Við Skorradalsvatn.
Við Skorradalsvatn. — Morgunblaðið/Eggert
Nú eru senn 20 ár liðin frá því að hin mikla bók eftir Simon Sebag Montefiore um Rauða keisarann og hirð hans var gefin út og voru þá 50 ár frá andláti einræðisherrans.

Nú eru senn 20 ár liðin frá því að hin mikla bók eftir Simon Sebag Montefiore um Rauða keisarann og hirð hans var gefin út og voru þá 50 ár frá andláti einræðisherrans.

Þeir voru til hér á landi sem dáðu þennan jöfur miskunnseminnar, Jósef Stalín, og mátu góðmennsku hans að verðleikum og ekki síst eindræga tryggð hans og heilindi. Með tár á hvörmum minntust þeir þessa manns, sem ekkert aumt mátti sjá. Það fylltist fljótt Austurbæjarbíóið, sem gamall sætavísari getur upplýst að hafði 787 sæti, en þetta var fyrir daga Háskólabíós. Nokkrir úr hópi bestu ræðumanna landsins fluttu ógleymanlegar ræður og létu ekki tárbólgin augun og ekkasog rugla sig, vegna þessa óvænta áfalls og mikla missis sem „öreigar allra landa“ stóðu nú augljóslega frammi fyrir. Sá missir yrði aldrei að fullu bættur.

Þar á meðal var einnig drjúgur hópur manna sem þurftu enga minnimáttarkennd að hafa vegna gáfna sinna og andlegra yfirburða gagnvart fávísum almenningi, sem þeir báru, „eins og hann“, eftir sem áður mjög fyrir brjósti og myndu aldrei bregðast.

En þá kom út bók

Og þessi mikla bók var óneitanlega veruleg og óvænt uppljóstrun og gaf auðvitað miklum fjölda, sem söfnuðurinn í Austurbæjarbíói var aðeins brotabrot af, fyrsta færið á að nálgast raunveruleikann á ný, sem þeir vildu þó draga í lengstu lög. En nú voru þó liðin fáein ár frá því að brestir tóku að heyrast frá múrnum á milli frelsis og ófrelsis og þeir sem bundu trúnað sinn og traust við hið síðarnefnda, eins lengi og þeim væri stætt á, töldu margir að þeir og betri hluti mannkynsins, sem þeir tilheyrðu, ættu enn von. Þremur árum eftir lát einræðisherrans hafði Krútsjov náð að klóra sig til valda með hjálp þjóðhetjunnar Georgi Zhukovs hershöfðingja, sem hafði handtekið Beria leynilögregluforingja, sem var grimmastur allra „embættismanna“. Krútsjov tók þá miklu áhættu að flytja „leyniræðuna“ um Stalín fyrir kjarna flokksins, sem mætt hafði nú, eins og síðustu áratugi, á fundi Æðstaráðsins. En Zhukov var ekki langt undan núna og eins og nærri má geta þá sleppti nýi aðalritarinn æði mörgu, enda höfðu allir valdamestu komissararnir verið meðvirkir þátttakendur í öllum þeim ósköpum, morðum og pyntingum, auðvitað fyrst og seinast vegna þess að þeir lifðu sjálfir í samfelldum ótta sem ýtt var undir og töldu að einungis samfelldur undirlægjuháttur gagnvart Stalín gæti gefið þeim og nánustu fjölskyldu þeirra lágmarkslíftryggingu.

Og það hafði vissulega haldið þeim við efnið að reglubundið hurfu menn í fangabúðir eða í fang dauðans, eftir því hvernig stóð í bólið hjá einræðisherranum og þar á meðal voru menn sem félagarnir töldu að væru vel settir, eins og þeir sjálfir væru.

Og loks einnig önnur bók

En Montefiore hefur hvergi gefið eftir í skrifum sínum og útgáfum og bækur hans eru fjölbreyttar og hafa verið gefnar út á tugum tungumála. Bókin sem bréfritari fékk aðgang að nú nýlega er meira en 600 síður, en þó er hún þægileg til lesturs. Ástæðan er ekki síst sú að hún er í fjölmörgum stuttum köflum um fræga menn af blöðum sögunnar, þó að sálarlíf og skapferli þeirra sé með ýmsu móti.

Bókin hefst á þriggja síðna kafla um Ramses, hinn mikla, sem gert er ráð fyrir að hafi fæðst 1302 f.Kr. og dáið 1233 f.Kr. Og sögufrægar persónur úr mannkynssögunni birtast hver af annarri og eru sumar þeirra „risar sögunnar“ og í tímaröð og ekki eru allar þær persónur með hreinan skjöld. En nöfnum þeirra og aldri er vel til skila haldið. Og þess vegna kemur það næstum því á óvart að sá síðasti sem bókin kynnir til sögunnar á sínum fáu síðum fyrir hvern er ekki nafngreindur, enda verður ljóst í bókarlok að höfundurinn hefur ekki tök á því.

En það kemur ekki að jafnmikilli sök og ætla mætti fyrir fram, því að nær allur heimurinn hefur séð hetjuna á myndum og hefur dáðst að honum og litið á hann sem einn af risum sögunnar, og ekki minnsta risann, þótt hann sé nærri ósýnilegur. Ekki fer endilega illa á því að nefna af handahófi, en þó í tímaröð, nokkrar ævismásögur Montefiore og koma þær í kjölfar Ramsesar mikla. Þar eru Davíð og Salómon, Sappho skáldkona og Búdda. Hann var spurður: „Ertu Guð?“ „Nei,“ svaraði hann. „Ertu töframaður?“ „Nei.“ „Ertu maður?“ „Nei.“ „Hver ertu þá?“ „Ég er vakandi,“ var svar Búdda.

Næstir í röðinni

Þá koma Konfúsíus, Alexander mikli, Júlíus Sesar, Ágústus og Livia. Þar skömmu síðar Ríkharður ljónshjarta, Genghis Khan, Jóhanna af Örk og Ríkharður III, sem fannst undir bílaplaninu sællar minningar. Þá má nefna Michelangelo, sem er marg-eilífur þó ekki væri nema fyrir snilldarverk hans í Páfagarði og víðar. Þá Hinnrik VIII, sem gat verið háskalegur, en var seigur sem tónskáld. Þá Ívan grimmi, Louis kóngur og Casanova. Þá er skotist vestur til Washington, fyrsta forseta stórríkisins, og bankað upp á í Hvíta húsinu. Og þá er komið að Thomas Jefferson: „J.F. Kennedy forseti hélt kvöldverðarboð löngu síðar fyrir 49 bandaríska nóbelsverðlaunahafa í Hvíta húsinu og sagði þá: „Ég leyfi mér að halda því fram, að aldrei áður hafi önnur eins þekking og aðrar eins og jafnmiklar gáfur og mikið vit verið samankomið hér í kvöldverði í Hvíta húsinu og er í kvöld.“ Svo hafði John F. Kennedy kúnstpásu og bætti við: „Nema þá helst hafi það gerst þegar Thomas Jefferson forseti borðaði hér einn.“

Og svo haldið sé áfram með röðina kemur að Mozart. Um hann sagði Richard Strauss: „Mér er ómögulegt að skrifa um Mozart. Ég get aðeins dásamað hann.“ Þá Byron, Pushkin, Abraham Lincoln, Darwin. Þá Bismarck sem sagði: Stjórnmál eru list hins hugsanlega, það sem þá blasir við er það sem má ná og er það því aðeins list hins næstbesta.

Þá Florence Nightingale, Tolstoy og Sarah Bernhardt, en um hana sagði Mark Twain: „Það eru til fimm tegundir af leikkonum. Slæmar leikkonur, allt í lagi leikkonur, góðar leikkonur, frábærar leikkonur og svo er það Sarah Bernhardt.“

Þá Mahatma Gandhi. Um Gandhi sagði Stafford Cripps: „Ég hef ekki rekist á annan mann á okkar tíð, eða í nálægri sögu, sem hefur betur en hann undirstrikað vald andans yfir efninu.“ Þá er það Lenín. Montefiore dregur upp einstaka mynd og ógeðfellda af honum, í fáum orðum. Churchill: John Kennedy forseti sagði þegar hann afhenti skjal þar sem Churchill var gerður að heiðursríkisborgara Bandaríkjanna: „Hann hervæddi enska tungu í heimsstyrjöldinni síðari og sendi hana í bardagann.“

Þá Stalín, Einstein, Atatürk, Picasso sem sagði: „Málverkum er ekki ætlað að skreyta veggi íbúða. Þau eru bæði árásar- og varnarvopn.“ Mussolini, David Ben Gurion: „Í Ísrael er eini kosturinn sem þú hefur, þegar þú segist vera raunsæismaður, að trúa á kraftaverk.“

Adolf Hitler. Nehru. Mao Zedong. Nikita Krútsjov sagði: „Þegar mér verður litið á Maó, þá sé ég Stalín. Þetta er fullkomin eftirmynd.“ Al Capone sagði: „Staðreyndin er sú að þér verður miklu betur ágengt, ef þú gætir þess að viðhafa vingjarnleg orð, auk skammbyssunnar, en ef þú ert eingöngu með skammbyssuna!“ Lavrenti Beria: „Leyfðu mér að sitja með honum í eina kvöldstund og ég mun fá hann til að játa að hann sé konungur Englands.“

Hemingway. Ayatollah Khomeini og Deng Xiaoping: „Það breytir ekki öllu hvort kötturinn er svartur eða hvítur. Aðeins að hann veiði mýs.“ Þá Nasser: „Ég hef stundað samsæri svo lengi, að ég gruna alla í kringum mig um græsku.“ Mandela. Reza Pahlavi Íranskeisari: „Ráðgjafar mínir reistu múr á milli mín og þjóðar minnar og ég gerði mér ekki grein fyrir því, hvað var að gerast. Þegar ég loks rumskaði hafði ég týnt þjóðinni.“

Margaret Thatcher: „Ég er alveg sérstakega þolinmóð og set ekki önnur skilyrði en þau, að mín lausn verði samþykkt í lokin.“ Anne Frank. Elvis. Saddam Hussein.

Hið óþekkta ofurmenni.

Montefiore minnir okkur á að 5. júní 1989 hafi Kommúnistaflokkur Kína brotið niður andóf námsmanna á Torgi hins himneska friðar. Ungur maður stillti sér upp fyrir framan skriðdrekabyssu, þegar reynt var að aka skriðdrekanum út af torginu. Aftur og aftur stillti hann sér upp fyrir hlaupið, hvernig sem skriðdrekinn hreyfði sig. Þá loks var drepið á vél skriðdrekans. Stökk þá stúdentinn upp á forystudrekann og ásakaði yfirmann hans þar fyrir að hafa eytt miklu saklausu blóði á torginu. Þessi hetja hefur í tali manna verið kölluð „skriðdrekamaðurinn“ eða „Óþekkti andófsmaðurinn“. Þrátt fyrir töluverða leit hefur enginn fundið út nafn skriðdrekamannsins eða hvað varð af honum. Fullyrt hefur verið að skriðdrekamaðurinn hafi verið tekinn af lífi, en aðrir fullyrða að hann sé enn lifandi einhvers staðar í Kína. Tímaritið Time kaus hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum tuttugustu aldarinnar. Síðar varð önnur uppreisn og eftir að hafa farið með löndum um hríð kallaði Deng Xiaoping æðstu menn á sinn fund og sagði þeim að þeir hefðu sýnt umburðarlyndi nægjanlega lengi og hann gæfi þeim nú fyrirmæli um að grípa inn í. Út frá sjónarmiðum valdamanna heppnaðist sú aðgerð þeirra. Jiang Zemin, forseti Kína, kom í heimsókn til Íslands og átti góða för. Hann var spurður, þó ekki á Íslandi, hvort skriðdrekahetjan hefði verið líflátin og sagði hann að það væri af og frá að hann hefði verið tekinn af lífi.

Lengra eru menn ekki komnir og verða það seint.