Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir
Þar treysti ég Katrínu. Hún hefur sýnt að hún getur sameinað fólk með ólík sjónarmið og leitt til niðurstöðu í flóknum málum.

Kristín Einarsdóttir

Nú fer að líða að kosningum til forseta Íslands. Sem betur fer er margt gott fólk í framboði og því ættu landsmenn að geta valið þann sem þeim hugnast best að eigi erindi í embættið. Landsmenn hafa fengið tækifæri til að kynna sér frambjóðendur í ágætum sjónvarpsumræðum á RÚV og í viðtölum og þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Margir eru því búnir að gera upp hug sinn þótt sumir láti það bíða til síðasta dags að ákveða hvað skuli kjósa. Það sem mér hefur þótt merkilegast við að fylgjast með kosningabaráttunni er hvað fólk er óvægið í gagnrýni. Það er eins og öll kurteisi og lýðræðisleg hugsun sé fokin út í veður og vind hjá sumum. Notuð eru orð um svo kallaðan andstæðing sem erfitt er að hugsa sér að fólk meini í raun og veru. Jafnvel er fólk sem stígur fram og lýsir stuðningi við Katrínu úthrópað. Hvað er eiginlega í gangi?

Þegar Katrín Jakobsdóttir ákvað að hætta afskiptum af stjórnmálum og bjóða sig fram sem forseta var ég nokkuð ákveðin strax að hún væri minn forseti. Ég hef reynt að fylgjast með umræðum og kynningu á frambjóðendum og verð ávallt sannfærðari og ákveðnari í þeirri skoðun minni. Katrín einfaldlega ber af í allri framgöngu og málflutningi. Það kom auðvitað ekki á óvart. Hún hefur staðið sig frábærlega í þeim störfum sem hún hefur tekið að sér þótt vissulega hafi ég ekki alltaf verið sammála þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið á undanförnum árum. Forsætisráðherra í þriggja flokka ríkisstjórn þar sem hennar flokkur er sá minnsti hlýtur oft á tíðum að hafa verið flókið viðfangsefni. En ég er ekki að kjósa forseta til að taka að sér pólitískt starf heldur er ég að kjósa fulltrúa þjóðarinnar sem getur tekið á viðkvæmum málum og hafið sig yfir pólitísk ágreiningsefni. Þar treysti ég Katrínu. Hún hefur sýnt að hún getur sameinað fólk með ólík sjónarmið og leitt til niðurstöðu í flóknum málum. Á erlendum vettvangi hefur hún verið frábær fulltrúi þjóðarinnar og mun verða landinu til sóma.

Katrín Jakobsdóttir ber af mörgum góðum frambjóðendum til forseta og þess vegna styð ég hana.

Höfundur er fyrrverandi þingkona Kvennalistans.