Í Bíó Paradís Frá vinstri: Avraham Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, Carrin F. Patman sendiherra Bandaríkjanna og Gerard Pokruszynski sendiherra Póllands.
Í Bíó Paradís Frá vinstri: Avraham Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, Carrin F. Patman sendiherra Bandaríkjanna og Gerard Pokruszynski sendiherra Póllands. — Ljósmynd/Haukur Harðarson
Helfararinnar var minnst með sýningu heimildarmyndarinnar „Bandaríkin og helförin“ í Bíó Paradís síðastliðinn þriðjudag. Að sýningunni stóð bandaríska sendiráðið í samvinnu við sendiráð Þýskalands og Avraham Feldman, rabbína gyðinga á Íslandi

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Helfararinnar var minnst með sýningu heimildarmyndarinnar „Bandaríkin og helförin“ í Bíó Paradís síðastliðinn þriðjudag.

Að sýningunni stóð bandaríska sendiráðið í samvinnu við sendiráð Þýskalands og Avraham Feldman, rabbína gyðinga á Íslandi.

Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ávarpaði fundargesti fyrir sýninguna.

Verjast þarf illskunni

„Það er með ábyrgð og alvöru sem við söfnumst hér saman í kvöld og minnumst eins myrkasta kaflans í mannkynssögunni. Helförin er áminning um að hversu langt sem mannkynið nær þurfum við ávallt að vera á varðbergi gagnvart illskunni,“ sagði Patman og vitnaði í nýleg ummæli Joes Bidens Bandaríkjaforseta:

„Aldrei aftur þýðir einfaldlega fyrir mér að við megum aldrei gleyma. Að gleyma ekki þýðir að við þurfum að halda áfram að segja söguna. Við verðum að halda áfram að segja sannleikann,“ hafði Patman eftir Biden forseta.

„Við þurfum einnig að koma auga á hættur þagnarinnar og afskiptaleysisins. Sagan af helförinni kennir okkur hversu mikilvægt er að vera á varðbergi gagnvart gyðingahatri í öllum sínum myndum, hvort sem það á sér augljósa birtingarmynd sem ofbeldi eða birtist á lævísari hátt sem andúð gegn útlendingum eða útilokun,“ sagði Patman í ræðu sinni.

Í þremur hlutum

Heimildarmyndin The US and the Holocaust er eftir Ken Burns, Lynn Novick og Söru Botstein.

Hún er í þremur hlutum og samtals sex klukkustundir.

Sýnd voru brot úr myndinni í Bíó Paradís.

Rifjað er upp þegar börnum gyðinga var bjargað og þau flutt yfir hafið í stríðinu.