Guðný Björk Eydal
Guðný Björk Eydal
Baldur Þóhallsson leggur áherslu á málefni barna og mun reynast mikilvægur baráttumaður fyrir hagsmunum þeirra í embætti forseta Íslands.

Guðný Björk Eydal

Baldur Þóhallsson hefur lagt áherslu á málefni barna í kosningabaráttunni því forseti Íslands getur haft áhrif á hvaða mál við sem samfélag setjum á oddinn. Hann getur með formlegum hætti beitt sér fyrir því að málefni barna séu sett í öndvegi.

Baldur hefur bent á að í okkar ríka velferðarþjóðfélagi sé enn verk að vinna hvað varðar velferð barnanna okkar. Þrátt fyrir að margt sé gert vel og að barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason hafi nýlega talað fyrir lögum sem hafa það að markmiði að tryggja farsæld barna þá erum við á sama tíma að takast á við nýjar áskoranir og hættur sem hafa leitt til þess að börnum líður verr nú samkvæmt opinberum mælingum en áður hefur mælst. Tilkynningar til barnaverndaryfirvalda hafa aldrei verið fleiri og um 14,3% barna undir 15 ára aldri bjuggu á heimilum sem mældust undir lágtekjumörkum árið 2021!

Því miður tekst okkur misvel að vernda börn fyrir hættum sem að þeim steðja. Of mörg villast af braut og þegar verst lætur týna þau lífi sínu, falla fyrir eigin hendi eða annarra. Fjölskylda Baldurs og Felix þekkir þetta því miður af eigin raun því systursonur Felix, Bergur, varð fyrir kynferðislegu ofbeldi og tók eigið líf aðeins 19 ára gamall eftir að dómstólar létu málið niður falla. Í kjölfarið stóð móðir Bergs, Sigurþóra Bergsdóttir, ásamt fjölskyldu og vinum fyrir því að Bergið-Headspace, sem er lágþröskuldaþjónusta fyrir börn og ungt fólk, yrði stofnað. Baldur þekkir því af eigin raun hversu mikilvægt það er að mæta börnum á þeirra forsendum og efla úrræði og þjónustu við þau og foreldra þeirra og hann mun byggja á því í starfi.

Ísland hefur undirritað og lögfest sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og margt er hér vel gert en þó er enn langt í land hvað varðar að tryggja rétt barna til þátttöku. Þannig var það til dæmis þegar við héldum hinn myndarlega þjóðfund árið 2009 og þess vandlega gætt að fulltrúar sem fjölbreyttastra hópa ættu þar sæti en börnum var ekki boðið til þátttöku. Forseti Íslands hefur fjölmörg tækifæri til að beita sér fyrir því að hlustað sé á börn og að þau taki þátt í þeim atburðum og samtölum sem eiga sér stað og embætti forseta Íslands kemur að. Þá er forsetinn verndari ýmissa félagshreyfinga og baráttusamtaka sem beita sér fyrir hagsmunum barna.

Við Baldur vorum ráðin til starfa við Háskóla Íslands á svipuðum tíma fyrir um aldarfjórðungi og ég þekki af reynslu að hann er öflugur verkmaður sem vinnur ötullega að markmiðum sínum og mun því reynast mikilvægur baráttumaður fyrir hagsmunum barna í embætti forseta Íslands.

Höfundur er félagsráðgjafi.