— Morgunblaðið/Baldur
Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, lét þau orð falla á Acona-ráðstefnunni um afvopnunarmál að umgjörð öryggismála í afvopnunarmálum riðaði til falls. En af hverju? „Í fyrsta lagi vegna breyttrar heimsmyndar

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, lét þau orð falla á Acona-ráðstefnunni um afvopnunarmál að umgjörð öryggismála í afvopnunarmálum riðaði til falls. En af hverju?

„Í fyrsta lagi vegna breyttrar heimsmyndar. Ákveðin umgjörð varð til í kalda stríðinu en þá voru tveir pólar í köldu stríði sem fylgdu samt ákveðnum reglum og voru meðvitaðir um að kjarnorkustríð myndi tortíma heiminum. Stórveldin tvö höfðu algert ægivald í heiminum. Þessu tímabili er lokið. Tvípólaheimurinn er ekki lengur fyrir hendi. Það var einpóla heimur um tíma en nú er það kerfi að leysast upp og við vitum ekki alveg hvert stefnir. Það er óvissa. Og kerfið sem byggðist á þessari vissu er horfið.

Samningar falla úr gildi

Í öðru lagi hefur flestum þeim samningum sem stórveldin gerðu sín á milli á kaldastríðsárunum um kjarnavopn annaðhvort verið sagt upp eða þeir runnið sitt skeið á enda og hafa ekki verið endurnýjaðir. Samningar sem gerðir voru um kjarnavopn á kaldastríðsárunum eru þannig meira og minna ekki lengur í gildi. Það er eiginlega þetta tvennt sem gerir það að verkum að umgörðin sem var mynduð hefur riðað til falls og það hefur ekki verið mynduð ný umgjörð í kringum þetta,“ segir Guðmundur en fjallað var um Acona-ráðstefnuna í Háskóla Íslands á síðum 26-28 í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag.

Hvernig var hinn einpóla heimur?

„Bandaríkin voru svo ráðandi, að minnsta kosti um hríð, að sú skoðun var útbreidd að þau gætu sett leikreglur að vild. Hitt er ljóst að þótt Rússland sé ekki sama stórveldið og áður á það mikið af kjarnavopnum sem eru auðvitað gríðarleg ógn. Jafnframt hafa Rússar gefið í skyn að þeir séu tilbúnir að beita þeim. Og það veldur mönnum auðvitað áhyggjum.“

Hversu alvarlega ber að taka að Rússar séu að gefa þetta í skyn?

„Það er auðvitað erfitt að segja til um það. Það er ekkert sem bendir til þess að þeir ætli að beita kjarnorkuvopnum eins og staðan er núna. Menn eru þó almennt sammála um að treysta ekki Pútín [Rússlandsforseta] ef hann er málaður út í horn.

Það er ljóst að stuðningur Bandaríkjanna við Úkraínu hefur mótast mjög af þessu; að þeir vilja ekki ögra Rússum um of. Vilja alls ekki gefa Rússum ástæðu til að nota kjarnorkuvopn af því að það er alltof áhættusamt. Það eru hins vegar til alls konar kjarnorkuvopn og menn hafa lengi verið að gæla við þá hugmynd að beita því sem kallast taktísk kjarnorkuvopn. Þau myndu þá ekki eyða heiminum en valda gríðarlegri eyðileggingu þar sem þeim er beitt. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Bandaríkjamenn treysta ekki Rússum að þeir hafa verið að þróa þessi taktísku kjarnorkuvopn og það eru svo sem engar haldbærar takmarkanir á því.“

Hvaða vægi hefur Kína í þessu efni?

„Það er góð spurning. Það er ljóst að ein af ástæðunum fyrir því að samningarnir sem stórveldin gerðu í kalda stríðinu hafa ekki verið endurnýjaðir er að þeir ná ekki til Kína. Þannig að það þarf að endurnýja þessa umgjörð þannig að hún nái til allra. Á kaldastríðsárunum var deilt um hvort Bretar og Frakkar ættu að vera undir samningum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna um kjarnavopn.

Hefur fjölgað

Nú eru komin fleiri kjarnorkuríki. Kína hefur miklu færri kjarnavopn en Rússar og Bandaríkjamenn. Kína hefur því ekki viljað setja miklar takmarkanir á kjarnavopn, a.m.k. ekki fyrr en þeir hafa náð einhvers konar jafnvægi gagnvart Rússum og Bandaríkjamönnum,“ segir Guðmundur. Finna þurfi leiðir til að semja nýja umgjörð utan um kjarnavopn svo hún nái til allra kjarnorkuvelda, þ.m.t. Indlands, Pakistans, Ísraels og N-Kóreu. Spenna sé í samskiptum ríkjanna.