Um daginn voru mæðgur „farnastar“ og því meira farnar en aðrir sem voru á förum.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Tungumálið tekur sífelldum breytingum og verður sú þróun seint stöðvuð. Nýir hlutir verða til sem þurfa ný orð, tækninni fleygir fram með öllum þeim nýyrðum sem henni fylgja og unga kynslóðin talar allt öðruvísi en við sem erum komin af léttasta skeiði. Krakkar sem alast upp við að heimsækja afa og ömmu njóta góðs af því að læra góð og gild íslensk orð og jafnvel önnur sem eru dönskuskotin. Í dag eru orðin frekar enskuskotin, enda danskan ekki lengur smart.

Svo eru önnur orð beinlínis í tísku og guði sé lof, þá detta þau mörg hver aftur úr tísku. Um árið var til að mynda mjög vinsælt að nota orð eins og brúðkaupsfín eða afmælisfín. Nýjasta nýtt er að setja orð í efsta stig; orð sem eiga alls ekkert heima þar. Eins og mættastur eða mættust. „Ég er mættust í veisluna!“ Já, þannig að þú ert líklega meira mætt en hinir, eða hvað? Um daginn voru mæðgur „farnastar“ og því meira farnar en aðrir sem voru á förum. Ég vona að þetta sé ekki komið til að vera! Segi ég um leið og ég átta mig á að „komið til að vera“ er bein þýðingu úr ensku!

Burtséð frá orðaforðanum sem landinn tileinkar sér er stafsetningin eitthvað sem mætti hafa verulegar áhyggjur af. Ypsílon er gjarnan sett þar sem það á ekki heima og ekki sett þar sem það á heima. Daglega rekst maður á fólk skrifa orð vitlaust; hlæja verður hlægja, nóg verður nó og svo virðist sem fólk eigi líka erfitt með beygingar. Fáir virðast lengur geta beygt orðið læknir. Þolfallið verður iðulega nefnifall, með greini. „Ég var að tala við læknirinn“ segja margir, í stað þess að segja lækninn. Þetta er orðin viðtekin venja. Þarf ekki að fara leggja meiri áherslu á stafsetningu í skólum landsins?

Nú er mikið rætt um kynlaust tungumál og sitt sýnist hverjum. Rúv vill útrýma orðinu maður úr tungunni, sem gæti reynst þrautin þyngri og hljómar líka oft svo undarlega, eins og orðin Bandaríkjafólk og Ísraelsfólk. En kannski venst þetta allt með tíð og tíma, ég skal ekki segja. Sjálf er ég alveg sátt við að vera blaðamaður, enda lít ég svo á að konur séu líka menn. Það eru sannarlega alltaf alls kyns pælingar í gangi hvað varðar okkar ilhíra. Afsakið, ylhýra.

Orðanotkun vefst oft fyrir unga fólkinu og þá er um að gera að kenna því og leiðbeina. Um daginn var kona að tala við ungan afgreiðslumann og benti á það sem hana vanhagaði um í hillunni á bak við hann. Ekki gat hún alveg valið á milli tveggja hluta og endaði á að segjast ætla að fá hvort tveggja. Ungi afgreiðslumaðurinn varð eins og spurningarmerki í framan og skildi ekki þessa bón. Ung stúlka kom honum til bjargar:

„Ég lenti í þessu um daginn, hún er að meina bæði.“