Kindin sem ég drap í desember er minning um kind.
Kindin sem ég drap í desember er minning um kind.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég flutti til Seyðisfjarðar fyrir ári og er komin í meiri tengsl við náttúruna. Hér er listrænt umhverfi og það hefur haft sín áhrif á listsköpun mína.

Heiðdís Hólm sýnir verk á sýningunni Vona að ég kveiki ekki í sem nú stendur yfir á Listasafninu á Akureyri. Heiðdís útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2016 og er með PgDip í myndlist frá Glasgow School of Art 2020.

„Sýningin samanstendur aðallega af olíumálverkum, svo er þarna skúlptúr, lágmynd og teikning á birkiplötu. Þetta eru mestmegnis minningar, skáldaðar eða gerðar út frá tilfinningu. Myndirnar eru fígúratívar og tengjast dýralífi í meira mæli en áður. Ég hef oft unnið með sjálfsmyndir en veit ekki alveg hvort þarna sé að finna slíkar myndir,“ segir Heiðdís sem býr á Seyðisfirði. „Ég flutti til Seyðisfjarðar fyrir ári og er komin í meiri tengsl við náttúruna. Hér er listrænt umhverfi og það hefur haft sín áhrif á listsköpun mína. Um leið er auðveldara að vinna með myndhverfingar og gera ljóðræn verk.“

Spurð um titil sýningarinnar Vona að ég kveiki ekki í segir Heiðdís: „Þetta er kvíðatitill, meiningin er eitthvað í þá átt að vonandi sé maður ekki að klúðra einhverju og ekki að valda of miklum skaða. Þetta endurspeglast líka í verkunum. Eitt þeirra heitir Kindin sem ég drap í desember og er minning um kind sem ég átti smá þátt í að drapst. Þarna brýst fram sektarkennd.“

Þetta er fyrsta einkasýning Heiðdísar í safni, en hún hefur haldið og tekið þátt í ýmsum einka- og samsýningum og myndlistarhátíðum á Íslandi og í Evrópu. „Ég er ánægð með að halda mína fyrstu einkasýningu á Akureyri því ég lærði þar og hef tekið þátt í sýningum á safninu. Listasafnið er heimasafnið,“ segir hún.

Heiðdís starfar hjá LungA-skólanum á Seyðisfirði, sem er listalýðskóli. „Skólinn hefur verið starfandi í tíu ár. Við tökum inn nemendur á öllum stigum, aðallega útlendinga. Hér er verið að brjótast úr hefðbundnu skólaformi og því fylgir að starfsmenn, þar á meðal ég, eru listamenn og eru með stúdíó og sýna verk sín samhliða þátttakendum. Ég er að vinna með listamönnum allan daginn og það hefur greinileg áhrif á listsköpun mína. Þetta er gríðarlega skapandi og skemmtilegt umhverfi.“