Slökkviliðsmaður í úthverfi Karkív í Úkraínu stendur í rústum húss sem Rússar sprengdu í loft upp í drónaárás fyrr í mánuðinum.
Slökkviliðsmaður í úthverfi Karkív í Úkraínu stendur í rústum húss sem Rússar sprengdu í loft upp í drónaárás fyrr í mánuðinum. — AFP/Sergey Bobok
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um allan heim fylgjast einræðisherrar með framgangi mála í Úkraínu. Þeir vilja vita hvort lýðræðisríkin hafi úthald og þrek til að styðja bandamenn sína í Úkraínu.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Við Íslendingar metum friðinn mikils og viljum róa að því öllum árum að samskipti þjóða einkennist af virðingu, jafnræði og sátt. Orðið friður heyrist ósjaldan í ræðum frambjóðenda í forsetakosningunum þessa dagana. Og svo sannarlega hefur íslensk þjóð eins og allar aðrar þjóðir hagsmuni af því að friður ríki í kringum okkur.

Það vill þó því miður brenna við að hugmyndin um frið sé sett upp sem andstæða við varnir. Sjálf hef ég gert athugasemd við það þegar sá tónn er sleginn að Íslendingar séu meira friðelskandi en aðrar þjóðir. Það er auðvitað fjarri lagi. Allt venjulegt fólk vill frið og líklega þrá og elska engar þjóðir friðinn meira en þær sem búa við ofbeldi eða ógn um ófrið.

Það eru bæði sögulegar og aðrar ástæður fyrir því að Ísland er eitt fárra þjóðríkja án hers en það er ekki af því að við séum meira friðelskandi en aðrir. Munurinn á okkur Íslendingum og því fólki sem hefur þurft að verjast innrásum annarra eða verið þvingað til að taka þátt í innrásum í önnur lönd er fyrst og fremst sá að erum lánsöm. Og maður getur sannarlega verið þakklátur fyrir heppni, en maður getur ekki leyft sér að gorta af henni.

En við ætlum heldur ekki að treysta á gæfuna til að viðhalda friði og öryggi. Við stöndum vörð um öryggi okkar með því að skipa okkur í sveit með þeim ríkjum sem hafa afráðið að verjast og verja hvert annað gegn hverjum þeim sem hyggst rjúfa friðinn gegn þeim.

Um þessar mundir eru því miður nánast stöðugar fréttir af þjóðum og fólki sem nýtur ekki sömu gæfu og við.

Rússar láta sprengjum rigna yfir Úkraínu. Innanlandsófriður og átök eru í mörgum Afríkuríkjum og viðvarandi spenna í kjölfar átaka víða um heim. Hörmungunum fyrir botni Miðjarðarhafs linnir ekki. Allt það fólk sem þjáist vegna þessara átaka þarf ekki á því að halda að yfir því séu predikaðir kostir friðar. Sums staðar er staðan þannig að friður yrði skammgóður vermir eða skálkaskjól fyrir þá sem hyggja á illt. Það er til að mynda raunveruleiki úkraínsku þjóðarinnar. Raunverulegur friður krefst réttlætis.

Þegar Pútín forseti Rússlands sendi heri sína inn í Úkraínu hélt hann að það myndi taka nokkra daga að ná Kænugarði og þar með völdum í landinu. Hetjulegar varnir Úkraínumanna vöktu aðdáun umheimsins. En þær kostuðu mikið, og gera enn, og sá kostnaður er talinn í mannslífum og eyðileggingu heimila og innviða.

Ég talaði nýlega um að Íslendingar þyrftu að „fullorðnast“ þegar kemur að varnarmálum – og hef fengið gagnrýni fyrir frá sumum þingmönnum. Í ræðu í tilefni af 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins sagði ég að þegar friði er ógnað í Evrópu þá kemur það okkur við og þegar kemur að því að leggja fram þá eigum við ekki að spyrja fyrst hvað henti okkur sjálfum best, heldur hvort við getum lagt fram eitthvað af því sem brýnust þörf er á.

Það væri einfalt að fá frið í Úkraínu strax í dag. Til þess eru tvær leiðir. Pútín gæti skipað sínum herjum að snúa heim. Hin leiðin er að Úkraínumenn gefist upp og afhendi honum það sem hann vill. Umræðan undanfarna daga um frið ber stundum keim af þeirri hugsun að fyrst fyrri leiðin hafi ekki gengið þá sé líklega best að skoða þá síðari.

Það er ekki friður. Úkraínumenn hafa ákveðið að verja land sitt þrátt fyrir þær hörmungar stríðs sem það kostar. Um allan heim fylgjast einræðisherrar með framgangi mála í Úkraínu. Þeir vilja vita hvort lýðræðisríkin hafi úthald og þrek til að styðja bandamenn sína í Úkraínu. Komi í ljós að svo sé ekki þá mun það ekki leiða til meiri friðar í heiminum. Þess vegna eigum við að styðja Úkraínu og gera það á þann hátt sem Úkraínumenn sjálfir óska eftir. Þannig stuðlum við að réttlátum friði og ekki bara í Úkraínu.