Fagnaðarerindi „Með húmorinn að vopni hlífir Kristín Þóra sér hvergi.“
Fagnaðarerindi „Með húmorinn að vopni hlífir Kristín Þóra sér hvergi.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við fyrstu sýn hljómar það ekkert endilega vænlegt til árangurs að gera gamansýningu um stress og kulnun. Því hvað er fyndið við það að fá taugaáfall vegna dugnaðar og álags? Og má hlæja að þeim sem skokkað hafa svona harkalega á vegg? Já, ef marka má Á rauðu ljósi

Af listum

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Við fyrstu sýn hljómar það ekkert endilega vænlegt til árangurs að gera gamansýningu um stress og kulnun. Því hvað er fyndið við það að fá taugaáfall vegna dugnaðar og álags? Og má hlæja að þeim sem skokkað hafa svona harkalega á vegg? Já, ef marka má Á rauðu ljósi. Þar er um að ræða stórskemmtilega uppistandssýningu Kristínar Þóru Haraldsdóttur um stress, streitu, seiglu, aumingjaskap og dugnað sem hún hefur sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir fullu húsi við frábærar undirtektir frá lokum síðasta árs. Reyndin er nefnilega sú að húmorinn getur gert kraftaverk og hjálpað okkur að horfast í augu við eigin breyskleika, takmarkanir og fordóma – því eins og Kristín Þóra komst að þá eru það ekki endilega aumingjar sem lenda í kulnun heldur einmitt harðduglega fólkið. Á sama tíma getur það dregið úr ótta og kvíða að setja orð á hlutina og leyfa okkur að hlæja góðlátlega að sjálfum okkur og öðrum.

Á rauðu ljósi er einnar konu sýning sem lýsa mætti sem blöndu af uppistandi, einleik og fyrirlestri. Nestuð einlægni deilir Kristín Þóra reynslu sinni af því að hafa fengið taugaáfall árið 2020. Hún ræðir skömmina sem gripið getur duglega fólkið sem bugast af ofurálagi eftir að hafa hunsað rauðu viðvörunarflöggin alltof lengi þar til líkaminn grípur einfaldlega í taumana. Hún fer einnig yfir það hvaða úrræði reyndust hjálpa henni til að koma aftur undir sig fótunum og hvaða dýrmæta lærdóm hún tók með sér. Sá lærdómur á erindi til allra, því öll hefðum við gott af því að þekkja einkenni álags og streitu og átta okkur á því að við þurfum ekki alltaf að vera ofurdugleg og gera allt upp á tíu í öllum þeim ólíku hlutverkum sem við sinnum dags daglega bæði í vinnu og einkalífi.

Með húmorinn að vopni hlífir Kristín Þóra sér hvergi. Hún rifjar upp eigið kapp þegar kemur að líkamshreyfingu, lýsir því hversu stressandi það er að ferðast með slöku fólki og hvers vegna hún féll á flugfreyjuprófi. Allt þetta rammar hún með frábærum hætti inn í frásögn af útskriftarverkefni sínu af leikarabraut Listaháskólans þar sem tæknin brást henni á ögurstundu með tilheyrandi stressi og óvæntum viðbrögðum. Kristín Þóra fer um víðan völl, en bindur allt að lokum fallega saman með gjörningi sem lokar ákveðnum hring.

Frásögn Kristínar Þóru af rannsóknum ungversk-kanadíska innkirtlafræðingsins Hans Selye (1907-1982), sem nefndur hefur verið faðir nútíma streiturannsókna, fær mikilvægan sess í sýningunni enda stórmerkilegar rannsóknir. Í stuttu máli má segja að Selye hafi komist að þeirri niðurstöðu að streita sem slík sé ekki skaðleg í sjálfu sér. Enda kemst enginn í gegnum lífið án þess að upplifa einhvers konar streitu, hvort heldur er tengt námi og prófum eða gleðistundum á borð við brúðkaup og plönuð frí. Að mati Selye er smá streita ekki endilega slæm eða hættuleg fyrir okkur, heldur krydd í tilveruna. Mikilvægt er hins vegar að streitan verði ekki viðvarandi, því ef við fáum aldrei hvíld undan álaginu og hunsum öll viðvörunarljósin stefnum við hraðbyri í örmögnun og kulnun. Lykillinn hér, líkt og í svo mörgu öðru, er því að ná hinu gullna jafnvægi milli hvíldar og álags og nærandi og tæmandi athafna.

Líkt og Kristín Þóra bendir á hefðum við öll gott af því að læra og iðka þau bjargráð sem hjálpa okkur að róa taugakerfið. Slík bjargráð kosta ekki mikið og ekki þarf að fara til Balí til að öðlast innri ró. Hugleiðsla, létt hreyfing, það að vera úti í náttúrunni, strjúka feldi á dýrum og faðma aðra manneskju í að minnsta kosti 20 sekúndur eru allt aðferðir sem koma að góðum notum til að róa taugakerfið, halda góðri heilsu og njóta lífsins.

Sem fyrr segir hefur Kristín Þóra sýnt sýningu sína fyrir fullu húsi frá því hún frumsýndi hana undir lok síðasta árs. Þær vinsældir eiga ekki að koma neinum á óvart og helgast annars vegar af orkumikilli og tilfinningaríkri miðlun Kristínar Þóru, sem stingur sér í beint samband við salinn með framúrskarandi hlustun. Hins vegar brennur hún fyrir umfjöllunarefninu sem á svo sannarlega erindi við okkur öll. Vonandi nær Kristín Þóra að boða bráðhollt og sprúðlandi skemmtilegt fagnaðarerindi sitt sem oftast og víðast.