Í Framstúkunni Marcin kann hvergi betur við sig en í vinnunni hjá Knattspyrnufélaginu Fram.
Í Framstúkunni Marcin kann hvergi betur við sig en í vinnunni hjá Knattspyrnufélaginu Fram. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Pólverjinn Marcin Bylica hefur búið á Íslandi í tæp 13 ár, er kominn með íslenskan ríkisborgararétt og hefur verið starfsmaður mannvirkja Knattspyrnufélagsins Fram síðan 2016. „Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun, lífið er…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Pólverjinn Marcin Bylica hefur búið á Íslandi í tæp 13 ár, er kominn með íslenskan ríkisborgararétt og hefur verið starfsmaður mannvirkja Knattspyrnufélagsins Fram síðan 2016. „Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun, lífið er miklu betra en í Póllandi og ég elska að ferðast innanlands og skoða landið og náttúruna. Ég elska líka íslenskuna, finnst það eitt fallegasta tungumál í heimi.“

Móðir Marcins reyndi fyrir sér á Englandi áður en hún flutti til Íslands 2007 og vann m.a. á Eir hjúkrunarheimili, í efnalaug og á Hótel Marina þar til hún fór á eftirlaun, en hann freistaði gæfunnar hérlendis í ágúst 2013 og hefur ekki litið um öxl síðan. „Atvinnuástandið var erfitt í Póllandi og mamma hvatti mig til að koma og vinna á Eir,“ segir hann. Þau bjuggu áður stutt frá Kraká og þar eru bróðir hans og faðir. Nú búa mæðginin saman í Grafarholti, skammt frá nýlegum og glæsilegum höfuðstöðvum Fram.

Áður en Marcin fór til Íslands 23 ára gamall hafði hann aldrei farið frá Póllandi. „Ég var svolítið hræddur, vissi ekkert um landið og hélt að hér væri ekkert annað en ær og steinar. En þetta var líka spennandi, því ég var að fara að prófa að lifa annars staðar en í Póllandi. Ég vissi að ég yrði að læra íslensku og byrjaði nánast strax á því eftir að hafa aðeins kynnt mér landið.“

Bogfimi og stemning

Marcin vann aðeins í þrjá mánuði á Eir en síðan lengst af við ræstingar annars staðar og steinslípun og -sögun áður en hann var ráðinn til Fram. „Þegar ég var atvinnulaus notaði ég tímann til að læra betur íslensku. Ég bjó með mömmu skammt frá æfingasvæði Fram í Safamýri, fylgdist þar með æfingum og leikjum og þegar ég sá auglýst starf á heimasíðu félagsins sótti ég um, var ráðinn og hef verið hér síðan.“

Lífið hefur breyst til hins betra hjá Marcin og hann segir að hann sé allt annar og betri maður eftir flutninginn. Hann hafi til dæmis byrjað að æfa bogfimi hjá Boganum í október 2022 og náð 5. sæti í keppni með sveigboga í nýafstöðnu Íslandsmóti. „Mér gekk vel að læra íslensku og það efldi sjálfstraustið. Góð laun hafa gert mér mögulegt að æfa íþrótt mína og þar hef ég tekið miklum framförum. Ég er líka þakklátur Fram fyrir að leyfa mér að skipuleggja vaktir svo ég geti mætt á æfingar í bogfimi og í keppni.“

Vinnan göfgar manninn og Marcin áréttar að sér hafi aldrei liðið betur. „Ég hef nóg að gera, hér hjá Fram er samhentur hópur, allir vinna vel saman og hjálpa hver öðrum þegar á þarf að halda. Við vinnum saman, tölum saman og djókum saman. Frábær stjórn og frábærir vinnufélagar. Fram er eins og stór fjölskylda þar sem stemningin er rosalega góð. Ég segi stundum að blóðið mitt sé blátt eins og litur Fram.“