Samfélag höfunda „Fólk getur skrifað í samfélagi við aðra og það gerir þetta miklu skemmtilegra og ríkara.“
Samfélag höfunda „Fólk getur skrifað í samfélagi við aðra og það gerir þetta miklu skemmtilegra og ríkara.“ — Ljósmynd/Eva Schram
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um fimmtán ár eru liðin frá því að ritlist var gerð að fullgildri námsgrein við Háskóla Íslands og á þeim tíma sem liðinn er hafa hundruð höfunda útskrifast. Þeir hafa sett mark sitt á íslenskt bókmenntalíf og sópað til sín verðlaunum og viðurkenningum

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Um fimmtán ár eru liðin frá því að ritlist var gerð að fullgildri námsgrein við Háskóla Íslands og á þeim tíma sem liðinn er hafa hundruð höfunda útskrifast. Þeir hafa sett mark sitt á íslenskt bókmenntalíf og sópað til sín verðlaunum og viðurkenningum.

Rúnar Helgi Vignisson, sem siglt hefur skútunni frá því að námið var gert að aðalgrein, segir kennslu í ritlist þó eiga sér lengri sögu hér á landi. „Sumir nefna Snorra-Eddu sem fyrstu ritlistarkennslubókina. Svo var víst einhver ritlistarskóli í byrjun 20. aldarinnar. En í Háskólanum er Njörður P. Njarðvík frumkvöðull í ritlistarkennslu. Það var hann sem barðist fyrir því að kenna ritlistarnámskeið og gerði það fyrst árið 1987.“

Bókmenntaþjóðin lifir

Njörður gerði ritlistina að aukagrein á BA-stigi og enn er boðið upp á þann kost. „Árið 2008 var hún gerð að fullgildri námsgrein til BA-prófs og þá var ákveðið að ráða lektor til þess að sjá um að byggja upp námið. Ég var svo heppinn að fá það starf. Þetta var í hruninu og við fengum strax mikinn fjölda nemenda, á annað hundrað manns sátu inngangsnámskeiðið haustið 2009. Við vorum öll úrvinda eftir að reyna að koma þeim hópi í gegn enda er smiðjukennsla ekki hugsuð fyrir þetta stóran hóp. Við ákváðum fljótlega að færa aðalnámið yfir á meistarastig, meðal annars til þess að geta betur haldið utan um fjöldann. Við settum fjöldatakmarkanir og höfum tekið inn 15 til 25 nemendur á hverju ári. Þá má segja að þetta nám hafi farið á flug.“

Rúnar starfaði lengi einn sem greinarformaður en fyrir fjórum árum var Huldar Breiðfjörð ráðinn til starfa með honum. „Hann kemur með svolítið aðrar áherslur. Hann er með sterkan bakgrunn í handritagerð og svarar þessum aukna áhuga á skrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp í samfélaginu. Með honum eykst breiddin í náminu,“ segir Rúnar. „Við höfum byggt námið upp sem bland í poka. Það er í rauninni ekki nema eitt námskeið sem er skylda. Þar fyrir utan geta nemendur valið sér smiðjur og búið til áherslur í sínu námi. Smiðjuframboð er aldrei það sama frá ári til árs. Við viljum með þessu koma í veg fyrir að útskriftarnemar okkar verði of keimlíkir.“

Rúnar segir einnig mikilvægt að nemendahópurinn sé ekki of einsleitur og því geta nemendur úr öðrum greinum en bókmenntafræði og íslensku sótt um inngöngu en þurfa þá að bæta við sig einni önn af bókmenntakúrsum. „Við viljum að allir okkar útskriftarnemar séu vel lesnir í bókmenntum. Fólk getur því til dæmis komið úr raungreinum en þarf þá að bæta við sig einu misseri.“

Hann segir að aðsóknarmet hafi verði slegið í ár en um fjórðungur umsækjanda verður tekinn inn að þessu sinni. „Bókmenntaþjóðin lifir alla vega þarna. Mjög mörg okkar langar að skrifa og reyna að koma einhverju frá okkur þó að ýmis teikn séu á lofti í bókmenntaheiminum. Ég held að þetta hafi eitthvað með sköpunargleðina að gera, fólki þykir gaman að skapa og vera í umhverfi sem stuðlar að því.“

Rjúfa einsemd höfundarins

Spurður hvað nemendurnir fái út úr ritlistarnáminu og hvort höfundar þurfi yfirhöfuð á slíku námi að halda segir Rúnar:

„Það hafa ekki fengist einhlít svör við því hvort hægt sé að kenna ritlist. En við sköpum aðstæður þar sem fólk getur æft sig. Ritlistarnámið er eins konar æfingabúðir. Fólk getur skrifað í samfélagi við aðra og það gerir þetta miklu skemmtilegra og ríkara. Það er stöðugt samtal í gangi og í gegnum samtalið, bæði um þeirra eigin texta og texta samnemenda, byggist smátt og smátt upp aukin vitund um það sem þau eru að gera. Þannig verða nemendurnir að samkennurum. Námið flýtir fyrir fólki að ná tökum á ýmsum atriðum sem lúta að ritlist og færir nemendum samfélag sem fylgir þeim oft út um dyrnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að rjúfa þannig einsemd rithöfundarins.“

Á ári hverju gefa nemendurnir í ritlist út safnrit með eigin textum í samstarfi við nemendur í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. „Nýjasta safnritið, Gestabók, kom einmitt út fyrir nokkrum dögum. Það er alltaf mikill hátíðisdagur,“ segir Rúnar.

Í kynningartexta um bókina segir meðal annars: „Smásagnasveigurinn Gestabók hverfist um veislu og gestina sem þangað koma, flestir að því er virðist fremur af skyldurækni en löngun. Þar er sagt frá kvöðinni sem boð í veislu getur verið, en líka þessu undarlega samsafni fólks sem þar mætist. Fjölskyldubönd teygjast og trosna og sambönd flækjast og leysast upp. Í stutta stund er þetta fólk statt á sama stað og sama tíma, en fyrir utan veisluhöldin heldur lífið áfram. Hlaðborðið er óþrjótandi og gestabókin fyllist smátt og smátt.“

En hvaða áhrif hefur þetta nám á bókmenntalífið?

„Ég held að það fari ekki milli mála að fólk sem hefur komið héðan hefur auðgað íslenskt bókmenntalíf,“ segir Rúnar og bætir við að þær bækur sem fyrrverandi ritlistarnemar hafi gefið út síðustu fimmtán árin séu að nálgast þrjú hundruð. „Við erum að fá mikið af efni sem við hefðum líklega ekki fengið ella. Þau bæta líka ýmsu við bókmenntalífið sjálft. Þau hafa verið mjög dugleg að búa til alls konar viðburði og samfélög utan um það sem þau hafa verið að gera.“

Hann nefnir sem dæmi samfélag Svikaskálda, bókaútgáfuna Tunglið og Ástarsögufélagið. Fyrrverandi ritlistarnemar hafa einnig staðið fyrir ráðstefnum um furðusögur, búið til námsefni í íslensku fyrir innflytjendur, sett á fót smásagnavefinn Stelk og ritunarvefinn Ronju þar sem hægt er að finna ýmsar ritlistaræfingar, auk þess að standa fyrir upplestrarviðburðum og ritsmiðjum af ýmsu tagi.

Þá segir Rúnar að ritlistarnemarnir skrifi fjölbreytt. „Þau hafa til dæmis verið frumkvöðlar í furðusagnaskrifum. Alexander Dan og Hildur Knútsdóttir eru mjög sterk á því svelli. Eins vil ég nefna sannsögur, sem er þýðing mín á „creative non-fiction“. Það er sannsögulegt efni þar sem höfundur notar sjálfan sig sem sögumann og beitir aðferðum sagnalistarinnar til að miðla efninu. Eins hafa þau aukið grósku í ljóða- og smásagnagerð,“ segir hann.

Af einurð og einlægni

Heldurðu að það geti farið svo að rithöfundar verði ekki teknir alvarlega ef þeir eru ekki með háskólagráðu í faginu?

„Sem prófessor í ritlist ætti ég ekki að segja það sem ég ætla að fara að segja. En mér finnst mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að höfundar verði til eftir ýmsum leiðum. Það hentar ekki öllum að koma í nám í ritlist. Ég vil að höfundar komi úr öllum geirum mannlífsins, til dæmis vantar okkur fleiri höfunda úr hópi sjómanna. Og þó að mörgum nemendum hafi vegnað vel þá er námið engin trygging fyrir því að þeir verði góðir höfundar,“ segir Rúnar.

„Ég held samt að það hjálpi öllum að fara hérna í gegn, ég fer ekkert ofan af því. Ég þykist hafa nógu mikla reynslu til að vita hvað það verða miklar framfarir á námstímanum. Allt í einu tekur einhver flugið og það er ofboðslega gaman að fylgjast með því. Við erum vissulega stolt af okkar nemendum. Við sem leiðum smiðjurnar leggjum hjarta okkar í þetta nám, í að vinna með þátttakendum af einurð og einlægni. Þetta er mjög persónuleg kennsla og maður kynnist nemendunum vel. Það geta verið miklar tilfinningar í spilinu og það verður að ríkja ákveðið traust til að þau þori að prófa sig áfram. Starfið er þess vegna mjög gefandi,“ segir hann.

„Mér finnst gaman að fylgjast með gömlum nemendum og er í góðu sambandi við mörg þeirra. Ég fyllist alltaf stolti þegar einhverju þeirra gengur vel. Þau hafa verið tilnefnd til eða unnið öll helstu bókmenntaverðlaun landsins. Þetta eru svo mörg verðlaun að það getur ekki verið tilviljun,“ segir Rúnar að lokum.