„Mér sárnar dálítið þegar verið er að tala um að forseti hafi ekki völd, því hann hefur mikil völd og þau geta skipt miklu máli,“ segir forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson.
„Mér sárnar dálítið þegar verið er að tala um að forseti hafi ekki völd, því hann hefur mikil völd og þau geta skipt miklu máli,“ segir forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson. — Morgunblaðið/Arnþór
Það er sótt að lýðræði og mannréttindum í heiminum og þá er annaðhvort að skríða upp í rúm og breiða yfir höfuð, eða stíga fram úr og spyrna á móti. Og ég er nú að spyrna á móti. Ég býð krafta mína fram til þess að standa vaktina.

Ys og þys er á kosningaskrifstofu Baldurs Þórhallssonar og dásamlegur vöffluilmur í loftinu. Baldur tekur glaðlega á móti blaðamanni, reffilegur í fánalitunum; bláum jakkafötum, hvítri skyrtu með rautt bindi. Við finnum okkur afdrep þar sem við fáum næði til að spjalla um manninn, embættið og hvaða málefni Baldur vill leggja áherslu á, verði hann kjörinn sjöundi forseti lýðveldisins.

Vildi verða bóndi eins og afi

„Ég kem frá miklu sjálfstæðisheimili þar sem rætt var um stjórnmál, daginn út og inn, og mikið skipst á skoðunum,“ segir Baldur en hann er alinn upp á bænum Ægissíðu í Rangárþingi og er því sannkallaður sveitapiltur, sonur rafvirkja og verslunareiganda.

„Mikil áhersla var lögð á að við systkinin menntuðum okkur og vorum við alin upp við að ekkert væri ómögulegt, að engar dyr væru lokaðar.“

Var ykkur hrósað?

„Það var nú sparað hólið í sveitinni og lögð áhersla á hæversku og kurteisi. Og aldrei að hreykja sér,“ segir hann og brosir.

„Ég lærði mest á því að snemma var sett á mig mikil ábyrgð; átta ára var ég að passa systur mína og setja ýsu í pott. Mesta ábyrgðin fólst þó í bústörfunum hjá afa sem ég fylgdi hvert fótmál,“ segir Baldur og segist hafa keypt búið af afa sínum fjórtán ára gamall.

„Ég lærði mikla fyrirhyggju af bústörfunum því maður þarf að eiga fyrir löngum og hörðum vetri,“ segir hann og segist hafa tekið allt sitt sparifé og notað til kaupanna, en fyrsta launaða vinnan var í vegagerðinni þegar hann var ellefu ára.

„Mér fannst rosalega gaman að fá að taka þátt í að malbika síðasta spölinn að Hellu,“ segir Baldur sem síðar fór að vinna við að búa til skeifur og þaðan lá leiðin í byggingarvinnu og skúringar.

Baldur flutti sextán ára á heimavist Menntaskólans á Laugarvatni þar sem hann hélt áfram að rökræða um stjórnmál, nú við vini sína og kennara. Auk þess var mikið teflt, spilað bridds og að sjálfsögðu var kíkt á sveitaböll um helgar.

„Ég þjálfaðist þar mikið í rökræðum og þarna var fólk úr öllum flokkum. Við vinirnir rifumst harkalega um pólitík en gátum samt alltaf verið vinir.“

Baldur segist hafa saknað þess á Laugarvatni að fá ekki að lesa Moggann, sem hann hafði gert frá blautu barnsbeini, en hann fylgdist ávallt vel með fréttum.

„Við fengum blöðin á vistina og þá sá ég fyrst Þjóðviljann, Tímann og Alþýðublaðið. En ekki Morgunblaðið. Þá fórum við nokkrir vinirnir á Morgunblaðið og hittum Matthías og Styrmi og spurðum hvort ekki væri hægt að senda okkur ókeypis eintak. Þeir sögðu það ekki hægt en ef við værum til í að gera umboðsmenn Morgunblaðsins á Laugarvatni, þá væri það hægt. Og einn okkar gerði það auðvitað,“ segir Baldur og skellir upp úr.

Fyrirhyggja í litlum þjóðum

Fyrirhyggjan sem Baldur lærði sem barn í sveitinni kom sér vel síðar í lífinu, en hann lagði fyrir sig stjórnmálafræði með áherslu á málefni smáríkja.

„Ég vildi strax sinna rannsóknum sem myndu gagnast íslensku þjóðfélagi,“ segir Baldur sem kláraði meistara- og doktorsnám í Bretlandi.

„Þessi ábyrgð og fyrirhyggja sem ég lærði hefur mótað mig. Ég hef skrifað svo mikið í mínum fræðistörfum um mikilvægi fyrirhyggju í stjórnun í litlum samfélögum,“ segir Baldur og segist í þrjátíu ár hafa rannsakað hvernig eigi að koma í veg fyrir krísur í litlum ríkjum og hvernig hægt sé að undirbúa sig fyrir yfirvofandi krísur.

„Þessar kenningar mínar um fyrirhyggju í litlum þjóðum eru nú kenndar í háskólum um allan heim og tugir doktorsnema nota þær til að skoða hvernig þeirra eigin ríki eigi að koma í veg fyrir krísur eða undirbúa sig ef þær verða,“ segir hann og bætir við að sér þyki vænt um að rannsóknir hans séu vel nýttar.

Að fá að vera maður sjálfur

Fleira mótaði Baldur, en fjölskyldan upplifði mikinn harmleik þegar bróðir hans lést sem kornabarn. Sjö ára eignaðist Baldur systur og tveimur árum síðar fæddist bróðir hans Bjarki sem var fjölfatlaður, en hann er nýlátinn.

„Þetta var mikið álag á fjölskylduna og ég skynjaði hvað þetta var erfitt fyrir foreldra mína. Bjarki var mjög veikur fyrstu árin og við reyndum að sinna honum heima eins og við gátum. En af því að hann var svo veikur þurfti hann að fara til Reykjavíkur sem barn á stofnun svo hægt væri að sinna hans grunnþörfum, þó hann kæmi reglulega heim. Þetta tók á fjölskylduna en fékk mann til að horfast í augu við lífið,“ segir Baldur og segir klárlega að þetta stóra verkefni sem fjölskyldan tókst á við hafi styrkt sig sem manneskju.

Annað sem tók verulega á Baldur, en var lærdómsríkt, var að koma út úr skápnum.

„Þá getur maður tekið alla slagi við sjálfan sig og aðra! Það sem er mikilvægast er að allir fái að vera þeir sem þeir vilja vera, á sínum forsendum,“ segir Baldur og segist alltaf hafa verið fullur af réttlætiskennd.

Forsetinn hefur mikil völd

Nú þegar lesendur hafa aðeins fengið að skyggnast á bak við manninn er ekki úr vegi að heyra hvaða sýn Baldur hefur á hlutverk forsetans.

„Hlutverk forsetans er að hafa áhrif til góðs. Og ég er svo sannfærður um að það sé hægt að nýta forsetaembættið til þess að hafa áhrif til góðs í tilteknum málum. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að forgangsraða og hef nefnt málefni barna og ungmenna og vil ég að við stöndum þar fremst meðal þjóða eins og við gerum í jafnréttismálum, þó vissulega sé þar enn verk að vinna. Síðan vil ég tryggja mannréttindi og tækifæri fyrir alla í samfélaginu. Einnig vil ég að við nýtum okkar auðlindir, á láði eða legi, en gerum það þannig að við göngum ekki á þær,“ segir hann.

„Forseti á að leggjast á árarnar með stjórnvöldum til að tryggja hagsmuni Íslands erlendis og við eigum að nýta forsetaembættið til að opna dyr fyrir íslenskan almenning, íslensk fyrirtæki, frjáls félagasamtök og stjórnvöld. Forseti á að taka frumkvæði í alþjóðamálum en að sjálfsögðu innan ramma þeirrar utanríkisstefnu sem hver ríkisstjórn markar á hverjum tíma,“ segir Baldur.

„Síðan er mjög mikilvægt að huga að valdsviði embættisins. Mér sárnar dálítið þegar verið er að tala um að forseti hafi ekki völd, því hann hefur mikil völd og þau geta skipt miklu máli. Alþingi ræður för í allri dagsdaglegri lagasetningu en eigi að síður hefur forsetinn þennan neyðarhemil sem er málskotsrétturinn ef Alþingi af einhverjum orsökum gengur ekki í takt við þjóðina. Ef ætti að takmarka tjáningarfrelsi, réttindi kvenna eða hinsegin fólks og ef Alþingi ætlaði að ganga í Evrópusambandið án þjóðaratkvæðisgreiðslu, myndi ég vísa þeim málum til þjóðarinnar. Síðan gegnir forseti mikilvægu hlutverki í að tryggja að það sé starfandi ríkisstjórn í landinu og það getur reynt á það ef verða erfiðar stjórnarkreppur. Þá nýtist mín þekking á íslenska stjórnkerfinu og alþjóðamálum lítilla þjóða og kemur vonandi að notum,“ segir hann og vill að forseti vinni nánar með öðrum ríkjum, sérstaklega Norðurlöndunum.

„Það er sótt að lýðræði og mannréttindum í heiminum og þá er annaðhvort að skríða upp í rúm og breiða yfir höfuð, eða stíga fram úr og spyrna á móti. Og ég er nú að spyrna á móti. Ég býð krafta mína fram til þess að standa vaktina.“

Felix steikir fiskinn á eyðieyju

Eftir að hafa svarað mikilvægum spurningum sláum við á léttari strengi og Baldur svarar fyrst hvort hann búi yfir leyndum hæfileika.

„Nei, en ég leyni á mér í crossfit þó ég sé kominn á sextugsaldur,“ segir hann og brosir.

Hvaða manneskju, lífs eða liðna, myndir þú vilja hitta og leita ráða hjá?

„Nelson Mandela. Ég er mikill aðdáandi hans. Hann var kúgaður og niðurlægður í öll þessi ár en náði eigi að síður að sættast við kúgara sína og leiða sátt í Suður Afríku. Það er til eftirbreytni, að geta slíðrað sverðin.“

Hvaða manneskju, bók, kvikmynd og mat tækir þú með á eyðieyju?

„Ég ætla að taka Felix minn með mér, ég tek bókina Brekkukotsannál því ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef hlustað á hana og notið, og ég tek myndina Brokeback Mountain, um forboðnar ástir kúreka í Bandaríkjunum. Felix getur svo steikt fiskinn sem við veiðum, en hann gerir besta steikta fiskinn. Það er uppáhaldsmaturinn minn!“