Forsetakosningabaráttan snýst eðlilega um hvernig við ætlum að standa að tilvist og sjálfstæði þjóðarinnar.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í Georgíu eru nú háð tilvistarátök milli þeirra sem aðhyllast frjálslynda, lýðræðislega stjórnarhætti og and-vestrænna stjórnvalda sem vilja þrengja lýðræðislegt svigrúm almennra borgara stig af stigi. Þegar þing landsins samþykkti nýlega lög að rússneskri fyrirmynd gegn „erlendum útsendurum“ fóru hundruð þúsunda manna út á götur og torg til að mótmæla. Andstæðingar laganna segja kröfuna um að öll samtök sem fá 20% eða meira af fjármögnun sinni frá útlöndum verði skráð sem „erlendir útsendarar“ gefa stjórnvöldum færi á að loka sjálfstæðum fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum. Það gerðist í Rússlandi eftir að sambærileg lög voru samþykkt þar árið 2012.

Kannanir sýna að 68% Georgíumanna telja lögin ónauðsynleg og 73% álíta að lögin skaði ESB-aðildarviðræður Georgíu en 90% þjóðarinnar vilja inn í ESB.

Rússar réðust inn í Georgíu árið 2008 og komust nær hindrunarlaust að höfuðborginni Tíblisi. Þá var Mikheil Saakashvili forseti. Hann sagði nú í vikunni að miklu meiri hætta steðjaði að sjálfstæði Georgíu núna heldur en þegar Rússar voru gráir fyrir járnum við hlið höfuðborgarinnar. Nú stæði ríkið nær því en nokkru sinni að glata sjálfstæði sínu að fullu og öllu. Hann sagðist hafa verið mun rólegri yfir stöðunni þá heldur en núna vegna þess að þá hafi öll þjóðin staðið saman og allur heimurinn hefði stutt hana. Nú hefði verið höggvið á stuðning við þjóðina að utan og „þeir“ reynt að sundra henni. Hann minnti á þau orð Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta að Bandaríkin stæðu alltaf í þeim sporum að vera eina kynslóð frá því að tapa sjálfstæði sínu.

Saakashvili sagði að kynslóð Georgíumanna hefði staðið vörð um sjálfstæðið undanfarin 30 ár og nú væru þeir að glata því. Til varnar frelsi þjóðarinnar dygði aðeins að unga fólkið stæði vörð um það. Vonin fælist í því að unga fólkið spyrði beint hvort Georgía yrði til áfram og hvar hún yrði. Unga fólkið vissi að tækist að tryggja frelsi fengju allir tækifæri til að njóta sín en án frelsis yrði allt tilgangslaust.

Þess verður hátíðlega minnst eftir fáeinar vikur að 80 ár eru liðin frá því að Ísland hlaut sjálfstæði og 75 ár frá því að frelsi og öryggi þjóðarinnar var tryggt með stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Rætur varðstöðunnar eru djúpar hér.

Frá stofnun lýðveldisins fram til 1991 reyndu „þeir“ að sundra þjóðinni í afstöðu til samstarfs við lýðfrjáls ríki um varnar- og öryggismál. Árið 2016 samþykkti alþingi þjóðaröryggisstefnu sem er reist á aðildinni að NATO og tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin. Hernám Rússa á Krímskaga árið 2014 stuðlaði að samstöðu hér um þjóðaröryggisstefnuna.

Þá vorum við eins og aðrar þjóðir minnt á að varðstaðan um ytra öryggi er varanleg og hana verður að laga að aðstæðum hverju sinni. Enn er of snemmt að segja hvaða lærdóm við drögum af stríðinu í Úkraínu. Raðirnar um NATO-aðildina og varnarsamstarfið eru þéttari en áður. Þá hefur norrænt samstarf um öryggis- og varnarmál eflst og er nú orðið að þriðja hlekknum í öryggiskeðju okkar.

Nýlega var sagt frá afreki hafnsögumanns og skipstjóra hafnsögubátsins Magna þegar þeir fyrir einu ári hindruðu að risavaxið skemmtiferðaskip með 4.600 manns strandaði á grynningum undan Viðey. Vegna fréttarinnar var minnt á að þannig hefði verið búið um hnúta að íslensku varðskipin hefðu dráttarafl til að halda slíkum risaskipum frá bráðri hættu þar til alþjóðleg hjálp bærist. Við þurfum að eignast sambærilegt innlent afl á landi til að veita fyrsta viðnám þar til hjálp berst ef á landið yrði ráðist og sjálfstæðinu ógnað.

Forsetakosningabaráttan snýst eðlilega um hvernig við ætlum að standa að tilvist og sjálfstæði þjóðarinnar. Eftir að forsetaframbjóðendur höfðu rætt saman á Stöð 2 fimmtudaginn 16. maí taldi Bjarni Már Magnússon lagaprófessor nokkuð ískyggilegt að nokkrir þeirra tryðu þeim misskilningi að Ísland fylgdi hlutleysisstefnu í alþjóðamálum og að sérstök stefnubreyting hefði falist í stuðningi íslenskra stjórnvalda við vopnakaup í þágu varnarbaráttu Úkraínu í tilvistarstríði þjóðarinnar gegn tilefnislausri og ólöglegri innrás Rússa.

Fákunnátta af þessum toga endurspeglar áhugaleysið sem einkennir um of umræður um utanríkis- og varnarmál á opinberum vettvangi. Ekki má þó gleyma að Baldur Þórhallsson prófessor hefur lagt mikilvægan skerf af mörkum til umræðna um varnarmálin. Þá hefur Katrín Jakobsdóttir undanfarin ár setið marga ríkisoddvitafundi NATO og átt aðild að mótun grunnstefnu bandalagsins og sameiginlegrar varnarstefnu norrænu forsætisráðherranna með vísan til stríðsins í Úkraínu.

Katrín sagði á forsetafundi Morgunblaðsins á Akureyri mánudaginn 20. maí að yrði mynduð ríkisstjórn með stuðningi meirihluta á alþingi sem ætlaði að segja Ísland úr NATO myndi hún sem forseti spyrja: „Er þetta ekki ákvörðun sem á heima hjá þjóðinni?“ Hún mundi með öðrum orðum vilja vísa málinu til þjóðarinnar með því að hafna slíkri breytingu á þjóðaröryggisstefnunni.

Það sama á við hér og Ronald Reagan sagði á sínum tíma og vitnað var til af fyrrverandi forseta Georgíu, að hver kynslóð verður að ákveða fyrir sig hver staða þjóðar hennar og lands er í heiminum.

Við ákvarðanir í því efni er ekki hjá því komist að horfast í augu við staðreyndir og taka mið af þeim. Nú gefa þær ekki tilefni til lausungar við gæslu öryggis þjóðarinnar. Þvert á móti þarf að huga að leiðum til að auka gæsluna enn frekar.