Ferguson, þeim var strokið og þeir pússaðir ívið meira en Hondan.

Ræktaðar hænur fengu sérstakt atlæti, talað við þær daglega ef ekki mörgum sinnum á dag. Litlu börnin nutu sérstaklega þessa tíma með afa, sóttu eggin og kíktu eftir hænum sem afi var búinn að missa sjónar á þar sem þær áttu til að útbúa hreiður og lágu á. Voru svo neðarlega niður við jörð þannig að afi sá þær illa en smáfólkið mun betur. Eggjabakki í nesti var toppurinn. Svo þegar heimsókninni var lokið hjá hænunum var kjörið að máta Massey Ferguson.

Við leiðarlok er svo margt sem kemur í hugann, frásagnir af liðinni tíð, örnefnin, leiðbeiningar, dægurþras sem engu máli skipti. Öll skiptin sem litlar hendur voru leiddar og hve þér var umhugað um velferð okkar og heilbrigði. Umhyggja, kærleikurinn og virðingin sem ríkti milli ykkar mömmu var einstök. Megi góður guð styrkja og blessa alla þá sem sakna. Takk fyrir samfylgdina, elsku pabbi.

Þín

Guðlaug Sólveig.

Elsku afi minn.

Mig langar að þakka þér fyrir allar þær stundir sem við, þú, ég, amma, fjölskyldan mín, fjölskyldan okkar á Efstu-Grund og stórfjölskyldan okkar frá Efstu-Grund, höfum skapað í gegnum tíðina. Það er mér afar dýrmætt að hafa notið þeirra forréttinda að alast upp í næsta húsi við ykkur ömmu, þar sem ávallt var tekið vel á móti mér og síðar meir líka mínu fólki. Það urðu vissulega kaflaskipti þegar við fluttum í burtu en strengurinn sem hafði vaxið og dafnað milli okkar mín fyrstu 15 ár slitnaði aldrei. Alltaf var ég og við velkomin.

Margar minningar fljúga um hugann á svona stundu en hæst flýgur sú er snýr að jólunum og jólahaldi á Efstu-Grund. Það er bara ekki sama hver les á pakkana. Þú gerðir það best. Takk fyrir gretturnar þínar, takk fyrir spjallið, takk fyrir heimsóknina hingað austur í fyrra og takk fyrir nefið okkar sem ég mun bera með reisn og passa vel upp á því það eru jú „… ekki allir með svona myndarlegt nef“.

Með ást og þakklæti,

Þuríður Ragnheiður.

Elsku afi Kalli. Það er dýrmætt að eiga góðar minningar með fólkinu sínu. Fyrstu fimm árin í mínu lífi fékk ég að eiga afa og ömmu að í næsta húsi sem varð til þess að við áttum alltaf mjög gott samband. Mörgum stundum varði maður hjá þeim á Efstu-Grund eftir að við fjölskyldan fluttum suður. Það skipti ekki máli hvernig viðraði eða hvort það var langt eða stutt frí, alltaf var maður velkominn og þótti það ekki tiltökumál að senda pjakkinn einan með rútunni þar sem mjög gjarnan var það þannig að bílstjórarnir þekktu Önnu og Kalla á Grund því þeir höfðu þá áður keyrt mjólkurbílinn og þar af leiðandi verið í mat hjá þeim.

Þegar það kom að því ég þyrfti að ákveða hvað ég vildi gera eftir að grunnskólanum lyki þá var ég orðinn hrifinn af matvælanámi og þá helst kokkinum. Það breyttist hins vegar fljótt eftir að ég kynntist kjötiðninni því þá sá ég tækifæri sem ég hafði alltaf þráð og var það að flytja aftur austur. Eftir að námi lauk var stefnan tekin í sveitina til ykkar þar sem ég flutti frá hótel mömmu til ykkar á hótel ömmu og afa. Fljótlega eftir að ég byrja hjá SS þá er mér boðið að starfa við kjötmatið í sauðfjárslátrun á Selfossi. Ég þáði það að sjálfsögðu þar sem mér var það í blóði borið að sinna eins virðulegu starfi og afi hafði gert til fjölda ára einmitt fyrir SS í Djúpadal, á Hvolsvelli og svo að lokum við Laxá. Í stuttu máli urðu nánast allar okkar samræður haustin á eftir um kjötmat og vigt sem var okkar sameiginlega áhugamál.

Afi átti mörg önnur áhugamál og ber þar helst að nefna búskap og dýralíf almennt, sérstaklega sauðfé og hænur og að brasa í bílskúrnum við viðgerðir og að gera upp gamlar vélar. Einnig liggur við að hægt væri að nefna að afi hafi haft áhuga á að mála þakið heima á Efstu-Grund. Alltaf taldi maður eða minnsta kosti vonaði að þetta væri síðasti stillansinn sem væri tekinn niður en allt kom fyrir ekki, Kalli gamli var mættur upp á þak næsta sumar og allir sem þekktu til héldu niðri í sér andanum er þeir sáu hann bröltandi um þakið með reipisspotta bundinn utan um sig sem var svo aftur bundinn í 135-una hinum megin við hús.

Nú komið er að leiðarlokum og erum við fjölskyldan í Eyjaseli þér og ömmu ævinlega þakklát fyrir allar okkar samverustundir síðastliðin ár.

„Má ekki bjóða ykkur meira?“ Jú veistu afi, það hefði alveg mátt bjóða okkur meiri tíma.

Kveðja,

Bjarki Freyr, Linda, Jóhannes Erik og Astrid Ida.

Elsku afi.

Það er erfitt að rifja upp minningar og góðar stundir með þér án þess að það renni tár af hvarmi. Ég er svo óendanlega þakklátur fyrir samleið okkar í þessi 35 ár sem okkur voru gefin saman. Að hafa fengið að alast upp undir verndarvæng þínum er ein sú dýrmætasta reynsla sem ég bý að. Þrátt fyrir að hafa flutt snemma frá Efstu-Grund var mörgum sumrum og enn fleiri helgum eytt í sveitinni hjá ykkur ömmu. Þú kenndir mér margt, eins og til dæmis að keyra. Alltaf þegar var farið að vitja um í Ósnum þá leyfðir þú mér að æfa mig í að keyra á sandinum hvort sem það var á vélinni eða bílnum. Ég man enn þann dag í dag hvað tilmæli þú gafst mér þegar ég fékk að keyra alla leið heim úr Ósnum á traktornum. Svo þegar á leið var maður farinn að sækja kýrnar niður á Hjarn á vélunum og svo tætla, en þó ekki ysta hringinn til að byrja með, því það var fyrir lengra komna.

Þú varst alla tíð mjög áhugasamur um það sem ég tók mér fyrir hendur og spurðir mann spjörunum úr yfir kvöldkaffinu.

Sundlaugarferðir í gömlu laugina eftir heyskap, standa fyrir og smala, moka út úr fjárhúsunum, minka- og tófubrölt, gefa gripum og gera við Fergusonana … bóndast og „bonda“, þannig hefur það verið alla tíð „eða þannig sko“.

Í seinni tíð er mér sérstaklega minnisstætt að þið amma komuð ásamt pabba og Bjarka og vörðuð jólunum með okkur í Danmörku, þar sem ferðatöskurnar voru fullar af skötu, rófum, rúgbrauði og smjöri. Og ég eyddi að ég veit ekki hve miklum tíma í að finna slátrara sem gat útvegað mér hamborgarhrygg á beini. Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa minningu að stelpurnar mínar hafi fengið að halda jól með langömmu og langafa líkt og ég gerði í fyrri tíð.

Loks er verkur þinn farinn og nú getur bóndi góður tekið út hvíld sína eftir áratuga dagsverk.

Elsku afi, vinur og félagi, mín helsta fyrirmynd, ég á engin betri lokaorð en takk fyrir mig. Það nær þó engan veginn að lýsa þakklætinu sem býr í brjósti mér en hér koma þau, takk fyrir mig …

Ég elska þig.

Þinn nafni,

Karl Sigurjónsson (Kalli).

Kæri æskuvinur! Fyrsti leikfundur okkar sem ég man eftir mun hafa verið sumarið 1942, en þá bjuggu foreldrar þínir enn í gamla bænum á Núpakoti. Þá sem oft næstu ár var leikvöllurinn okkar á lækjarbakkanum bak við bæinn. Þú fórst með mér inn með læknum bak við bæjaröðina, líklega til að sýna mér silung eða til að reyna að grípa hann undir bakka, og mér fannst afar merkilegt þegar þér tókst að veiða þar ála.

Ég var fimm til sex ára og þú einu ári eldri. Eitthvað lá mér víst á því ég man eins og í dag þegar ég sá þig, gegnum tært lækjarvatnið, bera við himin á bakkanum þar sem ég lá á bakinu í læknum. Ég skalf auðvitað eins og hrísla í vindi þegar ég skreið upp úr. Þú tókst málið í þínar hendur og dreifst mig inn í bæinn og undir borðið í baðstofunni og komst með handklæði til að þurrka mig. Fljótlega tóku þau sem við borðið sátu, foreldrar mínir sem voru þarna í heimsókn með mig og foreldrar þínir, eftir að ekki var allt eftir bókinni þarna inn undir suðurglugganum á baðstofunni og undir borðinu. Ég kom heim um kvöldið í fötum af þér frá toppi til táar.

Nokkrum árum seinna átti ég því láni að fagna að fá að eiga heima hjá þeim indælu hjónum foreldrum þínum við skólagöngu í Steinum. Ástæðan var sú að of langt þótti fyrir mig á þessum aldri að sækja skólann frá Seljavöllum sjö km leið og yfir eina jökulá.

Fyrir kom að við fórum á skautum að kvöldlagi og í tunglsljósi um ísilagðar engjabreiður miðsveitarinnar. Við höfðum þá báðir með í ferð vegleg vopn sem við höfðum smíðað okkur, ég öxi og þú spjót, enda varst þú þá Kári og ég Skarphéðinn. Ég var rogginn að nefnast Skarphéðinn því í skólabókunum okkar var hann afar sterkur, en síðar á ævinni las ég svo að hann var frekar tornæmur ribbaldi. Skautarnir okkar voru af gömlu sortinni, tréspýtur með járni undir. Oft lærðum við uppi á lofti heima hjá þér og spiluðum matador eða bara marías á spil. Tarsan apabróðir var vinsælasta bókin og mig minnir að við læsum hana fram og aftur vikulega. Einhvern tímann á þessum árum lá leið okkar til Vestmannaeyja að sumarlagi með mömmu þinni og þar tókst okkur á einni til tveimur vikum „að mála bæinn rauðan“ í skjóli „auðæfa“, sem aðkomukrökkum eins og við vorum þar hlotnaðist ættu þeir jafn marga nána, örláta og fullorðna ættingja og við áttum.

Upp úr fermingu áttum við nokkrar ferðir upp á jökul og kynntum okkur þá eitt sumar sem leiðsögumenn mælingamanna og fórst það bara vel úr hendi. Endalaust gæti ég rifjað upp bernskuárin okkar saman og niðurstaðan yrði áreiðanlega sú að það voru forréttindi að alast upp undir Austur-Eyjafjöllum á miðri liðinni öld í skjóli vandaðra og góðra foreldra og í friðsömu samfélagi.

Þú varðst góður bóndi og áttir virðingu samferðamanna og varðst síðasti fiskimaðurinn sem reri á opnum bát frá Eyjafjallasandi. Oft lá leið mín til ykkar á Efstu-Grund, einkum á þeim árum sem ég átti sumarhús í sveitinni. Gestrisni ykkar hjóna var mikil og einlæg.

Við Eygló vottum þér, kæra Anna, og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúð.

Sigurður Óskarsson.

Okkur langaði að skrifa nokkur orð til að minnast Kalla á Efstu-Grund.

Það var ómetanlegt að hafa hann sem nágranna. Gott var að kíkja við í kaffi og ræða um heima og geima en einnig var gott að geta leitað til hans og Kalli var alltaf mættur um leið til að aðstoða við féð ef eitthvað var um að vera. Kalli var mikill áhugamaður um sauðfé og ræktun þess og fylgdist vel með í þeim málefnum og tók þátt. Á vorin kom hann oft við í fjárhúsinu og vaktaði kindur í burði á meðan við vorum í öðru og á haustin sá hann um eftirlit með fénu á túnunum og bjargaði mörgum kindum úr afvelti og upp úr skurðum.

Kalli var heimakær og það var gott að sækja hann og Önnu heim því Kalla þótti betra að veita en þiggja. Alltaf var tekið vel á móti öllum og gestum veitt vel enda gestkvæmt þar alla tíð. Kalli var minnugur og skarpur og það var gaman að hlusta á hann segja sögur enda hafði hann lent í ýmsu um ævina.

Kalli var mikill partur af okkar daglega lífi og eins og einhver sagði þá var Kalli hluti af landslaginu hérna á Efstu-Grundinni.

Við kveðjum hann með söknuði og þökkum fyrir alla hjálpina og samfylgdina.

Sigurjón (Sifi) og Sigrún.

hinsta kveðja

Ég á eina minning, sem mér er kær:

Í morgundýrð vafinn okkar bær

og á stéttinni stendur hann hljóður,

hann horfir til austurs þar ársól rís,

nú er mín sveit eins og Paradís.

Ó, hvað þú, Guð, ert góður.

Ég á þessa minning, hún er mér kær.

Og ennþá er vor og þekjan grær

og ilmar á leiðinu lága.

Ég veit að hjá honum er blítt og bjart

og bærinn hans færður í vorsins skart

í eilífðar himninum bláa.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn.

Þín dóttir,

Anna Sigríður Karlsdóttir.