Jón Gnarr á Hótel Holti í vikunni.
Jón Gnarr á Hótel Holti í vikunni. — Morgunblaðið/Eyþór
Við þurfum að koma á einhverri óformlegri þjóðarsátt. Við hljótum að átta okkur á því að við verðum einhvern veginn að nýta náttúruauðlindir okkar og það þarf að vera einhver málamiðlun.

Jón Gnarr situr ekki auðum höndum þessa dagana. Eflaust þætti einhverjum nóg að vera í forsetaframboði en Jón lætur það ekki nægja því hann er í vinnu við tökur á sjónvarpsþáttum sem eru í bígerð frá 6 á morgnana til 18 á daginn. Að tökum loknum á þriðjudegi ræðir hann við Sunnudagsblaðið á Hótel Holti en þar hafa hann og félagi hans Sigurjón Kjartansson fundað um margvísleg verkefni í gegnum tíðina. Hvenær fór Jón að velta fyrir sér framboði til forseta Íslands?

„Í byrjun janúar var ég fyrir norðan í Eyjafirði og við vorum að hefja æfingar á leikritinu And Björk of course hjá Leikfélagi Akureyrar. Ég bjó til að byrja með í Leifshúsum og var bara einn með hundinum mínum. Ég var taggaður á samfélagsmiðlum þar sem einhver var að velta fyrir sér hvort ég ætlaði að bjóða mig fram. Ég nefndi þetta við konuna mína þegar hún kom norður og hún tók ekki vel í það. Hún spurði hvort ég vildi vera að bæta á mig fleiri verkefnum, og auka álagið frekar, en mig langaði einhvern veginn að gera þetta. Við ræddum þetta aftur síðar og þá sagðist hún ekki ætla að draga úr mér að bjóða mig fram en vildi að ég gætti þess að láta framboðspælingar ekki trufla frammistöðuna í leikhúsinu. Um miðjan febrúar var búið að frumsýna leikritið en þá virtist þetta þegar vera í umræðunni. Ég ræddi málið við krakkana mína, vini og fleira fólk sem ég ber virðingu fyrir. Ég ákvað láta slag standa og sjá hvernig þetta færi,“ segir Jón sem sinnt hefur ýmsum störfum á starfsferlinum. Áður en hann sló í gegn sem skemmtikraftur starfaði hann sem leigubílstjóri og líkaði afskaplega vel.

Í persónukjöri eins og forsetakosningum þurfa frambjóðendur að stíga fram í sviðsljósið og telja kjósendum trú um að þeir séu besti kosturinn í embættið.

„Það hentar mér ekkert rosalega vel. Ég hef verið opinber persóna en konan mín hefur ekki verið áberandi. Og við höfum haldið okkar einkalífi og fjölskyldu frá sviðsljósinu að mestu. Þegar ég var borgarstjóri reyndi hún í lengstu lög að forðast athygli. En í því embætti breyttist ýmislegt hvað einkalífið varðar því þá fór fólk að velta fyrir sér hvar ég gætti heima eða hvernig væri um að litast heima hjá mér. Ég var ekki spenntur fyrir því en finnst eðlilegt að fólk fái slíkar upplýsingar ef það hefur áhuga á þeim. Maður gerir sér grein fyrir því að óþægilegir hlutir úr fortíðinni geta verið rifjaðir upp í kosningabaráttunni og maður þarf þá að horfast í augu við það. Það var einn af lykilþáttunum sem ég velti fyrir mér en ég tel ekki vera neitt í minni fortíð sem ég er ekki tilbúinn að horfast í augu við. Þótt eitthvað kunni að vera óþægilegt,“ segir Jón og hann segir kosningabaráttuna hafa komið sér á óvart.

Forsetinn er góður fyrirliði

„Hún er miklu pólitískari en ég átti von á en það helgast fyrst og fremst af því að Katrín Jakobsdóttir og Baldur Þórhallsson eru sterkir frambjóðendur með mikla pólitíska tengingu. Mér fannst Baldur vera strax með pólitískar áherslur í sínu ávarpi og nánast eins og hann væri að bjóða sig fram til þings. Katrín kemur beint úr ríkisstjórninni inn í kosningabaráttuna eftir að hafa sagt sig frá forsætisráðherra embættinu. Ég átti von á því að pólitíkin yrði hluti af þessu en hélt að þetta yrði fjölbreyttara. Umræðan um málskotsréttinn hefur verið áberandi. Staða forsetans gagnvart Alþingi, lagasetningu og stjórnarmyndunum er þó eitthvað sem má gefa gaum því pólitískt vald forsetans er svolítið afstætt,“ segir Jón en að hans mati er forsetinn í takti við stemninguna í landinu á hverjum tíma.

„Fyrir mér er forsetinn stemningsmaður. Þá á ég við einstakling sem er í nánu sambandi við íslensku þjóðina, fylgist vel með því sem er í gangi og skynjar andann í samfélaginu. Forsetinn getur blásið þjóðinni hugrekki í brjóst þegar á móti blæs. Huggar og styrkir þegar áföll verða en gleðst með þjóðinni þegar vel gengur. Er umboðsmaður þjóðarinnar inn á við og fulltrúi hennar út á við. Það finnst mér fyrst og fremst vera hlutverk forseta Íslands. Þessu mætti kannski líkja við góðan fyrirliða í íþróttaliði sem þjappar fólki saman og gætir þess að enginn verði út undan. Jafningi annarra sem hefur víðtækara hlutverk.“

Ólíkar persónur í embættinu

Jón bendir á að einstaklingarnir sem gegnt hafa embættinu séu ólíkir. „Forsetarnir eru jafn ólíkir og þeir eru margir enda er ekki til nákvæm starfslýsing. Vigdís, Ólafur Ragnar og Guðni Th. eru gerólík í þessu starfi en hafa öll verið stemningsfólk. Á sinn persónulega hátt voru þau í tengslum við þjóðina. Einhverjir gagnrýndu Ólaf Ragnar fyrir að vera of tengdur viðskiptalífinu á sínum tíma en mér finnst það ekki. Þetta var bara stemningin á þeim tíma. Þá buðust ýmis viðskiptatækifæri sem við höfðum ekki þekkt áður og mér fannst forsetinn ekki gera neitt rangt með því að taka þátt í því. Hann gat ekki séð það fyrir frekar en aðrir að þetta færi illa og slíkur dómur þykir mér ósanngjarn. Ólafur Ragnar var bara maður síns tíma,“ segir Jón og bætir því við að þau sem á undan hafa gengið á Bessastöðum hafi gjarnan lagt áherslu á einhver málefni sem þeim eru hugleikin. Í hans tilfelli yrði það tengt menningu.

„Minn styrkleiki og bakgrunnur er menning og listir. Þar finnst mér vera mikil sóknarfæri, ekkert síður en í viðskiptum. Reyndar eru menning og listir nátengd viðskiptum. Mjög spennandi tækifæri í atvinnu uppbyggingu eru tengd listum og menningu, ekki síst í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu. Ég myndi vilja leggja vinnu í að tengja saman íslenska og erlenda aðila og beita áhrifum forsetans til þess. Iðnaðurinn er fjölbreyttur og býr til svo mörg tækifæri. Ég myndi líklega leggja meira upp úr því að byggja upp slík tengsl heldur en pólitísk tengsl. Ég myndi hafa meiri áhuga á að eiga fund með Taylor Swift heldur en Joe Biden,“ segir Jón og hlær sínum smitandi hlátri en bætir við. „Nei í alvöru talað. Ég held að það yrði meiri fengur í því.“

Vaxandi neikvæðni á Íslandi

Jón Gnarr er vitaskuld landsþekktur fyrir að kitla hláturtaugar landans hvort sem það er í sjónvarpi, kvikmyndum, útvarpi eða sviði. Hann hefur talað um í kosningabaráttunni að við Íslendingar megum vel við því að minnka leiðindin í dægurþrasinu og færir fyrir því rök.

„Hér er vaxandi neikvæðni og mér finnst það vera orðið ansi alvarlegt mál á Íslandi. Ég hef kallað þetta offramboð á leiðindum. Þetta er mér hjartans mál því mér finnst vera að myndast gjá á milli fólks. Mér finnst það vera óþarfi og þetta er skaðlegt. Gjá milli höfuðborgar og landsbyggðar er klassísk íslensk gjá. Hún er á vissan hátt að stækka og mig langar að vinna gegn því. Ég myndi einnig vilja bæta líf innflytjenda á Íslandi eins og Pólverja. Hjálpa þeim að aðlagast betur íslenska samfélaginu og hjálpa Íslendingum að aðlagast þeim til að Pólverjar verði ekki jaðarhópur í íslensku samfélagi,“ segir Jón og kemur með athyglisvert innlegg um hið svokallaða góða og vonda fólk.

„Auk þess hafa orðið til nýir hópar á undanförnum árum sem kallaðir eru góða og vonda fólkið. Ég þekki þetta fólk allt saman. Góða fólkið er ekkert sérstaklega gott og vonda fólkið er ekkert sérstaklega vont. Mig langar til þess að draga úr þessum núningi og vinna saman. Tökum nýtingu á náttúruauðlindum sem dæmi. Við þurfum að koma á einhverri óformlegri þjóðarsátt. Við hljótum að átta okkur á því að við verðum einhvern veginn að nýta náttúruauðlindir okkar og það þarf að vera einhver málamiðlun. Við getum ekki bara lifað með ósnortinni náttúru. Við verðum líka að hafa í okkur og á. Við verðum að hafa einhverja atvinnusköpum. Um þetta þarf að nást einhvers konar samkomulag og ég gæti verið einstaklingur sem gæti hjálpað til við það því ég held ég njóti virðingar og trausts út fyrir alla pólitík.“

Húsið á sléttunni hafði áhrif

Jón Gnarr er alinn upp í Fossvoginum í Reykjavík. Hann fann sig ekki vel í grunnskóla vegna námsörðugleika tengdum ofvirkni og lesblindu en þar sem Jón er landsþekktur maður hefur saga hans verið ágætlega skjalfest og þarf ekki að rekja alla hér. Spurður um fyrirmyndir sem hann hafi kynnst á lífsleiðinni segir Jón eiginkonuna Jógu Gnarr Jóhannsdóttur vera stærstu fyrirmyndina. Úr listinni nefnir hann Þórberg Þórðarson, Ladda og Gísla Halldórsson leikara. Jón veltir fyrir sér hvort hann hafi einnig átt fyrirmyndar í skáldskapar persónum.

„Ef ég myndi skoða það þá er ég viss um að Laura Ingalls í Húsinu á sléttunni hafi haft ofboðslega mikil áhrif á mig en ég held að ég hafi séð alla þættina og suma oftar en einu sinni. Sem krakki fann ég mjög sterka tengingu við Andrés Önd. Hann er vel meinandi, oft fljótfær, svolítið seinheppinn og lendir í ævintýrum sem hann sleppur þó alltaf lifandi úr. En mér leiddist Mikki mús, afskiptasamur og hálfgerð kjaftatík, á meðan Andrés var meira í sínu eins og að ala upp ungana. Kannski rímar þetta við sjálfsmynd mína þegar ég var krakki því ég sá fyrir mér að lífið yrði eitthvert bras.“

Drengurinn sem sá ekki fyrir sér stóra sigra í uppvextinum varð borgarstjóri og er nú með talsvert fylgi í forsetakosningum, ef marka má kannanir.

„Það get ég þakkað góðu fólki sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Ég gæti nefnt marga en Jenna Jensdóttir rithöfundur og Guðrún J. Halldórsdóttir sem var skólastjóri námsflokka Reykjavíkur koma til dæmis upp í hugann. Þegar ég 15 eða 16 ára þá höfðu þær áhuga á mér og vildu hitta mig til að segja mér að ég væri efnilegur ungur maður sem hefði alla burði til að láta að sér kveða í lífinu. Aldrei hafði neinn sagt þetta við mig og þetta sat í mér. Ég hugsa með hlýhug til þeirra. Þær þekktu mig ekki neitt en vildu hvetja mig áfram. Þær veittu mér sjálfstraust sem ekki var til staðar.“