Klemens Árni Einarsson fæddist á æskuheimili sínu í Presthúsum í Reynishverfinu í Mýrdal 25. janúar árið 1958. Hann lést 14. apríl 2024 á Landspítala Fossvogi.

Foreldrar hans voru Einar Kristinn Klemenzson, f. 4. nóv. 1930, d. 12. jan. 2013 og Hrefna Finnbogadóttir, f. 22. apríl 1932, d. 11. ágúst 2016. Hann var þriðji elsti í röðinni af systkinahópnum, en hin eru: Kristín, f. 1953, Viggó Rúnar, f. 1955, d. 19.8. 2004, Finnbogi, f. 1960, d. 7.9. 2013, Heiða Dís, f. 1963, Signý, f. 1965, og Haukur, f. 1965.

Hann var kvæntur Guðrúnu Sigríði Jónsdóttur, f. 1960, þau skildu. Þau gengu í hjónaband í Vestmannaeyjum 6. janúar árið 1979 og voru gift í 23 ár. Árið 2017 kynntist hann sambýliskonu sinni Diu Phiobaikham, f. 1977.

Með Guðrúnu Sigríði eignaðist hann börnin sín þrjú: Jón Þór f. 1978, Sunnu Dís f. 1988 og Birtu Mjöll, f. 1989.

Hann lætur eftir sig sex afabörn: Breka Pál Jónsson, f. 2009, Stefaníu Jónsdóttur, f. 2011, Loga Þór Árnason, f. 2015, Guðrúnu Sif Gunnlaugsdóttur, f. 2017, Sigurrós Lísu Árnadóttur, f. 2018 og Sigrúnu Rán Gunnlaugsdóttur, f. 2020. Tengdabörn: J. Snæfríður Einarsdóttir, f. 1977, Gunnlaugur Unnar Höskuldsson, f. 1983, börn hans eru Guðrún Sif og Sigrún Rán, og Árni Freyr Ársælsson, f. 1988.

Klemens ólst við almenn bústörf á æskuheimili sínu, sem barn fór hann í Litla-Hvammsskóla og síðan í Skógaskóla. Hann flutti um 17 ára til Vestmannaeyja þar sem hann hóf sjómennskuævintýrið. Hann lauk öðru stigi í stýrimannaskólanum snemma á níunda áratugnum. Hann vann á stærri bátum fram til þess að hann kynntist smábátalífinu sem átti hug hans eftir það. Klemens hóf eigin rekstur á smábátnum Birtu Dís VE 35 árið 1995, en báturinn er nefndur í höfuðið á dætrum hans. Ef hann var ekki einn á sjónum þá var sonur hans Jón Þór með honum. Reksturinn átti þá eftir að dafna vel en seinna meir fjárfesti hann í stærri Birtu Dís, sem sökk þegar þeir feðgar voru á sjó, en litlu mátti muna að feðgarnir hefðu farið með bátnum. Þetta stoppaði hann ekki, önnur Birtu Dís var keypt og seinna meir gerði hann bátinn út með bróður sínum Hauki. Hann lagði land undir fót og var nokkur ár að fiska á smábátum í Noregi með syni sínum. Klemens veiktist fyrir um tveimur árum, í desember 2023, og eftir 49 ár á sjónum hætti hann vegna veikinda sinna. Hann hefði haldið ótrauður áfram hefði hann haft heilsu til.

Útför hans fer fram í Reyniskirkju í Mýrdal í dag, 25. maí 2024, klukkan 13.

Elsku hjartans pabbi, ég er enn að meðtaka að þú sért farinn, þú kvaddir okkur alltof fljótt. Allir hversdagslegu hlutirnir eins og að fá fréttir af veðrinu, sögur af sjónum, hvernig Liverpool gengi, stuttu stoppin bara til að segja hæ og bæ, fá einn kaffi eða vatnsglas, að þú komir og gefir börnunum harðfisk og bláber eins og þú gerðir reglulega, eða laumaðir í þau nammi, og færa okkur fisk eru allt í einu orðnar mikið dýrmætar stundir og minningar. Ég ólst upp við að þú værir í burtu á sjónum en ég gat vanalega talað við í þig í síma, sem við gerðum daglega, það er sárt að taka upp tólið og fatta að þú getir ekki svarað.

Pabbi varð harðjaxl og þrátt fyrir veikindi sl. tvö ár lét hann þau ekki á sig fá og hélt áfram sjómennsku, kom áfram í heimsóknir og hélt áfram því sem hann var vanur að gera.

Pabbi var sterkur og með mikla seiglu sem fleytti honum áfram. Ég hef eflaust horft mikið upp til hans þegar ég var lítil, en á meðan ég vildi helst klæðast bleiku, vera í dúkkó og vera almenn prinsessa, þá ætlaði ég að verða fiskikona með pabba og bróður mínum Jóni Þór. Ég á margar góðar minningar og stundir með pabba en hann sótti mikið í náttúruna þegar hann var í landi, við fjölskyldan bjuggum í Vestmannaeyjum svo það var ekki langt að sækja. Það sem er eftirminnilegast eru fjöruferðirnar, bryggjurúntarnir, berjamór, stuttar bátsferðir og að dansa heima í stofu í fanginu og á tám hans. Í sveitina fórum við til ömmu og afa um páska og á sumrin og voru það góðar stundir, sem mikið var spilað, verið í náttúrunni, Reynisfjöru, heyskap og vera í kringum lömbin. Þegar ég varð eldri þá var sameiginlegt áhugamál okkar að fara á rúntinn og hlusta á tónlist, en pabbi var alæta á tónlist og var tónlistin betri því hærra sem hún var spiluð, áfram var náttúra fyrir valinu, en okkur þótti notalegt að fara í Heiðmörk eða á Hvaleyrarvatn.

Þegar pabbi byrjaði í krabbameinsmeðferð talaði hann um eftirsjá að hafa verið svona mikið í burtu frá okkur fjölskyldunni, nú í byrjun árs áttum við samtal þar sem hann ræddi að honum þætti það mikið erfitt að vera hættur á sjó. Þó varð það honum mikil sárabót að nú hefði hann meiri tíma til að vera með okkur fjölskyldunni og barnabörnum, en hann var þeim mikið kær. Það er sárt og erfitt að sætta sig við að svo verður ekki.

Þegar ég var lítil þótti mér gott að kúra í „kotinu“ eða handakrikanum hans pabba, ég öðrum megin og Sunna Dís systir hinum megin. Það var svo hlýtt og pabbi mjög sterkur og mikil öryggiskennd sem fylgdi því. Þegar hann lést vorum við systur í hvor í sínu „kotinu“ og ræddum fallegar minningar á meðan hann lagðist til hinstu hvíldu.

Þú varst góður maður og vildir náunganum, börnum jafnt sem dýrum vel. Ég er stolt af því að vera dóttir þín og þakklát fyrir allt það sem þú kenndir mér. Söknuðurinn er nístandi sársauki, minning þín yljar og mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Kveð þig með ljós í hjarta og seinustu orðunum sem þú sagðir við mig og ég við þig: Ég elska þig.

Þín dóttir,

Birta Mjöll Klemensdóttir.

Þá er kominn tími til að kveðja manninn sem var pabbi minn og partur af því er að skrifa ótímabæra minningargrein. Við unnum töluvert saman í gegn um tíðina og litast samband okkar af því. Vinir. Þvílíkt magn minninga skýtur upp kollinum við þau straumhvörf sem nú eiga sér stað. Pabbi var skipstjórnarmenntaður og var sjómaður frá unga aldri, fyrst á vertíðarbátum, þá smærri togbátum og togurum. Síðustu tæplega 30 árin var hann á smábátum, lengst af á bátum sem báru nafnið Birta Dís, sem nefndir var í höfuðið á dætrum hans – systrum mínum. Hann var ekki á þeim buxunum að setjast í helgan stein þegar við komum síðast saman í land, í desember síðastliðnum. Hann var fiskimaður, algjörlega fram í fingurgóma. Heilsan var þó farin að láta undan að því marki að ómögulegt væri hverjum manni að standa í sjómennsku. Reyndar var það skoðun einhverra að hið sama hefði verið upp á teningunum síðastliðin tvö ár eða svo. Pabbi var þó ekki á sama máli og hélt ótrauður áfram. Svona að minnsta kosti á meðan hann stóð í fæturna, að segja má. Hún var aldrei venjuleg, harkan á þeim bænum.

Mér skilst að miðað sé við að ein minningargrein sé 600 orð. Það er ekki mikið þegar óteljandi hressandi sögur af pabba eru til. Þær þyrfti að birta á öðrum vettvangi en hann var alla tíð stríðinn, í besta skilningi þess orðs, hnyttinn sem og uppátækjasamur og tapaði þeim eiginleikum aldrei. Hér er þó gott að minnast þess að honum fannst aldrei of margir strákar gestkomandi þegar ég bjó í foreldrahúsum og oft vildi pabbi vera með, ekki síst ef það var fótbolti eða hinn víðfrægi innanhúss „sokkabolti“ í boði. Þarna átti hann vel heima enda félagarnir mjög áhugasamir að koma heim ef þeir vissu að þeir ættu von á smá stríðni eða jafnvel áflogum og pyntingum að hætti hússins.

Pabbi er ekki gamall þegar hann fellur frá, 66 ára. Heilsan verri undanfarin tvö ár eða svo. Ekki bjóst ég þó við að þurfa að kveðja svo fljótt og alls ekki að dauðann bæri að með jafn skjótum hætti og úr varð. Því verður þó ekki á móti mælt að sú atburðarás er ágætlega í takti við ákveðin einkenni sem karakter hans hafði að geyma, Allt-eða-ekkert-einkennin.

Fyrir utan að vera fiskimaður þá hafði pabbi gaman af ýmissi annars konar veiði, á fiski en einnig beið hann eftir að komast í lunda á sumrin, helst í Reynisfjall í sveitinni hans. Þrátt fyrir veiðiáhugann var hann dýravinur og hafði sérstaklega gaman af hundum. Það var best að bíða með að segja pabba eitthvað mikilvægt á meðan hundur var nálægt enda ómögulegt að keppa við athyglina sem þeir iðulega verðskulduðu.

Pabbi átti orðið sex barnabörn. Öllum þótti þeim gaman þegar afi Klemens, afi Klemmi hjá sumum, kom í heimsókn því þá var von á fjöri (og nammi). Hann naut þess að leika við þau og mátti vel sjá hvernig hann óx inn í „afann“ undanfarin ár. Það er sorglegt að þau sambönd hafi ekki fengið að vaxa og dafna, nú þegar hyllti undir að meiri tími gæfist til samveru. Við sem fullorðin erum og stóðum honum næst munum sjá til þess að minningin um góðan dreng mun lifa.

Jón Þór Klemensson.

Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, elsku pabbi minn, tekinn frá okkur allt of snemma, allt of snögglega. Eftir situr tómleikinn, stórt skarð sem hefur verið höggvið og fullt af spurningum vaknað. Að skrifa minningargrein um þig á þessum tíma er eitthvað sem mig hefði ekki órað fyrir og á erfitt með að sætta mig við.

Þegar ég lít yfir farinn veg og rifja upp samverustundirnar okkar þá áttum við margar dýrmætar stundir saman sem ég mun ætíð minnast og verð ævinlega þakklát fyrir. Sjórinn átti hug þinn allan, á honum var þitt ævistarf, sem þýddi að viðvera þín var styttri en í þessum „hefðbundnu fjölskyldum“. Ýmislegt var þó brallað þegar þú varst í landi og það sem er mér efst í huga eru daglegu bryggjurúntarnir. Ég lét það ekki á mig fá þótt ég þyrfti mögulega að bíða í bílnum svo tímunum skipti á meðan þú spjallaðir við bryggjukallana, því rúntur okkar feðgina endaði ávallt í Skýlinu með pulsu og svala. Fótbolti átti hug okkar allan, litla fótboltabullan horfði á flesta leiki með þér, hvort sem það var á heimavelli ÍBV eða í sjónvarpinu. Tilhlökkunin í aðdraganda páskanna var ríkjandi, en þið mamma fóruð árlega með okkur upp í sveit í Mýrdalinn til ömmu og afa þar sem við komumst í tæri við sveitalífið, auk þess kom stórfjölskyldan saman á þeim tíma en hún samanstóð meðal annars af frændum og frænkum á svipuðum aldri og lituðust þeir hittingar af ýmsum prakkarastrikum og öðrum uppátækjum. Tónlist var þér hugleikin og voru stundirnar sem við nutum saman með tónlistina í bakgrunni ansi margar, hvort sem það var dansandi í stofunni á Höfðavegi 25 eða á rúntinum með græjurnar í botni. Á unglingsárunum mínum tókst þú upp þá hefð að hóa fjölskyldunni saman upp í Heiðmörk, þar sem þú grillaðir handa okkur og nutum við sannarlega þeirra stunda sem ég mun varðveita í minningabankanum.

Ég hugsa að ekki hafi liðið sá dagur sem ég hef ekki ætlað að taka upp tólið til þess að hringja í þig. Ég á erfitt með að kyngja því að fá ekki að heyra í þér daglega, um allt og ekkert. Ég minnist líka allra myndsímtalanna og óvæntu innlitanna þar sem þú varst mættur til að gefa stelpunum mínum (okkar) ber og harðfisk og jú, laumaðir stundum nammi án þess að ég vissi af. Þín verður minnst sem góðhjartaðs pabba og afa og þú elskaðir fjölskylduna þína sem var þér svo mikils virði. Afastelpurnar þínar, Guðrún Sif og Sigrún Rán, vildu segja nokkur orð sem hér fara á eftir:

Guðrún Sif: Elskulegi afi, ég vil hitta þig svo oft, ég fer að gráta af því að ég vil vera með þér, bæ (hjarta með eld innan í).

Sigrún Rán: Afi, þú mátt eiga bangsann minn (þennan hérna).

Ég samdi svo ljóð til þín sem endurspeglar allar þær tilfinningar sem bærast í hjarta mínu:

Elsku fallegi engillinn minn,

í sálu minni ég þig finn.

Þú ætíð átt þér stað í mínu hjarta,

þó vona ég að líði nóttin svarta.

Takk fyrir lífið, elsku pabbi minn. Að lokum kveð ég þig í hinsta sinn með djúpri sorg og söknuð í hjarta líkt og þú kvaddir mig í hvert sinn: „Bæ á meðan.“ Þín dóttir,

Sunna Dís Klemensdóttir.

Ég mun aldrei gleyma þegar Birta kynnti okkur fyrst, það eru sirka 19 ár síðan og áttu þau kynni sér stað við sjoppuna í portinu við kaupfélagsblokkina í Norðurbænum. Við Birta komum labbandi inn portið og þar var stór og mikill sjómaður við sjoppuna að spjalla við unglingana sem þú virtist þekkja mjög vel. Ég skildi ekkert í þessu og svo réttirðu fram risavöxnu höndina með þitt alræmda glott og höndin mín hvarf. Í fullri hreinskilni þá voru taugarnar þandar, en örfáum mínútum síðar þá hvarf það og kom aldrei aftur. Mig minnir að eitt það fyrsta sem þú spurðir mig að var með hvaða liði ég héldi í ensku og svo var örugglega rætt um hvernig seinasti túr endaði og jafnvel ákveðið að fara saman að grilla lamb í Heiðmörk við tækifæri. Þessi fyrstu kynni enduðu, í minningunni, með því að þú keyrðir í burtu með Barbie Girl í botni glottandi og Birtan okkar snarroðnaði. Þessi lýsing er kannski ekki dagsönn, en þetta er mín upplifun af þér, Klemens. Þú varst einlægur, bauðst alla velkomna og það var aldrei langt í smá grín hér og þar. Ég verð þér alltaf þakklátur fyrir að hafa ráðið mig í vinnu með þér í netagerð eitt sumarið og áttum við góðar stundir þar saman, uppskriftin eftir vinnudagana var alltaf keimlík, við hlustuðum á lög saman og tefldum, núna get ég sagt að það hafi verið frekar jafnt okkar á milli þó þú hafir kannski átt að hámarki einn leik á mig. En að öllu gamni slepptu, þá varstu magnaður maður. Þú gerðir og talaðir um það sem þú hafðir gaman af, þú ljómaðir þegar þú varst í kringum Loga Þór og Sigurrós Lísu og gafst þeim alla þína athygli. Þegar öllu er á botninn hvolft þá gerðir þú það sem þú gerðir af ástríðu og það skein í gegn hvort sem það varðaði sjómennskuna, barnabörnin eða Liverpool.

Hvíldu í friði Klemens, minning þín lifir sterkt áfram með okkur.

Þinn tengdasonur,

Árni Freyr Ársælsson

Þá er komið að kveðjustund.

Svo sárt að kveðja góðan bróður sem Klemens var. Stundum stend ég mig að því að vera komin með símann í hendur til að tala við hann, því þetta er svo óraunverulegt.

Klemens var umhyggjusamur, fylgdist með og spurði oft um börnin mín. En þeim þótti mjög vænt um hann. Svo skemmtilegur og góður frændi og ekki leiðinlegt hvað hann gat stundum verið stríðinn.

Núna í vetur vorum við að rifja upp alls konar skemmtileg prakkarastrik í einu af okkar löngu samtölum. Kom þá ýmislegt í ljós (efni í margar bls.).

Hann var stundum að segja mér skemmtilegar sögur af barnabörnunum sínum sem hann var svo mikið stoltur af eins og börnunum sínum öllum og einnig henni Díu sinni. Það var augljóst hvað honum þótti vænt um fjölskylduna sína og hvað þau voru honum mikils virði.

Klemens var hörkuduglegur. Fór ungur að heiman og varð sjómennskan hans ævistarf. Hann var ekki gamall þegar hann fór í fjallið að veiða lunda og kom oft heim með stórafla. Mikill veiðiáhugi þarna enda ekki langt að sækja það.

Hann tók þátt í ýmsum íþróttum, aðallega hlaupum, fótbolta og skák að mig minnir. Hafði líka gaman af ýmsum spilum, en oft spiluðum við systkinin og tefldum langt fram á nótt. Eins Viggó bróðir okkar líka. Ekki ólíklegt að teflt verði og tekið í spil í sumarlandinu þegar feðgarnir hittast á ný.

Elsku Jón Þór, Sunna Dís, Birta Mjöll, Día og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur og megi guð gefa ykkur styrk í sorginni.

Við munum öll sakna þín sárt en minningin lifir. Sofðu rótt og guð geymi þig elsku bróðir.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Kristín systir.

hinsta kveðja

Afi Klemens, ég er hérna hjá þér þótt ég sjái þig ekki, en þetta er ég, Sigurrós. Mig langaði bara að segja til hamingju að þú varst til. Þegar afi var í heimsókn þá fannst mér gaman að taka á móti öllu namminu sem hann gaf mér. Mér fannst gott að fá alltaf knús og koss þegar hann kom. Mér fannst gaman að fara út á trampó og í garðinn með honum, mér fannst eins og mamma og afi Klemens væru lík … Ég fékk svona hlýju í hjarað þegar ég hitti hann og mér fannst alltaf gaman þegar við afi Klemens spiluðum saman.

Sigurrós Lísa Árnadóttir.

Ég sakna afa Klemens og langar að hitta hann, mér líður ekki vel að hann sé ekki hér. Mér fannst gott að fá hann í heimsókn með nammi, harðfisk eða bláber, hann kom með besta harðfiskinn. Ég hefði viljað fara með honum í bíó og kannski á Liverpool-leik seinna. Mér fannst gaman að við héldum saman upp á Liverpool og mér leið vel þegar ég gaf honum Gomez-spjaldið. Mér fannst gaman að leika við hann með bolta, á trampólíninu eða í garðinum og þegar við spiluðum. Ég fékk gott í hjartað þegar við töluðum saman. Til hamingju að þú varst til.

Logi Þór Árnason.